miðvikudagur, júní 30, 2004

Ein hola

Mér finnst tannkremsauglýsingin sem er alltaf í sjónvarpinu asnaleg. Þetta er erlend auglýsing þar sem fólk heldur á öllum mögulegum hlutum með GATI og textinn sem lesinn er yfir auglýsinguna er eitthvað á þá leið að sumt fólk viti hreinlega ekki hvað holur eru, þetta væri nú í lagi ef það væri ekki sýndur poki með GATI og nál með AUGA og GÖTÓTTUR ostur.
Annars var ég hjá tannsa í morgun því ég var með eina holu í einni tönn en ekkert gat, það er ekkert gaman og mjög dýrt að fara til tannsa. Ég er nú ekki haldinn neinni tannsafóbíu en er að spá í að fá eina svoleiðis núna strax því tannlækninum tókst að festa efri vörina á mér við einn jaxlinn með einhverju járnarusli sem er sett utan um tennurnar meðan fyllingin er sett í. Ég var ekki viss til að byrja með hvort þetta var vont eða ekki en svo komst ég að því að þetta var mjög vont. Tannsi reyndi að toga vörina úr klemmunni en það var enn verra fyrir vikið, þvínæst losaði hún klemmuna og þá lagaðist allt. Hún spurði mig afhverju ég kvartaði ekki en ég gat lítið sagt því munnurinn á mér var fullur af gúmídúk og verkfærum. Þá töldu þær báðar að ég væri harðjaxl og sögðu að þeir væru sjaldgæfir nú til dags. Ég sagði ekkert því ég er ekki eins viss um að ég sé harðjaxl þó ég kveinki mér lítið við að vörin sé fest við tennurnar. Þegar ég fékk loks að stíga upp úr stólnum var það fyrsta sem ég tók eftir blóðbragð í munninum þannig að ég þreifaði á vörinni sem var pínulítið bólgin og pínulítið sár á henni.
Nú er ég búinn að vaska upp og get því farið að koma mér í vinnugallann og hunskast í vinnuna til þess að vinna þriðja hálfa daginn. Ég er ekkert að grínast með það að ég er eins og útspýtt hundskinn eftir að þrauka allt upp í 5 tíma á vinnustaðnum.

þriðjudagur, júní 29, 2004

Dagur tvö punktur

Ég var aftur mættur á ókristilegum tíma í vinnuna í morgun. Nú þurfti ég ekki að leita að neinu og í þokkabót mundi suðurnesja þrællinn eftir að koma með útvarpið mitt í bæinn þannig að ég gat hlustað smá á kjaftablaður í morgun. Mér líður eins og ég sé hundrað ára eftir að hafa unnið hálfan daginn, spelkan sígur alltaf niður á ökla þannig að þegar ég geng marrar og brakar í hnénu á mér. Ég þarf eitthvað að gera í þessu því það er ekki sniðugt að draslið sé að drepa mann um kaffileitið.
Á morgun ætla ég að mæta eftir hádegi í vinnuna því ég ætla að láta spóla í góminn á mér fyrir hádegi.

*************

Við fórum í heimsókn á æskuslóðir í gær, þar hittum við dönsku prinsessuna sem lék við hvurn sinn fingur og stjórnaði öllu af röggsemi, aðallega þó ömmu sinni. Þannig var nefnilega að amma hennar bauð upp á súkkulaðimola með kaffinu og sú stutta þekkti greinilega hljóðið í bréfinu og kom þjótandi með opinn munn tilbúin að meðtaka sæluna sem í einum súkkulaðimola felst. Foreldrarnir voru ekki eins hrifin af því að sú stutta fengi mikið súkkulaði en hún kann greinilega að bræða ömmu sína því hún fékk einn mola hjá henni, og stóð svo úti á gólfi og reyndi eftir fremsta megni að komast inn í bréfið og afþakkaði hjálp frá pabba sínum með því að snúa sér undan þegar hann gerðist líklegur til að teygja sig í molann. Það er nefnilega vissara að vera ekki að rétta fólki sælgætismola til þess eins að láta taka utan af honum fyrir sig því það gæti farið svo að sá sem tæki utan af molanum gleymdi að skila honum og myndi éta hann sjálfur.

***********

Einn vinnufélagi minn skammaði mig í morgun fyrir að villa á mér heimildir, ég varð vitanlega eins og bjáni í framan og skildi ekkert í því sem hann var að tala um, ég spurði því hvað hann meinti með þessu, hann sagði mér þá að lyfta löppunum meðan ég labbaði um gólfið í húsinu. Ég skildi ekki enn hvað hann meinti og sagði bara að spelkan væri svo þung að ég loftaði ekki löppinni, hann kom af fjöllum og hafði ekki hugmynd um hvað hafði gengið á hjá mér, ég útskýrði það fyrir honum og þá sagði hann að þetta væri óþægilegt því það væri alltaf eins og framvæmdastjórinn væri á ferð, en hann dregur víst hælana þegar hann mætir á svæðið. Ég hafði líka tekið eftir því að alltaf þegar ég var farinn að nálgast vinnufélagana þar sem þeir stóðu og kjöftuðu þá gripu þeir næsta verkfæri og fóru að þykjast vera að vinna, ég hélt þetta væri vegna þess að þeir væru að baktala mig en svo var ekki, þeir héldu einfaldlega að stóri stjóri(sem er lítill) væri að koma aftan að þeim.


Whip The Worker

mánudagur, júní 28, 2004

Morgunstund gefur gull í mund

Það er ekkert flóknara en það að ég þurfti að slökkva á klukkunni í morgun. Ég raðaði í mig ristuðu brauði og drakk ósköpin öll af mjólk með en hellti ekki upp á kaffi því ég vissi að það væri nýlagað í vinnunni. Ég var mættur löngu fyrir tímann því ég þurfti að galla mig upp því gamli gallinn er með klauf á vinstri skálminni eftir að starfsmenn rauðakrossins sóttu mig í vinnuna. Ég fór fram á að fá eitthvað létt verkefni því ég treysti lappardruslunni ekki til að djöflast í einhverju hardcore. Ég var settur beint í eitthvað pilleríis smíðaverkefni fyrir einhverja norska fabriku.
Um hádegi hélt ég að löppin væri dáin því ég var svo þreyttur í hanni eftir þetta létta verkefni.
Nú er ég kominn heim og er byrjaður að hvíla fótinn því ég ætla aftur á morgun í vinnu, þá held ég áfram að smíða þennan ramma sem ég byrjaði á í morgun.

*************

Það er glæsilegt að fylgjast með rimmunni milli sjallanna og forsetans, mogginn sver af sér allar sakir um að hafa hvatt fólk til að skila auðu eða sitja heima. Ég er á því að mogginn hafi tekið skýra afstöðu gegn forsetanum því önnur eins fyrirsögn hefur ekki sést framan á íslensku dagblaði eins og sú sem prýddi forsíðuna á laugardaginn. Nú er spurning hvort mogganum verður ekki veifað í pontu á sumarþinginu og einhver gargar "sjáið fyrirsagnirnar lesið upphrópanirnar það verður að stoppa þessa menn".

*************
Bomb


sunnudagur, júní 27, 2004

Úrslit

Þá eru komin úrslit í forsetakosningunum, Lord Bacon sigraði með yfirburðum tæp 86% féllu í hans hlut. Mér er nokk sama hvað hinir grautfúlu sjallar segja um kosninguna, Þeir eru sennilega hálf fúlir yfir að Bacon fái svona afgerandi kosningu rétt eftir að hann sló á gráðuga puttana á stjórnarflokkunum. Einhverjir varðhundar stjórnarinnar hafa komið fram í fjölmiðlum í dag og lýst yfir ósigri forsetans, hann á að hafa fengið innan við 50% atkvæða allra þeirra sem voru á kjörskrá, við þá segi ég bara autt atkvæti er ónýtt atkvæði og það er eins gott að sitja heima eins og að eyða tíma til að fara á kjörstað og gera ekki neitt þar. Hannes kom í fréttum í hádeginu og slepjaðist eitthvað sagði meðal annars að þetta væri forseti vinstri manna í landinu.Gott hjá þér Hannes! Þú ert í fyrsta sæti hjá mér á listanum yfir ógeð sem ætti að eyða. Gísli Marteinn er í öðru sæti.

**********

Á morgun þarf ég að vakna við vekjaraklukku í fyrsta sinn í níu vikur, það verða sennilega viðbrigði að þurfa allt í einu að mæta á ákveðinn stað á ákveðnum tíma. Ég ætla að byrja á að vinna bara hálfan daginn, svo í næstu eða þar næstu viku vinn ég allan daginn. Fúff ég hlakka til og kvíði fyrir..... sennilega verður þetta eins og að byrja að vinna á nýjum vinnustað því ég hef ekkert unnið á gólfinu á þessum vinnustað því ég er á svokallaðri útideild, sem þýðir það að deildin mín er á stöðugum þvælingi um allt land til að sinna verkefnum.Ég þekki ekki nema einn og einn vinnufélaga með nafni á þessari deild sem ég verð á á morgun.

***********

Ég er búinn að taka ákvörðun með bílinn vegna þess að enginn skilaði viðunandi tilboði í hann í commentunum. Pabbi bauðst til að lána mér bílskúrinn svo ég gæti lagað grindina í bílnum. Ég þygg það með þökkum og ætla að byrja eftir eina til tvær vikur að rífa undan honum bensíntankinn og fleira svo ég komist að biluninni með góðu móti. Ég er reyndar ekkert yfir mig spenntur að ráðast í þetta verkefni því það er lítið varið í að vera skítugur uppfyrir haus undir bíl á sama tíma og maður ætti að vera blóðugur upp að öxlum í veiðinni.

laugardagur, júní 26, 2004

Þá er það búið

Við Meinvill vorum búin að kjósa klukkan ellefu í morgun. Aldrei þessu vant var ekki gott veður þegar við skunduðum á kjörstað, meira svona rok og rigning. Mér finnst alveg nauðsynlegt að kjósa því ef ég kýs ekki þá finnst mér ég ekki hafa efni á að gagnrýna þá sem eru við stjórn. Kjördeildin okkar var í kennslustofu í grunnskólanum sem ég sótti þegar ég var barn, stofan var merkt einum undarlegasta kennara sem ég hef haft, en hann var þó hvergi sjáanlegur. Það hefur ýmislegt breyst síðan ég kom síðast inn í skólann t.d. er gengið inn í hann gegnum smíðastofuna sem þá var en gegnir nú hlutverki skápageymslu. Ég get ekki sagt að það hafi verið nein nostalgía að koma þarna inn.

***************

Meinvill er að spá í að fá sér jeppa, ég er búinn að benda í allar áttir á alla jeppa sem eru minni og léttari en sá sem við eigum núna. Neibb meinvill langar mest í Mússó þó hann sé alveg jafn stór og rauði strætóinn sem við eigum í dag. Ég þarf að kynna mér hvernig varahlutaþjónustu er háttað í umboðinu fyrir næsta jeppa sem við fáum okkur. Núverandi umboð er það lélegasta og dýrasta sem ég veit um. Eitt sinn þurfti ég að kaupa varastykki í jeppann og fór þá rakleitt í umboðið og bað um þessi varastykki það var eitthvað til af þeim en þó ekki öll þannig að ég bað þá um að panta þessa hluti fyrir mig, það ver nú ekki mikið mál "þetta kemur svo í næstu viku til okkar.... hafðu bara samband eftir helgi og við staðfestum þaá að hlutirnir eru komnir" sagði sölumaðurinn.
Ég hafði samband við hann í næstu viku og þarnæstu og vikuna á eftir hringdi ég líka en ýmist voru varahlutirnir á bryggjunni eða nýkomnir í hús en þegar átti að sækja draslið gufaði það jafnóðum upp í búðinni. Þegar þolinmæðin var á þrotum hringdi ég í varahlutasöluna og spurði manninn hvar skjaldbakan með varahlutina væri stödd í heiminum, því næsta hjólaði ég í yfirmann hans og manninn yfir honum og reifst og skammaðist í þeim öllum og þá var ekki að spyrja að því varahlutirnir komu eins og skot fimm vikum eftir að þeir voru pantaðir.

Þessvegna ætla ég ekki að kaupa bíl frá bílaumboðinu neðst í ártúnsbrekkunni.


föstudagur, júní 25, 2004

Bókhald

Ég ætla að fara að gera mér bókhald yfir helstu afrek gegnum tíðina. Bæði þau sem eru manni til framdráttar og líka það sem hefur verið manni til vansa. Eins konar debet og kredit. Á debet reikninginn fer að ég kynntist meinvill og kláraði námið og eitthvað svoleiðis, en á kredit hliðina fer ýmislegt smálegt eins og klaufaskapur í stigabrölti, reykingar og fleira sem maður hefur gert og er ekki sniðugt. Þetta verður lokað bókhald og ekki opið almenningi enda ber manni ekki að opna bókhaldið í einkahlutafélagi. Ætli maður ákveði ekki hversu mörg stig maður fær fyrir það sem er gott og hversu mikill mínus er fyrir það sem er slæmt, svo reiknar maður út um hver áramót hvort maður sjálfur er í mínus eða plús.

****************

Á morgun legg ég leið mína í gamla skólann sem ég sótti þegar ég var barn. Ég ætla ekki að læra neitt þar núna heldur ætla ég að kjósa forseta. Það þarf ekkert að fara í felur með hvern ég ætla að kjósa og það er Lord Bacon. Mér finnst burt séð frá því hverjir eru í boði og annað að það sé alveg nóg að vera með þrjá forseta á launum, Viggu, Frú Eldjárn og Lord Bacon.Í kosningunum 1996 kaus ég annan mann en Bacon ég var alveg þræl skúffaður yfir að hann skyldi ná kjöri, á einhverri krá í miðborginni ætlaði einhver stúlkukind að handrota mig þegar ég fór niðrandi orðum um þennan þá nýkjörna forseta, ég rétt slapp með því að kjafta mig eitthvað út á tún.
Ég held það væri ekki sniðugt að kjósa Baldur sem forseta því ég held það þyrfti að gera umhverfismat á bessastöðum fyrir kallinn því hann myndi skyggja á sólina fyrir fólki í skerjafiriði og er sennilega of breiður til að komast inn um dyrnar á Bessastöðum. Ég veit ekki hvort þið hafið tekið eftir því að í hvert sinn sem hann kemur í viðtal í sjónvarpinu þá er talað við hann í bílageymslunni því það er eini staðurinn sem hann kemst inn í í sjónvarpshúsinu.

Iceland

fimmtudagur, júní 24, 2004

Skakkar lappir

Ég er ekki lengur með skakka löpp en þar sem árið 2004 er núna þá vill maður láta sérfræðing segja sér hvort manni líður vel eða illa. Ég er búinn að tala oftar og meira við lækna á þessu ári en eðlilegt getur talist. Það er samt mjög gott að tækninni hefur ekki fleygt svo mikið fram að maður fái prógram í hendurnar um áramót sem segir manni hvað muni gerast næstu tólf mánuðina.
Ég reyndi enn einusinni að ná tali af Dr sveitalækni í morgun. Eins og ég hef rakið áður þarf maður að komast gegnum skiptiborðið á heilbrigðisstofnuninni áður en maður fær að tala við kallgarminn og þar er gjarnan sagt "gessovel" við flest tækifæri. Ég komst ekki í gegn núna því kallinn er í fríi, bitte nú sagði kellingin. Er hann í fríi jahá og hvenær kemur hann svo til baka úr þessu fríi sínu? Hann verður hér eftir viku. Andskotans Andskotans.
Þetta þýðir það að flestir sem brjóta á sér útlimi þurfa að ganga gegnum sex vikna prósess í batanum og svo geta þeir byrjað að hreyfa sig, ég er búinn að vera sjö eða átta vikur heima með fót í fatla og þarf að bíða heila viku eftir að tala við Dr sveitalækni og svo aðra viku eftir að hitta hann. Sennilega þarf ég að láta ljósrita löppina á mér í millitíðinni.

Það var svolítið sniðugt að nokkrum mínútum eftir slysið var ég kominn inn á bráðamóttökuna á heilbrigðisstofnuninnni. Þegar ég kom þar inn tók á móti mér rúmlega miðaldra maður í hvítum slopp. Hann spurði mig hvort mér væri illt í hálsinum, ég neitaði því, þá bað hann súperbabú að taka kragann af mér sem þeir gerðu. Næst spurði hann hvar mér væri illt, ég sagði honum það samviskusamlega: "mér er illt í hægra hné vinstri ökkla og rassinum". Kallinn potaði eitthvað í hnéð og skipaði mér úr buxunum, súperbabú hjálpaði mér úr öðrum skónum en skurðlæknirinn úr hinum, þeir ætluðu aldrei að finna út úr því hvernig skónum væri lokað, þannig að ég þurfti að benda þeim á appelsínugula flipann sem er rétt ofan við hælinn, þar er skónum lokað með tungu sem er strekkt aftur með ökklanum.

Það næsta sem skurðlæknirinn gerði var að reka súperbabú heim, þeirra krafta var ekki óskað lengur. Ég varð pínu sorrí yfir því vegna þess að ég kunni mun betur við þá en skurðlækninn. Mér fannst ég liggja mjög lengi á bekknum sem mér var skellt á þegar ég kom inn og var ekki alveg viss hvort ég væri einn á stofunni eða hvort það væri einhver annar þarna þannig að ég snéri hausnum aðeins svo ég gæti séð hvort einhver væri fyrir aftan mig. Það passaði skurðlæknirinn var þar við tölvu mjög hugsi. Ég fékk sjokk því ég var viss um að hann væri að slá ínn í tölvuna að sjúklingnum væri ekki viðbjargandi og hann ætlaði heim og myndi skilja sjúklinginn eftir á borðinu.

Ég byrjaði að svitna því ég sá fyrir mér að skúringakonan myndi henda mér út þegar hún kæmi um sjöleitið. Þegar hann var búinn að bjástra heillengi við tölvuna kom loksins eitthvað hljóð frá honum og það var ekki neitt sérlega traustvekjandi:" hvernig ætli maður skrifi beiðni fyrir röntgen"
Jahá hvernig gerir maður það þegar maður er eini læknirinn í þessum landshluta og á að taka á móti fólki sem hefur slasast.

jæja nú er kominn ljósritari sem ætlar að finna út hvort eitthvað er að þér,getur þú labbað sjálfur inn til hennar? ha? Ég veit það ekki ég hef ekkert labbað síðan ég labbaði upp stigann áðan. Ég var reistur upp í rúminu því mér var svo illt í rassinum að mér var fyrirmunað að setjast upp sjálfur, því næst var ég látinn stíga í fótinn svo ég gæti nú valhoppað inn í röntgen. Það var ekki að spyrja að því að ég var næstum dottinn í annað sinn á hálftíma. Hjólastóll var hlutskipti mitt þegar hér var komið sögu, ég hafði aldrei áður sest í slíkt ökutæki en einhverntíman er allt fyrst. Skurðlæknirinn keyrði mig alla leið að dyrunum á röntgenstofunni þar sem stólnum parkerað.Eftir nokkra bið kom hann aftur og þá með ljósritarann sem var í borgaralegum klæðum (leðurstígvél og einhver drapplit föt). Stólnum var næst lagt við hliðina á meters hárri ljósritunarvél sem mér var gert að klöngrast upp á sjálfur(með brotna hnéð). Ég var myndaður bak og fyrir og meðan ég lá þarna spurði ég ljósritarann hvort það gæti ekki verið að hún þekkti hjartað sem ku vera vinkona meinvills jú jú hún kannaðist sko við hana "ég er alltaf að bjóða henni aukavinnu en hún hefur ekki áhuga, hún á sennilega alveg nóg af peningum". Ég heyrði að hún var eitthvað pirruð, sennilega afþví hún var komin heim og var að bíða eftir ER í svartholinu.

Það næsta sem gerðist var það að skurðlæknirinn hótaði að leggja mig inn því hann væri ekki viss hvort það væri eitthvað að mér. Þegar hann hafði varla sleppt orðinu stökk hann fram og sagðist ætla að reyna að finna sérfræðing sem hann og gerði hann kom með Dr sveitalækni með sér inn á stofuna. Dr Sveitalæknir kíkti á hnéð og sagði hið augljósa að það væri nú ekki alveg í lagi með hnéð, hann skoðaði líka ljósritin og sagðist sjá eina rispu en það væri sennilega ekki brot. Restina þekkja allir í næstu ljósritun hálfum mánuði eftir fallið kom brotið í ljós.

Ég mæli ekki með við nokkurn mann að slasast annarsstaðar en á höfuðborgarsvæðinu ef þið látið ykkur detta í hug að slasast annarsstaðar verið þá viss um að þið séuð svo mikið slösuð að þið verðið send í bæinn til aðhlynningar því það er ekkert gaman að elta lækna sem kjósa að starfa úti á landi.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Helvítis helvítis helvítis

Þá er það komið og aðeins tvennt í stöðunni. Annaðhvort sel ég afganginn af bílnum eða geri við hann. Ef ég geri við hann þá þarf ég aðstöðu því þetta er risa aðgerð að laga það sem er að. Hinn kosturinn að selja flakið hljómar heldur skárr í mínum eyrum. Ég veit ég fæ ekki mikið fyrir hann eins og hann er en eitthvað verður maður að gera. Ef þið viljið gera tilboð í leifarnar þá setjið þið það í commentin. Mér er ekki ætlað að ná neinu út úr þessu veiðitímabili.

Pössun

Jæja ég fékk símtal frá Bauna bróður rétt um háttatíma í gær.Hann spurði mig hvort ég gæti litið eftir litlu skvísunni hans einn klukkutíma meðan amma hennar færi til læknis. Ég taldi það nú lítið mál enda sérlega geðgott barn sem um ræðir. Ég ætlaði að láta meta viðgerðina á jeppanum í morgun en ýtti því til hliðar svo ég gæti passað litla skottið.
Ég mætti á svæðið klukkan tíu þannig að ég væri nú frekar tímanlega í því. Þegar allir voru farnir nema ég og sú stutta fundum við okkur nokkrar rúsínur í bolla og bolta til að leika með. Það er nefnilega þannig að um daginn kenndi ég henni hvar má finna góðgæti í húsinu,svokallað mamm. Mamm samanstendur af rúsínum og saltstöngum og er sú stutta fljótt að klappa mamm skápnum þegar ég birtist. Ég er ekki viss um að foreldrarnir séu eins hrifnir af þessari nýju kunnáttu stúlkunnar.
Allt gekk eins og í sögu hjá okkur og ég yfirgaf svæðið upp úr ellefu þegar amman kom heim aftur.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Helvítis

Jæja ég fór með skranið í skoðun áðan. Það var allt í lagi með alla stýrisenda ólíkt því sem ég bjóst við. Einn spindill orðinn slappur og handbremsan ekki til fyrirmyndar. Ég var farinn að brosa breitt því skoðunarmaðurinn var með alla krossana í pennanum þegar hann færði sig frá framendanum og að afturendanum á bílnum.Þá kom sjokkið hann spurði mig hvort ég hefði einhverntíman farið undir bílinn, ég hélt það nú en mig grunaði að fyrst hann spurði að þessu ætlaði hann að segja mér að eitthvað gúmí væri ónýtt í afturdraslinu. En neibb það var ekki svo einfalt aftasti hlutinn á grindinni er svona um það bil að yfirgefa bílinn með gormafestingum og öllu. Þetta þýðir það að ég þarf sennilega að skipta aftasta hlutanum út.helvítis helvítis. það vill til að ég er allur að hressast þannig að ég ætti að geta smíðað nýja grind í bílinn en það er stærra verk en ég nenni að leggjast í fyrir eina bíldruslu. Ég ætla að skreppa á verkstæðið á morgun og athuga hvað körlunum þar finnst um málið og sjá hvort það er ekki hægt að stytta sér leið í þessu máli.

Mússík

Ég hef verið tónlistarunnandi síðan ég var krakki.Það er til mynd af mér þar sem ég sit í gamla ruggustólnum hennar mömmu steinsofandi með sæng og Lenco heyrnartól sem voru mun stærri en hausinn á mér. Þegar myndin var tekin var ég ekki byrjaður að safna.
Mig minnir að ég hafi verið 8 ára þegar ég keypti fyrstu mússíkina, það var segulbandsspóla með hljómsveitinni Kiss creatures og of the night held ég að hún heiti.Ég á hulstrið ennþá en er ekki viss hvað varð af spólunni. Amma keypti hana fyrir mig þegar hún fór að hitta systur sína á Englandi. Það hefur sennilega verið gaman að sjá framan í manninn í búðinni þegar þær systur komu inn í búðina og báðu um kassettu með Kiss og aðra með Michael Jackson sem umhverfisráðherra familíunnar sagði mér að kaupa. Það voru góð kaup í Kiss kassettunni en Jackson hef ég aldrei hlustað á þannig að þar voru bæði gerð góð kaup og mistök í fyrstu innkaupum mínum á tónlist frá breska heimsveldinu.
Nú til dags flyt ég sjálfur inn alla tónlist sem ég kaupi, ég tek yfirleitt 4-5 diska í hverjum einasta mánuði og hef gert svo undanfarin tvö ár, þar á undan tímdi ég ekki að kaupa nema einn til tvo diska á mánuði því eins og flestir vita er einokun á geisladiskamarkaðnum á Íslandi og verðið fáránlega hátt.
Það er frekar undarlegt að maður geti keypt íslenska tónlist gegnum Bretland og maður fær hana 30-40% ódýrari þar en á Íslandi þrátt fyrir að maður þurfi að borga öll aðflutningsgjöld og skatta.
Sama er með DVD diska ef maður flytur inn sjálfur og lætur senda draslið heim er það margfalt ódýrara en hjá eina fyrirtækinu sem selur tónlist á íslandi. Ef menn ætla að gera athugasemd við þetta þá skal þeim bent strax á að BT, Skífan og Hagkaup er eitt og sama fyrirtækið.
Nú er ég enn einusinni byrjaður að safna drasli í körfu á Amazon að þessu sinn held ég að ég reyni að finna disk með yellow-6 sem er Ambient hljómsveit ég er líka að spá í að taka annan disk með Daniel Lanois sem er gítarsnillingur sem ekki ber mikið á en hefur engu að síður unnið með öllum sem einhverju máli skipta í tónlistarheiminum, m.a. U2, Bob Dylan og Brian Eno.
Í síðustu pöntun tók ég Nýjasta diskinn með The Orb, Tangerine dream, Goldfrapp og the 5.6.7.8´s sem margir kannast við sem japanska brimbrettabandið í Kill Bill vol 1.

Famous 2

Imbakassinn

Ef svartholið í stofunni hefur einhverntíman verið til óþurftar þá er það þessa dagana. Þannig er nefnilega mál með vexti að það er búið að færa fréttirnar nær háttatíma í stað þess að færa þær fram um klukkutíma og lengja þá seinni fréttatímann.
Sennilega er þeim seinkað ti þess að kúabændur geti mjólkað og talið hluta af 28 milljörðunum sem þeir fá úr vasa okkar skattgreiðenda.

Skítt með að það sé sýndur fótbolti á besta tíma í svartholinu heldur er svo þáttur á enn betri tíma þar sem einhverjir froðusnakkar tala um fótbolta. Mér er óskiljanlegt að menn skuli nenna að horfa tvo bjána segja hvorum öðrum hvað þeim fannst um leikinn og hver var mesti ruddinn og hver hefði átt að fara í sturtu á undan hinum.
Í gær samanstóð dagskráin af fótbolta frá morgni til kvölds og inn á milli var skotið garðyrkjuþætti og viðtali við lord bacon.Í kvöld er fótbolti og viðtal við tvöþúsundkallinn.
Mér fannst sniðug skýringin hans Hallgríms Helgasonar á friði 2000, hann sagði árið 1999 að við fengjum sennilega frið fyrir honum árið 2000.

***************

Ég ætla að fara með jeppann í skoðun í dag, það er alltaf soldið spennandi að fara með skrapatól í skoðun því maður fær svona innkaupalista stílaðan á bílanaust eða stillingu með bílnum þegar maður keyrir út.Ég veit um eitt eða tvö atriði sem ég fæ græna athugasemd á, annað kostar 1500 kall og mjög skítugar hendur en hitt kostar eithvað aðeins meira og þung hamarshögg á stýrisbúnaðinn.Ég held þeir fari nú ekki að sleppa mér í gegn með alla stýrisendana í lagi,það væri í það minnsta stílbrot.
Ég ætlaði um daginn að fá verkfræðinginn og tilvonandi sænskan nýbúa til að skoða bílinn en hann var svo upptekinn í vinnunni hjá fyrrum skoðunarstöð ríkisins að hann mátti ekki vera að því að kíkja á kaggann.
Annars er hann sjáfstæðismaður þannig að það er eðlilegt að hann fái sér vinnu hjá fyrrverandi ríkiskompaníi, þeir enda allir á spenanum.

Dragster

mánudagur, júní 21, 2004

Góðveðursdagur

Nú er hið mesta góðviðri búið að vera á svölunum hjá mér í dag. Það er svo gott veður að ég setti spelkudrusluna í sófann og skundaði út eftir að hafa makað sólarvörn á alla þá staði sem hendurnar ná til. Ég get samt ekki setið svo lengi í einu því þolinmæðinni er naumt skammtað þegar kemur að því að sitja og gera ekki neitt. Þannig að þegar fréttablaðið var upplesið fór ég og sótti skúringafötu og moppuna sem er búin að vera á leið í tunnuna síðan síðasta sumar og skrúbbaði svalirnar vel og vandlega. Nú er það frá og næst á dagskrá er að pússa gluggann.

*************

Ég er eins og flestir aðrir, mér leiðist alveg óskaplega að fá tölvupóst frá einhverjum fyrirtækjum sem selja þjónustu sem ég hef ekki þörf fyrir. Í gær fékk ég eitt slíkt frá einhverri bílaleigu sem var að reyna að leigja mér bíl (eins og mig vanti bíl í augnablikinu ég á tvo nú þegar). Ég brást ókvæða við og sendi strax skeyti til baka þess efnis að ég hefði engan áhuga á að fá tölvupóst frá þeim og ef þau eyddu mér ekki strax af póstlistanum sínum þá ætlaði ég að láta þar tilgerða embættismenn hafa samband við þau.
Eitthvað tóku starfsmennirnir þetta óstinnt upp og hringdu í mig í hádeginu til að segja mér að þau beittu engum óeðlilegum brögðum til að veiða netföng af netinu (ég var búinn að athuga hvort vodafone hefði gefið upp netfangið mitt.
Enívei kellan hringdi í mig alveg galin yfir dónaskapnum í mér að benda þeim á að ruslpóstur er ólöglegur í fróni. Hún skildi ekkert í þessum hörðu viðbrögðum hjá mér og benti mér á að ég hefði einhverntíman fyrir tveimur árum tekið þátt í netleik hjá þeim og þessvegna hefðu þau nafnið mitt, kennitölu og netfang á lista hjá sér og ákváðu að senda út póst til að athuga hverjir vildu vera á póstlista hjá þeim.

Ég held að maður þurfi að athuga sinn gang með hverjum maður gefur upp netfangið sitt, fyrir nokkrum árum fylltist pósthólfið mitt alltaf af einhverjum áróðri frá ungliðahreyfingu stjórnmálaflokks afþví ég hafði einhverntíman sent þeim fyrirspurn á netinu. Það tók marga mánuði að losna af listanum hjá þeim og gerðist reyndar ekki fyrr en ég hætti að vera kurteis og hótaði þeim öllu illu ef þeir hættu ekki að senda mér óumbeðinn póst. Það virkaði og ég hef ekki fengið neitt frá þeim síðan.

Allavega, ég fæ ekki aftur póst frá þessari bílaleigu og ég er ekki viss um að blessuð konan kæri sig um að leigja mér bíl á næstunni.

***********

jæja það er spurning um að athuga hvort það sé ekki swaka gott veður á svölunum ennþá þannig að ég geti pússað gluggann.


Maid

sunnudagur, júní 20, 2004

Næturgestur

Hálf-ítalinn kom til okkar í gær, mamma hans fór eitthvað út á lífið og kom guttanum fyrir hjá okkur á meðan. Hann lék á alls oddi og sýndi okkur hvert leikfangið á fætur öðru og lét okkur lesa sömu bókina aftur og aftur. Við steiktum svo silung sem ég veiddi fyrir westan, meinvill mátti hafa hraðar hendur til að fóðra ungann því honum fannst þetta greinilega herramanns matur. Um kvöldið fórum við og heimsóttum ömmu hans og afa, þar fékk hann helíumblöðru sem vakti mikla lukku.
Við byrjuðum daginn frekar seint því guttinn fór frekar seint að sofa. Að loknum morgunverði fórum við niður að læk til að gefa (BABA) öndunum.(ég ætla að setja eina mynd af þeim gerningi inn í albúmið mitt). Þegar það var búið brunuðum við í hádegismat til moms, þar tók danska prinsessan á móti okkur. Við fengum súpu og brauð og sér gestirnir fengu skyr til að klína upp í sig og á fleiri staði sem skyr á ekki alveg heima á.
Þegar við yfirgáfum svæðið smellti hálfítalinn kossi á dösku prinsessuna við mikinn fögnuð viðstaddra, þetta var eins og klippt út úr einhverri barnamatsauglýsingu.


*************


Framan á Fréttablaðinu í dag er frétt um konu sem fannst látin í Fossvoginum. Þetta minnir mig á það þegar ég var fyrir 15 árum að sigla á seglbretti í Nauthólsvík og maður kom hlaupandi til mín og spurði hvort ég væri ekki í blautbúningi. Ég gat ekki annað en játað því því ekki leit fatnaður minn út fyrir að vera úr silki. Hann gargaði þá á mig að ég yrði að koma og hjálpa honum því það væri kona að reyna að drekkja sér í sjónum hinumegin við garðinn sem nú er að mestu búið að rífa. Ég verð að viðurkenna að ég þorði ekki að gera neitt því ég vissi ekki nema konan myndi drekkja mér líka. Ég sagði manninum að ég hefði ekki kjark í að vaða eftir konunni, ég vissi ekki heldur hvort hún væri með eggvopn eða eitthvað þessháttar ofan í sjónum. Þess ber að geta að ég var bara 15 ára þegar þetta gerðist og var engan veginn tilbúinn að fara að vaða út í sjó til að reyna að draga drulludópaða kellingu í sjálfsmorðshugleiðingum að landi. Ég mann enn hvernig sting ég fékk í magann þegar ég sá hana þar sem hún stóð í sjó upp í bringu og stakk svo hausnum ofan í sjóinn þannig að bara bakið stóð upp úr. Til allrar hamingju kom löggan skömmu síðar á staðinn og reif hana upp úr, ég man ekki hvort einn þeirra fór út í til að sækja hana eða hvort þeir skipuðu henni bara að koma upp úr. Svo var hún leidd upp úr fjörunni og farið með hana í lögreglubíl í burtu.

Tveimur eða þremur árum áður en þetta gerðist var ég að keppa í siglingum á þessu sama svæði nema bara hinumegin í voginum. Þá höfðu tveir menn týnst annar á jeppa en hinn hafði verið á djamminu og hvarf sporlaust. Eitthvað var það samt sem tengdi annan manninn við Fossvog og var mikið leitað að manninum þar en án árangurs. Áður en við fórum út á voginn að sigla var okkur skipað að hafa augun hjá okkur ef við skyldum sjá eitthvað torkennilegt fjótandi. Ég man enn hvað var sagt við okkur;"það er hugsanlegt að það hafi maður drukknað hér í voginum, ef þið sjáið eitthvað torkennilegt eins og jakka fjótandi í sjónum þá megið þið alls ekki snerta það heldur komið þið beint í land og látið okkur vita hvar þið sáuð þetta fljótandi".

laugardagur, júní 19, 2004

Allt í áttina

Jæja í gær fór ég inn í vinnu til að boða komu mína í vinnu. Ég á að mæta stundvíslega klukkan 7:30. Ég ætla að byrja á að fá mér nýjan vinnugalla í stað þess nýja galla sem var klipptur utan af mér fyrir ferðina í sjúkrabílnum. Ég er búinn að kaupa mér nýjar buxur því það dugði ekki að klippa bara gallann neibb buxurnar fuku líka. Ég þarf því að fara að drífa mig að klára allt sem ég ætlaði að klára í þessu langa veikindarfríi. Meðal annars að láta skoða bílinn sem átti að gerast einhverntíman fyrir leysingar, ég ætla líka að flýta tannlæknatímanum sem ég á að fara í í þarnæstu viku. Annars er ég bara spenntur að fara að komast út til að hitta fólk og heyra kjaftasögur.


**************

Mikið er ég sammála þeim sem hafa gagnrýnt hið forpokaða þjóðdansafélag fyrir afstöðu sína gagnvart öðrum en bleiknefjum. Mér finnst að ef þetta lummufélag fær einhverja opinbera styrki þá á að svipta það þeim eins og skot og helst að láta það endurgreiða það sem það hefur áður fengið.


Dancing Couple

fimmtudagur, júní 17, 2004

Fundir og mannfagnaðir

Við fengum góða gesti í gærkvöld, þar voru á ferðinni baunverska fjölskyldan umhverfisráðherrann,listamaðurinn og mamma og pabbi. Ég hafði tekið mig til og bakað ofan í mannskapinn og hellti upp á kaffi þannig að þetta var með sárra móti fyrir kaffiboð á virkum degi. Litla frænka sá til þess að manni leiddist ekki, hún þrammaði styrkum fótum um íbúðina með mjólkurglas í hönd, öðruhvoru stoppaði hún hjá einhverjum og rétti viðkomandi glasið, hristi svo hendurnar,tók glasið og labbaði til næsta sem átti að halda á glasinu. Hún var orðin alveg dauðuppgefin á öllu saman í restina og gekk ekki eins styrkum fótum rétt fyrir heimferð. Ég frétti af henni þar sem hún sofnaði í bílnum á leiðinni heim og rumskaði ekki fyrr en í morgun.

**************

Ég er að verða svo góður í löppinni að ég er að spá í að fara bara að vinna á mánudaginn eftir viku. Ég ætla ekki að byrja með einhverjar stórar yfirlýsingar þegar ég mæti í vinnuna. Ég er einfaldlega of hjátrúarfullur til þess. Ég ætla að tala við stóra stjóra til að byrja með og sjá hvar á landinu ég á að vera. Ég er að vona að ég verði bara í námunda við höfuðstaðinn þannig að ég geti unnið hálfan daginn til að byrja með.

Daginn sem ég settist úr þriggja metra hæð var ég búinn að vera eitthvað latur og var marg búinn að segja strákunum að ég vildi að það væri föstudagur en ekki fimmtudagur því þá væri frí á morgun. Ég var í fríi daginn eftir og alla helgina og er reyndar ekki búinn að vinna handtak síðan þetta gerðist fyrir sex eða sjö vikum síðan. Ég lýsti því líka yfir við vinnufélaga sem hafði dottið úr sömu hæð og ég (hann lenti á perunni) að mér þætti bara eðlilegt að menn fengju full laun í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir svona slys eins og hann lenti í. Á meðan ég rausaði þetta yfir honum hellti ég málningu í bakka og fann mér rúllu því ég ætlaði að klára að mála smá frímerki sem ég átti eftir svona rétt áður en maður færi heim. Það leið ekki mínúta frá því ég æsti mig þarna þar til ég lá í gólfinu og gat ekki staðið upp.

**************

Nú er sautjándi júní og hátíðarhöldin hér á endimörkum höfuðborgarsvæðisins eru ekki langt frá stofuglugganum mínum. Nú rétt í þessu var verið að grenja nýjasta júróvisíonlagið inn um gluggann hjá okkur Meinvill.Djöfulsins agalegur hryllingur er að heyra þennan óskapnað sem fékk nánast ekkert stig í keppninni.
Mér finnst að það ættu að vera reglur um lög sem fá næstum engin stig í júró þau ættu að vera bönnuð. Það segir sig sjálft að ef lag er svo lélegt að enginn er tilbúinn að gefa því stig þá ætti að láta svoleiðis kosningu vera bindandi.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Mjaltakona úr sveit

Ég á ömmu sem hefur mjög sterkar skoðanir á flestu. Þegar ég var lítill sagði hún að þessi kelling sem þá var ný orðin forseti væri eins og mjaltakona úr sveit. Við systkynin sögðum henni að það væri bölvuð vitleysa hún kæmi mjög vel fyrir og væri hin ágætasta í alla staði. Ég geri mér grein fyrir að ég hefði samkvæmt öllu ekki átt að hafa neitt vit á svonalöguðu enda aldur minn þá enn skrifaður með einum tölustaf. Þessi forseti sat að mig minnir 16 ár allt til ársins 1996.
Mér finnst alltaf aðdáunarvert þegar fólk þorir að segja sína skoðun og er tilbúið að standa við hana, mér finnst enn aðdáunarverðara þegar fólk er tilbúið að skipta um skoðun og verja jafnvel það sem það var áður mótfallið, mér finnst það bera merki um þroska. Það versta af þessu er þegar fólk virðist ekki hafa neina skoðun. Það er sammála öllum sem tala jafnvel þó allir tali á móti hverjum öðrum. Mér finnst mjaltakonan vera í sísta flokknum þ.e. hún segir mörgum árum eftir að hún stóð upp úr stólnum að hún hafi haft einhverja skoðun og verið að spá í hitt eða þetta en gerði ekki neitt. Svo vogar þessi gunga sér að koma trommandi upp og gagnrýna sitjandi forseta fyrir að hafa skoðanir og þora að standa við þær. Vigdís farðu heim til þín í Baunveldi og vertu þar.
Það er spurning hvort hún hefði þorað að veita verðlaun á einhverri listaspíruhátíð ef Lára í Laujabúð hefði málað stytturnar, gunguskapurinn er algjör í þessari manneskju.

Nú eru átta ár síðan mjaltakonan stóð upp úr forsetastólnum og ég fæ hroll í hvert einasta sinn sem hún kemur í blöðum, útvarpi eða sjónvarpi. Það má vel vera að blessuð konan uppfylli allt sem ég hef áður skrifað að þurfi að prýða góðan forseta þ.e. tungumálakunnátta, diplómat og allt það. Stundum fer fólk bara í taugarnar á manni án þess að maður geti sett puttann á hversvegna. En ég get sett alla tíu puttana á pirringinn út í Mjaltakonuna.


Thumbs Down

þriðjudagur, júní 15, 2004

Slökun

Ég er búinn að fatta hvað þetta er sem er búið að hrjá mig síðan ég kom að westan. Svona lagað heitir spennufall og hrjáir mann þegar maður er búinn að vera rosalega spenntur eða stressaður yfir einhverju verkefni sem síðan skyndilega klárast. Það er nefnilega það og ég sem hélt ég væri eitthvað slappur eða veikur.

Í dag hlustaði ég á Dægurmálaútvarpið á Rás 2, þar var furðulegi friðarpostulinn og tómatsósu kallinn sem ætlar að verða forseti lýðveldisins. Hann er alveg jafn skrýtinn í útvarpi og sjónvarpi. Hann rausaði einhver ósköp um hvað hann ætlaði að gera forsetaembættið að friðarembætti og jakidi jak. Fólki gafst kostur á að hringja inn og leggja spurningar fyrir forsetaframbjóðandann, fæstir spurðu nokkurs heldur bentu honum á að draga sig í hlé og hætta þessu bulli. Það er nefnilega þannig að stundum finnst manni fyndið þegar einhver hefur mjög skrýtnar skoðanir, maður hlær bara að mönnum og er ekki viss hvort þeir eru svona skrýtnir eða að þeir séu að gera grín að manni. Maður bíður eftir að viðkomandi skelli uppúr og segi: "Bara að djóka, sjá svipinn á þér". Það er bara ekki svo farið með þennan frambjóðanda, hann heldur dellunni stanslaust á lofti og springur ekki úr hlátri og segir: Bara að djóka. Nei hann verður bara vondur og sakar alla um samsæri gegn sér. Ég er ekki viss um að það sé neitt samsæri gegn honum heldur er fólk bara hætt að hlusta á innihaldslaust bullið í blessuðum manninum.

Hinn frambjóðandinn er ekki skárri en friðarpostulinn. Hann heldur fámenna framboðsfundi á öllum þeim stöðum sem fólk kemur ekki saman á. Elliheimili og Íslendingar í Danmörku er markhópur hans kannski hann haldi ræður í kirkjugörðum og á leikskólum. Hann hefur eitthvað mjög dularfull baráttumál sem ég er ekki viss um að henti forseta. Einu kröfurnar sem maður gerir til forseta er að hann sé sæmilega sleipur í nokkrum tungumálum komi vel fyrir og sé svolítill diplómati.

Ég kaus ekki Lord Bacon þegar hann bauð sig fyrst fram, mér leist ekkert á að fá gamla kommaforingjann á Bessastaði og ekki fannst mér það bæta málstað hans að hann hafði verið í framsóknarflokknum. Ég var alveg rosalega fúll að hann skyldi ná kjöri en ég er alveg sáttur við hann núna. Mér finnst ágætt að hann skrifaði ekki undir delluna hans Dabba Druslu mér finnst líka ágætt að hann skyldi velja svona lítið mál sem er hjartansmál Druslunnar. Við þurfum að fá á hreint hvað þessi málsskotsréttur stendur fyrir.

Meinvill er orðin sportisti og það sem meira er tískusportisti. Hún fer flest kvöld vikunnar og púttar. Það geislar alveg af henni þegar hún kemur heim að loknu vel hepnuðu pútti. Mér finnst gaman þegar fólk finnur sér áhugamál sem fangar huga þess algjörlega. Veiðin skipar þennan sess hjá mér en golfið hjá Meinvill. Fyrir mörgum árum reyndi mamma að fá golfdelluna, það var áður en þetta varð svona svakalegt tískusport, hún hætti þegar hún fékk kúlu á og í hausinn.


Tee Off

Útkeyrður

Ég get svo svarið það að ég held ég hafi farið eittvhað aðeins fram úr mér um helgina því ég er búinn að vera svo skelfilega þreyttur eitthvað síðan ég kom heim. Sennilega eru þetta afleiðingar þess að ég er búinn að sitja á rassinum síðan 29.apríl. Þegar ég var uppi við vatn var ég orðinn svo þreyttur í skemmdu löppinni að hnéð skalf. Það var frekar óþægilegt að finna löppina hristast svo mikið að spelkan glamraði.

En að allt öðru þeir sem mig þekkja vita að ég hef gaman af að snúa út úr hlutum og finna einhverjar bjánalegar merkingar hlutanna. Eitt fann ég mjög bjánalegt á textavarpinu (sem er endalaus uppspretta skringilega orðaðra frétta) hún hljómr svo:"Samkvæmt nýjum heimildum átti að gera árásirnar á New York og Washington 11.september árið 2001 að vori". Já þið lásuð rétt 11.sept að vori. Eitt sinn var fyrirsögn á forsíðunni hjá þeim sem hljómaði svona "Fellibylur veldur hvassviðri" já já hverjum gat dottið það í hug.

Annars var ég eitthvað pínu andvaka í gær vegna gengdarlausrar kaffidrykkju hjá mömmu um kvöldið. Þannig að ég fór í tölvuna og fór að skoða gamlar myndir á heimasíðu ljósmyndasafns Reykjavíkur. Ég fletti myndum stanslaust í einn og hálfan tíma og svo aftur í klukkutíma í morgun og held ég sé ekki hálfnaður. Mér finnst gaman að skoða svona gamlar myndir og sjá hvað bærinn hefur breyst. Slóðin inn á síðuna er hrient ekki stutt www.ljosmyndasafnreykjavikur.is ef þið viljið skoða síðun gerið þið bara copy og paste því ég nenni ekki að læra að setja inn linka núna.

mánudagur, júní 14, 2004

Ferðin um helgina

Við brunuðum úr bænum síðdegis á föstudag. Fyrsti viðkomustaður eftir að við komum út af höfuðborgarsvæðinu var Mosfellssveit. Þar var farið í búðina sem er með mynd af forsetanum á burðarpokunum og Ríkissöngolíuverslunina. Ferðafélagarnir gerðu stólpagrín að hækjunum mínum allan tíman meðan við vorum í búðinni sem sparar fyrir mann peninga.
Næst lá leiðin í Hreðavatnsskála þar sem bestu hamborgarar landsins fást og þrusu pizzur, þar borðuðum við kvöldmat. Næsta stopp var í Búðardal (sem ætti að skrifast með litlum staf því þetta er skítapleis) þar var tankað á stórabílinn og menn teygðu úr sér. Svo var ekkert stoppað fyrr en komið var í Heydal ef frá er talið eitt stutt afvötnunarstopp á Þorskafjarðarheiði sem bæ ðe vei er orðinn fínasti vegur. Í Heydal var fínasta veður en frekar kalt, við fengum lykil að bústaðnum og skoðuðum gistiaðstöðuna sem búið er að setja upp á staðnum. Þegar það var búið brunuðum við í bústaðinn sem er yst í dalnum. Þar sátum við fram yfir miðnætti og kneyfuðum öl úr krús og sögðum lygasögur, einn úr hópnum var full bjartsýnn og tók með sér pottflösku af gammel dansk (sem er eitur fyrir gamla dani) og hélt að full frískir menn myndu dreypa á þessu. Þeir kurteisu í hópnum tóku eitt staup hver og grettu sig ógurlega. Ég sagði manninum sem bauð þetta að ég hefði smakkað svona og það dugði til að ég var afsakaður.

Laugardagurinn rann upp mað sól í heiði og gríðarlegu flugnageri við vatnið, en það átti eftir að breytast. Við stoppuðum bílana á bakkanum og stukkum út það mátti enginn vera að því að kjafta núna því það lá á að veiða fisk. Nú var ekki gert grín að hækjunum mínum því í öllum æsingnum og spenningnu gleymdi ég hækjunum í bílnum og var kominn niður að vatni á undan öllum. Þegar næsti maður kom á tangann byrjaði hann á að gera grín að mér fyrir að vera ekki á hækjunum, Það er vandlifað í þessum heimi. Veiðin byrjaði vel og það leið ekki langur tími þar til fyrsti fiskur kom að landi, það var vænn urriði sem ég fékk á makríl.
Þegar við vorum búnir að vera við vatnið nokkrar mínútur byrjaði að blása sem var svosem ágætt því þá hurfu flugurnar svo byrjaði að rigna og skömmu síðar var komið ömurlegheita veður rok og rigning og frekar kalt. Við létum það ekki á okkur fá og veiddum okkar 70 fiska.
Um kvöldmatarleitið skröngluðumst við niður af fjallinu og komum við í heitum potti sem staðsettur er í fjöruborðinu í Mjóafirði. Venjulega tekur maður sápu með sér í pottinn og þvær sér hátt og lágt en í þetta sinn var potturinn svo skítugur að enginn varð hárþvotturinn í þetta sinn. Þeir sem hafa komið í laugina á Lýsuhóli kannast við mikið slý í lauginni og svoleiðis var potturinn að innan þegar við komum í hann á laugardaginn semsagt bölvaður drullupyttur. Eftir pottinn var haldið í mat í Heydal og voru miklar kræsingar á borðum eins og venjulega þar á bæ. Dagurinn endaði svo með því að við fórum í bústaðinn og fengum okkur einn til fjóra bjóra.

Sunnudagur rok en engin rigning og engin veiði frá bakkanum, þeir sem voru á bátnum fengu slatta en það voru helmingi færri og helmingi minni fiskar en daginn áður. Ég tók bara einn fisk af bakkanum og hann var svo lítill að ég nennti ekki að hirða hann. Eftir veiðileysisdaginn á fjallinu var haldið í pottinn aftur, í þetta sinn nennti ég ekki með ofan í og fylgdist bara með af bakkanum til að byrja með en fór svo upp í bíl og beið eftir hinum þar. Ég hefði betur verið lengur á bakkanum því þeir sem voru í pottinum mönuðu hvorn annan upp í að fara út í sjó og synda þar,þessu missti eg af. Eftir pott var farið í bústaðinn og gengið frá og horft á formúluna, svo var brunað af stað heim. Við komumst ekki langt því eftir einungis 5 km akstur kviknaði í stærri bílnum, þetta var alveg bráðfyndið atriði því skyndilega snarstoppaði bíllinn fyrir framan okkur og allar hurðir opnuðust og út stukku kallar í allar áttir. Sem betur fer var lítill sem enginn eldur heldur hafði dagljósabúnaður bílsins brunnið yfir. Meðan verið var að ganga úr skugga um að bíllinn væri ekki að brenna fór einn að kafa ofan í vasa hjá sér og fann þá lykilinn að bústaðnum, það hafði gleymst að skila honum. Við tókum lykilinn og brunuðum til baka til að skila honum. Nú var okkur ekkert að vanbúnaði að bruna í bæinn með einu stoppi í búðardal með litlum staf, þar fengum við saltborgara með líter af sósu og linu grænmeti, mér var ekki nokkur leið að renna þessu ógeði niður og þurfti að kaupa mér ópal til að eyða bragðinu. Ef þið eigið leið um búðardal munið þá að kaupa ykkur ekkert að borða, það eru sjoppur og veitingastaðir sithvorumegin við skítapleisið. Bara verðið ætti að fæla frá 960 kall fyrir óætan hamborgara og kók.(0,5ltr kók kostar 220)

Thunderstorms

föstudagur, júní 11, 2004

Veiða eða sleppa að veiða

Til eru menn sem deila áhugamáli með mér að hluta til. Þeir veiða fisk eins og ég geri en öfugt við það sem ég geri þá sleppa þeir fiskunum sem þeir veiða. Þetta kalla menn að veiða og sleppa. Ég hef ekki fundið þörf hjá mér fyrir svona dýrapyntingar ég ýmist rota fiskinn eða sker á tálknin, svo ríf ég innan úr honum og set svo í poka og fer heim með aflann ef einhver er og gef vinum og vandamönnum ef ég elda aflann ekki sjálfur. Ég skil ekki hvað menn fá út úr að sleppa fiskinum sem þeir veiða. Mér finnst þetta svipað og að fara út í búð og fylla körfuna af rándýrum kræsingum fara á kassann, borga og raða svo vörunum aftur upp í hillu og labba tómhentur út.

Símskeyti

Ég fékk símskeyti frá danaveldi áðan þar sem hinn danskbúandi bróðir minn opinberaði einkunirnar sínar. Ef þið viljið fá töluna þá hringið þið bara í hann á morgun því þá verður hann kominn í foreldrahús. Semsagt hann er að koma á klakann. Ég er ægilega spenntur því ég hef ekki séð hann síðan í janúar. Familían hans kom á undan honum og ég er búinn að hitta þær skvísur tvisvar. Það væri kannski ráð að baka köku og bjóða þeim í kaffi í næstu viku. Og jafnvel að kaupa ís handa frænkunni.
Það verða allir meira og minna á ferðinni næstu tvo daga því umhverfisráðherra ættarinnar kemur úr rigningunni á austurlandi í dag og foreldrarnir koma frá útlandinu með myndavélinni í kvöld og Bauni bróðir kemur svo á morgun eins og fram hefur komið. Ég ætla aftur á móti í hina áttina og skella mér westur á eftir eins og glöggir lesendur hafa jafnvel tekið eftir.

Ég er búinn að pakka og er að spá í að fara út á stétt og bíða eftir að verða sóttur. Ég held samt að Meinvill komi ekki heim fyrr en klukkan fjögur þannig að mér verður sennilega orðið kalt á að bíða.

Vacation

fimmtudagur, júní 10, 2004

Klappað og að mestu klárt

Þá er nú allt að verða klárt fyrir túrinn. Ég gerði mér ekki grein fyrir að myndavélin mín kæmi ekki úr útlandaferðinni sinni fyrr en eftir að ég fer úr bænum þannig að ég verð bara að leggja túrinn á minnið í þetta sinn. Annars var ég skrambi duglegur í dag og brunaði um allan bæ í útréttingum ég komst meira að segja í ríkið þar sem einhver kona vorkenndi mér heil ósköp fyrir hækjurnar þegar ég missti aðra þeirra í gólfið, hún stökk fram og bauðst til að rétta mér hana en ég var svo snöggur að grípa hækjuna að hún fékk ekki tækifæri til að virkja góðmennsku sína í þetta sinn. Ég fór því næst í kauffélagið og keypti kost eins og matur heitir víst þegar menn ætla að veiða fisk, ef menn lenda í hremmingum breytist kosturinn í vistir. Fyrir mér er þetta allt matur. Ég keypti nú aðallega eitthvað að drekka og eitthvað smá til að borða á morgnanna og yfir daginn en veisluþjónustan í Heydal sér um kræsingarnar á laugardagskvöldið.


Annars heyrði ég í ferðafélögum myndavélarinnar í dag, þau voru komin til London og voru sest í rútu sem þau töldu að væri á leið til Oxford. Ég heyrði ekkert glamur í fölskunum sem ég er viss um að þau hafi látið smíða upp í sig í Búlgaríu. Það er séns að þau hafi verið með super corega extradent tannlím.


Umhverfisráðherra fjölskyldunar hringdi í mig úr rigningunni fyrir austan í dag. Hún byrjaði á að segja mér hvað á síðasta sólarhring hafði drifið og svona eitt og annað. Svo vatt hún sér að efninu: "getur þú nokkuð brunað í höfuðstaðinn og hjálpað listmálaranum eitt augnablik, hann ætlar nefnilega að kaupa sjónvarp". Ég játaði því alveg eins og skot og byrjaði svo að finna leið út úr hremmingunum sem ég var búinn að koma mér í. Ég hringdi beint í Meinvill og spurði hvort það mætti ekki skipta á kjötflís og greiða. Svarið kom um hæl, jebbb, ég slapp. Sem betur fer því ég frétti þegar Meinvill kom heim að Listmálarinn hafði ekki bara keypt 28" svarthol í stofuna hjá sér heldur líka DvD spilara. Þegar Meinvill var búin að keyra hann heim með svartholið og spilarann steig málarinn út úr bílnum með spilarann í fanginu og stikaði að hurðinni. Á eftir kom Meinvill svartrauð í framan með svartholið í fanginu.
Nú má ekki misskilja þetta, óþverraskapurinn felst ekki í því að láta Meinvill bera 40 kg svarthol upp á aðra hæð, hana munar ekki um það, neibb óþverraskapurinn felst í efninu sem á að horfa á í þessu. Það er hvorki lista og menningarþátturinn Mósaík né Garðyrkjuþátturinn í einum grænum neibb það er fótbolti jamm segi og skrifa fótbolti hananú. Hverjum dettur í hug að kaupa sér sjónvarp til að horfa á fótboltaleiki í? Ég hefði skilið ef það hefði verið garðyrkjuþáttur eða garðpallasmíðaþáttur sem hefði dregið hann í þennan leiðangur þar sem þau eru nú að fá hálfan garð til umráða. Neibb fótbolti.

Soccer 2



Vesen

Jæja ég er búinn að eyða morgninum í vesen. Ég byrjaði eins og alla aðra daga á að fá mér rótsterkt kaffi við tölvuna, þegar það var búið skakklappaðist ég út í bíl og brunaði í foreldra hús þar sem ég þrammaði með slöngu um allan garð til að sjá til þess að gamla fólkið geti notið sumarblómana sinna í sumar þrátt fyrir útstáelsið sem er á þeim. Þegar það var búið brunaði ég sem leið lá í veiðibúðina til að kaupa dauðan fisk til að veiða lifandi fisk á. Og nú þarf ég að bruna aftur út til að finna mér eitthvað til að naga í túrnum.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Kjarakaup

Eins og flestir sem lesa þessa síðu vita ætla ég að leggja land undir dekk á föstudag og skella mér í veiði Westur á firði og koma svo í bæinn á sunnudag vonandi með önglana í veiðiboxinu en ekki einhversstaðar annarsstaðar þar sem þeir gætu verið til óþæginda. Ég er búinn að þjást nóg á þeim stað eftir að ég settist á gólfið úr þriggja metra hæð. En til þess að ég geti farið í þennan veiðitúr þarf ég stól því ekki gengur að vera á hækjunum og ætla líka að halda á stönginni. Ég fór því á rúntinn í gær til að finna mér sæmilegan stól. Leiðin lá í Kópavog sem ég spái að verði orðinn höfuðborg landsins innan 50 ára.
Reyndar gerði ég svaka verslunarferð úr þessu því ég fór líka í vinnufatabúð til að kaupa buxur í stað þeira sem rauðikrossinn klippti utan af mér. Enívei ég fór semsagt í Hagkaup í Smáralind til að finna mér stól, þeir áttu nefnilega fína stóla á góðu verði í fyrra; tvöþúsundkall stykkið. Ég fann mér eithvað stæði frekar nálægt dyrunum þar sem maður getur labbað beint inn í Hagkaup og þarf ekkert að freistast af ríkinu sem er beint á móti hinum innganginum, ég brunaði á fleygi ferð framhjá geisladiskunum(mikið úrval af barnadiskum á 999) og sem leið lá að snyrtivörunum. Stólar eru ekki snyrtivörur en samt voru þessir nú innan um ilmvötn og rakspíra. Ég varð hálf sjokkeraður því verðið hefur verið lækkað um fimmhundruðkall frá því í fyrra og samt eru stólarnir enn með glasahaldara. Stólarnir er afgreiddir í pokum með axlabandi þannig að maður getur sveiflað þeim upp á öxlina samanpökkuðum og fyrirferðarlausum. Ég greip tvo stóla fyrst verðið var svona gott og ætlaði að rjúka af stað en þá fattaði ég að ég var með tvo stóla og tvær hækjur í fanginu og átti eftir að koma mér að kassanum sem er hinumegin í búðinni. Það eina sem var hægt í stöðunni var að halda bara á hækjunum og stólunum að kassanum og reyna bara að fara vel með fótinn í leiðinni. Ég held að þeir sem sáu til mín hafi haldið að ég væri eitthvað skrýtinn að þramma um drag haltur með hækjur í fanginu. ég náði svo að laga mig betur til áður en ég fór út úr búðinni og komst á hækjunum út í bíl með stólana á öxlinni.

Bætt þjónusta betra verð

Þegar ég eignaðist minn fyrsta GSM síma var bara eitt símafyrirtæki sem maður gat skipt við og það var Landsími Íslands. Starfsfólkið var vant því að fólk gæti ekki farið neitt annað með viðskipti sín þannig að það þekktist ekki að til væri neitt sem hét þjónustulund inn veggja þessarar stofnunar. Ég var orðinn tuttugu og fjögurra ára þegar ég eignaðist þennan síma sem þótti ansi lítill og nettur á sínum tíma, en er í raun á stærð við hálfslíters kókflösku. Það háttaði þannig til á þessum tíma að ég var í óða önn að berjast við að borga skemmtanaskattinn og áfengisgjaldið til ríkisins einnig var reynt eftir fremsta megni að styrkja stétt leigubílstjóra í leiðinni. Þannig að flestar helgar fóru í að ná augnkontakti við barþjón svo maður fengi afgreiðslu og gæti haldið áfram að fúaverja sig að innan. Í einni af þessum menningarferðum í höfuðstaðinn slökknaði á símanum mínum, sem væri svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að ég hafði sennilega náð full oft augnkontakti við barþjóninn þetta kvöld þannig að ég gat ómögulega munað leyninúmerið á símann. En þrátt fyrir það var ekki gefist upp við að reyna við númerið og þegar ég var búinn að reyna nokkuð oft að slá inn réttar tölur kom einhver skipun um að ég ætti að slá inn einhverja aðra gerð af talnarunu svokallað puk númer sem er ennþá lengri runa en pin númer. Skynsemin var í einhverjum öðrum bæjarhluta en ég þessa nótt þannig að ég ákvað að reyna bara að giska á þessa tólf stafa talnarunu þar sem ég gekk meðfram tjörninni. Það gekk ekki í þau skipti sem síminn bauð upp á og hann tilkynnti mér að ég gæti ekki reynt aftur. Ég beið fram á mánudag til að geta hringt í tæknitröllin hjá símanum til þess að fá þá til að opna þetta læsta símtæki mitt. Maðurinn sem svaraði mér sagði mér að ég væri búinn að eyðileggja kortið og þyrfti að punga út tólfhundruð krónum fyrir nýtt. Ég bölvaði aðeins og brunaði inn á austurvöll til að fá nýtt kort í staðinn fyrir tólfhundruðkallinn minn. En hvað gerist þá?..... Mannfýlan sem afgreiddi mig sagði mér að síminn minn væri gallaður og það ættu ekki eftir að koma kort sem pössuðu í hann. Ég varð náttúrulega foj og sagði honum að ég færi þá bara til samkeppnisaðilans með mín símaviðskipti. Hann glotti og sagði mér að ég fengi ekki servis þar frekar en hjá þeim. Ég var á þeim tímapunkti orðinn mjög pirraður en ákvað að hafa að engu orð hans um að ég fengi ekki kort hjá Tali.
Þegar í síðumúlann var komið beið mín nánast rauður dregill aðra eins þjónustu hef ég sennilega ekki fengið (nema kannski í Burberry þar sem ég sat í leðursófa meðan kortið var straujað). Ég hét því þá að ég ætlaði að halda tryggð við þetta fyrirtæki sem væri með svona gott starfsfólk og góða þjónustu. Nokkrum árum seinna bauð þetta sama fyrirtæki upp á að maður gæti fengi heimasíma hjá þeim, ég beið nokkra mánuði með það því ég nennti ekki að standa í veseninu við að skipta. Svo loksins ákvað ég að skipta og hringdi í Tal og bað um að síminn yrði fluttur það var ekkert mál en ég þyrfti þá að skipta fjótlega aftur því þeir væru að sameinast Íslandssíma.... ég var soldið fúll því ég var viss um að þjónustan myndi versna til muna. Ég er ekki viss um að þjónustan hafi versnað neitt en ég ákvað á sínum tíma að hún myndi versna þannig að ég er ekki alveg sáttur við hana. Helvítis okurbúlla

Chatty 2

þriðjudagur, júní 08, 2004

Til Hamingju konur

Ég skil ekkert í Dabba druslu að bíða ekki fram til 19.Júní með að kynna lögspekinganefndina sína. Það hefði verið mun flottara að spæla kvenþjóðina einusinni enn með því að kynna nefnd skipaða 4 körlum á hátíðisdegi kvenna.
Hann hefði kannski getað fengið að ræsa kvennahlaupið og kynnt nefndina í leiðinni. Ég er reyndar ekki viss um að kvennahlaupið sé 19. núna.

Fyrir nokkrum árum sögðu menn með hommafóbíu altaf að margir af þeirra bestu vinum væru hommar.... ég held ég sé að fá samskonar uppgerðarumburðalyndi gagnvart þeim sem styðja bláa flokkinn og segi því: margir af mínum bestu vinum eru sjálfstæðismenn og bið svo til andskotans að þeir sjái ljósið einn daginn.(Ekki dugar að biðja til guðs því bjáninn sem situr við völd í Ameríkuhreppi sækir visku sína til hans). Annars ætti eiginlega að breyta nafninu á flokknum í Einræðisflokkurinn, slagorð flokksins gæti verið: "einn flokkur ein skoðun einn konungur".


You Are The Man

Þriðjudagur

Ég er ánægður með þá flokka sem eru í ríkisstjórn.Þetta er samansafn allra gáfuðustu manna og kvenna landsins. Það er gott að hafa svona gáfað fólk til að stjórna fyrir sig þegar maður er frekar tregur sjálfur. Það er líka gott þegar þetta sama fólk tekur að sér að segja manni hvað maður má lesa og hvað ekki. Það er líka gott að fá að vita hverjir mega segja manni fréttir og hverjir ekki. Þegar maður er tregur þarf einhver að hafa vit fyrir manni það er ekki nokkur spurning.
Auðvitað hefðum við klúðrað málum ef við hefðum verið spurð hvort við vildum meiða útlendina í þágu frelsis gáfumannasamfélagsins í Ameríkuhreppi. Auðvitað hefðum við klúðrað málum ef við hefðum sagt okkar skoðun á því að byggja ætti stærsta drullupoll landsins í ósnortinni náttúru (hún var ekki ósnortin því LV var byrjuð að grafa löngu áður en leyfi fékkst fyrir framkvæmdum) í þágu Auðhringa(sem er jákvætt)frá þessum sama hreppi fyrir vestan okkur.
Fyrir ykkur heimskingjana sem lesið þetta þá er búið að segja mér (mér dettur ekkert í hug sjálfum) að auðhringur og auðbaugur er ekki það sama, annað er mjög vont og ber að forðast(banna) eins og heitan eldinn það eru nefnilega glæpamenn sem reka það fyrirtæki það er reyndar ekki alveg vitað hvað þeir gerðu af sér en við finnum út úr því einhvernveginn. Svo eru þetta lygalaupar líka. Það hefur reyndar enginn sagt mér hverju þeir hafa logið en við skulum trúa foringjanum hann er óskeikull. Foringinn og hans undirmenn segja okkur að glæpamannablöðin séu uppfull af lygi og þeir hafa hrópað úr ræðustóli:"sjáið þið fyrirsagnirnar lesið blöðin fynnið lygina". Fyrirgefið mér en ég tel mig ekki nógu gáfaðan til að spotta lygina svo vinsamlega bendið mér á dæmin því ég er alveg blindur á þetta. Eina alvarlega lygin sem ég man eftir í dagblaði var þegar málgagn sjálfstæðisflokksins brunaði upp í gufunes með myndavél til að sanna það að einn þingmaður flokksins og fyrrverandi starfsmaður blaðsins hefði ekki stolið einhverjum tjarnardúk. "Sjáið dúkinn hann er hérna honum var ekki stolið það er bara verið að geyma hann hér svo það sé hægt að gera við meistaraverk íslenskrar byggingarlistar". Ekki minnist ég þess að nokkur maður hefði farið fram á að mogginn yrði settur í straff fyrir þetta. Og ekki minnist ég þess að nokkur maður hafi staðið í pontu og hrópað lesið blaðið skoðið fyrirsagnirnar lesið fréttirnar það þarf að gera eitthvað til að stoppa þessa menn.
En eins og ég kom að áðan er ég frekar tregur þannig að ég þarf einhvern gáfumann til að lesa fyrir mig blöðin og útskýra fyrir mér í leiðinni hvað er rétt og hvað er rangt,mér er alveg sama þó sá sem les fyrir mig blöðin sleppi einhverjum fréttum sem eru óþægilegar, það er nefnilega ekki lygi ef maður þegir.
Mikið væri nú lífið betra ef það væri ekki svona felsi á ritmarkaði og matvörumarkaði og samgöngumarkaði og mikið væri nú gott ef það væri enn bara eitt olíufélag með skrifstofur á þremur stöðum í bænum.Mikið væri lífið gott ef menn myndu nú bara taka sig til og hlýða foringjanum þá væri allt miklu betra.

Relaxing By The Fire



mánudagur, júní 07, 2004

Tiltekt og viðhald

Jæja veiðitímabilið hófst hjá mér í gær með því að ég fór út á svalir með veiðitöskuna mína og tætti allt upp úr henni.Ég held að Meinvill hafi haldið að ég væri eitthvað klikk þegar ég sat með keflin úr hjólunum og tætti línuna út af hverju keflinu á fætur öðru. Ég ætla nefnilega að nota daginn í að láta setja nýja línu á hjólin og kaupa það sem á vantar fyrir veiðitúrinn um næstu helgi. Ég er svakalega spenntur fyrir túrnum en samt pínu stressaður út af löppinni sem er ekki orðin alveg nógu góð. Það verður bara að harka af sér og fara á hækjunum niður að vatninu(sem er ekki löng leið). Pabbi Meinvills ætlar að vera á bíl þannig að við þurfum ekki að bíða eftir þeim sem sofa út eins og í fyrra og hitteðfyrra,það er nefnilega smá jeppó að vatninu. Við fáum sumarbústað lánaðan þannig að maður þarf ekki að vakna við talandi páfagauk ena ferðina enn.


Ice Fishing

ég vona að við fáum svo gott veður að við þurfum ekki að veiða gegnum ís.

laugardagur, júní 05, 2004

Sumarfrí

Þær gleðifréttir voru rétt í þessu að berast að Gísli Marteinn er að fara í sumarfrí. Ég vona að hann verði bara sem lengst í sumarfríi. Best væri ef hann fengi einhverja vinnu í sumar þannig að hann hætti að ónáða mann með slepjulegri framkomu í svartakassanum.
Dagurinn hjá mér byrjaði mjög hægt, ég fór hægt á fætur og hellti hægt upp á kaffi borðaði hægt og fékk mér ekki kaffi eftir morgunmatinn heldur labbaði ég hægt inn í svefnherbergi aftur og lagðist upp í. Voðalega var ég eitthvað syfjaður.Ég vaknaði svo við kunnuglega rödd manns sem var byrjaður að svipast um eftir mér. Þarna var kominn hálf-ítalinn.Ég sá mér ekki fært að liggja lengur upp í því það var farið að líða að hádegi. Hálf-ítalinn var kominn til okkar í smá pössun því mamma hans þurti að leggja land undir hjól til að skoða sveitasjoppu. Ég gerði mitt besta við að halda barninu uppteknu með fínum árangri að eigin mati. Hann fékk köku og banana að borða og smjattaði mikið á hvoru tveggja. Ég er ekki frá því að banani heiti babbi hjá honum. Klukkan rúmlega hádegi fóru Meinvill og gutti í bílinn og brunuðu sem leið lá á karnival í vinnunni hjá Meinvill.

Á meðan skaust ég og lagði mig í smá stund;held það hafi bara verið nokkrar mínútur. Þegar ég taldi mig vaknaðan klæddi ég mig einusinni enn í föt, þá var klukkan orðin lítið eitt yfir kaffi. Ég skakklappaðist fram og skar eina súkkulaðirjómaostakökusneið og setti á disk og diskinn í bakpokann og brunaði upp á hrafnistu til ömmu. Þegar þangað var komið hitti ég Ömmu og sysir hennar þar sem þær voru að diskútera heimsmálin. Það er svolítið magnað að tala við þessar kellingar sem eru samanlagt hundrað níutíu og tveggja ára eftir því sem ég best veit. Ömmusystirin virtist þekkja mig (hún hefur ekki alltaf borið kennsl á mig síðustu ár) og ræddi málin af krafti eins og oftast áður. Hún sagði mér að það væru sterkar tennur í ættinni og sagði mér að þær systur væru heppnar að vera með sínar tennur ennþá. Ég hef áður komið að því hér að ég hef mátað tennurnar hennar ömmu en ég kunni ekki við að rífa í tennurnar á ömmusystirinni. Því næst spratt hún á fætur og sagðist þurfa að drífa sig sem mest hún mætti til að athuga hvort það kæmi gestur til sín. Og með það var hún rokin í burtu. Ég notaði tækifærið og dró kökuna upp úr töskunni þegar frænka var farin, ef ég hefði vitað að frænkan væri á svæðinu hefði ég tekið sneið fyrir hana líka.
Ég kom við hjá umhverfisráðherra ættarinnar og ræddi um búslóðaflutninga við hana meðan hún vaskaði upp með umhverfisvænum uppþvottahönskum og grænum uppþvottalegi. Á meðan reyndi ég að lesa kjaftaslúðrið í dagblaðinu.
Þegar ég kom heim var ég svo þreyttur að mig langaði mest að leggja mig sem ég gerði þegar ég var búinn að borða og horfa á fréttaleysið. En þá er komið aftur að upphafinu Meinvill var nefnilega líka að leggja sig en bara í latastráknum meðan ég lá í óþverrasófanum.Þegar við vorum búin að hrjóta í kór í tuttugumínútur rak Meinvill sig í takka á fjarstýringunni og þvaðrið í Gísla Marteini flæddi um stofuna. Mér finnst manngreyið svo leiðinlegt að ég get ekki einusinni fengið mig til að sofa yfir þættinum hans.Það myndi sennilega kalla fram einhverjar martraðir um smjörkúk sem reyndi að sannfæra mig um að Davíð sé kóngurinn og Hannes skemmtilegur. Annars sagði amma um daginn að Drusla væri ágætt ættarnafn á forsætisráðherrann.

Ætli það sé of snemmt að fara að sofa núna?

Sleeping

föstudagur, júní 04, 2004

Hundur í manni

Það var hundur í mér þegar ég kom heim í dag. Ég hafði engan til að gelta á þannig að ég tók upp símann og hringdi út í bæ og gelti á konuna sem svaraði. Skömmu síðar kom maður á hvítum sendibíl og gerði eitthvað og þá varð allt betra. Ég er að sjálfsögðu að tala um hund nágrannans, Það er lítillega ýkt hjá mér að ég hafi gelt á konuna en hundur nágnannans hafði það hátt að konan heyrði samstundis að ekki var allt með felldu og gaf mér símanúmer manns sem hefur hundaeftirlit að starfi. Það var hundur í hundaeftirlitsmanninum hann spurði hvort ég væri búinn að tala við nágrannan og benda honum á að hljóðkúturinn á hundinum væri bilaður. Ég neitaði því og sagði honum að ég kærði mig ekki um að tala við þetta fólk, ég minntist ekki á að ég hef litla trú á að fólk léti gera við hundinn þó einhver skakklappi á grænum hækjum kæmi yfir og segði því að honum þætti hundurinn þeirra leiðinlegur. Ætli maður fengi ekki hið klassíska svar heimska hundaeigandans "en hann er svoooooo góður (svoooo sagt á innsoginu).
Hundaeftirlitsmaðurinn hreytti út úr sér að hann skyldi vinna fyrir mig skítverkin (ég var ekki alveg nógu snöggur til að munstra hann í að taka til í geymslunni fyrsta hann bauð sig fram í skítverk).
Það er nefnilega málið mér er alveg sama hvort einhver hundur út í bæ er góður blíður ljúfur eða hvað fólk vill kalla það. Ef ég heyri í hundi fer það í taugarnar á mér ef hundur flaðrar upp um mig fer það mikið í taugarnar á mér. Mér hefur nú dottið í hug á einhverri gönguferðinni að prófa að reka nefið á mér í klofið á einhverjum hundaeiganda sem ekki hefur efni á bandi og þegar maður væri búinn að þefa af honum myndi maður reisa sig upp og faðma hann. Ég er ekki viss um að viðkomandi væri hrifinn af því. Hann myndi kannski gera sér ferð á bryggjuna og reyna að fá snæri gefins hjá einhverjum sem er að bæta troll þannig að hundurinn hans sé ekki að reyna að faðma þá sem þykir ekki vænt mum hann.
Enívei ég þarf ekki að fara til London á næstunnni til að kaupa uppblásnu kindina.Sem er mjög gott því ég ætla að beyta til næst og fara í menningar matar og skemmtiferð til Parísar.Þökk sé hundaeftirlitsmanninum.


Dog 8

Með þeim sem eru á móti

Við Meinvill sátum í gær stjörf fyrir framan svartakassann og horfðum á úfinn mann í gráum fötum tala.Þessi maður var mjög kurteis,hann var svo kurteis að hann minnti mig á mann sem er mjög fullur en samt að reyna að tala skýrt þannig að enginn fatti að hann er fullur. Þessi kall er talinn mikill leiðtogi,nánast helgur í sínum röðum. Hann talaði mikið um eitthvað risavaxið veldi sem væri að gleypa allt í landinu.Þetta veldi er svo vont að það þarf að setja alveg rosalega almennar reglur um eigur þeirra. Hann er búinn að snúa allri umræðu í landinu á haus þessi ógreiddi maður,annaðhvort er maður fylgjandi einhverju eða alfarið á móti því.
Ég var að lesa grein á eftir þekktan mann áðan,hann bendir á að ógreiddi hafi verið stilltur og prúður en ekki sótsvartur af reiði.Hann klykkir út með að það sé skrýtið að fá prik fyrir það.
Erum við ekki búin að vera full umburðarlynd ganvart einhverjum þegar við þökkum viðkomandi fyrir að missa ekki stjórn á skapi sínu.Hefði ekki átt að benda manninum á fyrir mörgum árum að það er rangt að sleppa sér í bræði þó það séu ekki allir sammála manni.
Annað er líka athyglisvert og það er að ef maður sér óvini í hverju horni er maður sennilega geðveikur.
Ein sagan sem gengur af þessum háu herrum er að þeir hafi látið dúkleggja borð í matsalnum á vinnustað sínum,þetta borð er svo spes að það má enginn annar setjast við það. Á mínum vinnustað kom svona upp fyrir nokkrum árum,þá töldu einhverjir sig eiga ákveðin borð í mötuneytinu,forstjórinn frétti af þessu og settist í öll sæti sem menn töldu sig eiga og rak þá vítt og breitt um salinn og tilkynnti mönnum að menn mættusitja í hvaða sæti sem þeir vildu. Það Á enginn sæti hér og menn mega sitja þar sem þeir vilja.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Gúdd njús

Dr Sveitalæknir er búinn að hringja í mig. Hann sagði að brotið greri rétt og ég má byrja að labba í rólegheitum. Ég má þó ekki byrja að vinna fyrr en eftir 3-4 vikur. Ég á að byrja fyrstu eina til tvær vikurnar á að vinna bara hálfan daginn..... það er ekki að spyrja að því að um leið og ég fékk þessar frábæru fréttir byrjaði sólin að skína..... og það sem betra er að ég má fara að veiða tralalalalalalalal ég er núi aðallega búinn að vera fúll yfir að hafa misst heilan mánuð úr veiðitímabilinu...


Fishing

Símatími

Ég tók daginn snemma í dag; vaknaði klukkan tæplega átta, hellti upp á og ristaði brauð. Svo færði ég mig að tölvunni og kveikti á henni til að sækja helsta kjaftaslúðrið. Ég greip líka símann til að reyna að ná í Dr Sveitalækni.Hann var eins og við var að búast upptekinn og því skildi ég bara eftir skilaboð til hans um að hann ætti að hafa samband við mig við fyrsta hentugleik. Því næst smellti ég mér til Dr Tannar og lét meta líkurnar á því að ég gæti farið að nota fölsku tennurnar sem ég fékk í fermingjargjöf frá systkynum mínum. Mér var hent þaðan út eftir stutta skoðun og smá skammir fyrir að nota ekki tannþráð nógu oft. Fölskurnar verða því að bíða betri tíma. Reyndar hef ég lengi reynt að fá falskar því áður en ég náði þeim aldri að fullorðinstennurnar kæmu upp eða niður eftir því hvorn góminn er rætt um mátaði ég tennurnar hennar ömmu utan yfir andlitið á mér. Þetta vakti víst mikla gleði hjá viðstöddum...... ég skil ekki afhverju.
En aftur að símatímanum. Ég taldi alveg fullvíst að ég fengi falskar í dag og ég var líka alveg viss um Dr Sveit myndir hringja í mig akkúrat þegar verið væri að setja fölskurnar í. Ég var svo viss um að hann myndir hringja á versta tíma að ég kenndi Dr Tönn á símann minn og útskýrði hvað ætti að segja við Sveita. Ég komst samt að einu í morgun og það er að konan á símanum í heilbrigðisstofnunini andar ekki alltaf í símann en hún segir aftur á móti alltaf Gessovel þegar maður á að leggja á.
Gessovel


Dentist

miðvikudagur, júní 02, 2004

Nágrannar

Jæja þá eru nokkrir mánuðir síðan tónlistarfjölskyldan flutti úr næsta húsi við okkur og í þarnæsta hús.Það má eiginlega segja að þau hafi flutt yfir lóðina hjá okkur.Nú ætti samkvæmt öllu að vera mikið ónæði af svona rokkurum eins og þeim sem bjuggu við hliðina á okkur. Í það minnsta hefur mikið farið fyrir þessu fólki í öllum slúður og fréttablöðum. En þetta voru ekki slæmir nágrannar og maður varð ekki einusinni var við partý hjá blessuðu fólkinu.... nema einusinni þegar tvíburar úr annari hljómsveit voru að bíða eftir leigubíl snemma morguns en það var nú ekkert ónæði af því. Nú eru nýir íbúar fluttir inn í þetta glæsilega hús og það er ekki að sökum að spyrja því þau komu með hund með sér sem heldur að hann sé úlfur. Hann langar allavega að vera úlfur. Nú er þessi hundur ekkert líkur úlfi, þetta er forljótur labrador sem eigandinn hefur ekki nennt að siða til því hann stendur úti á lóð allan liðlangan daginn og spangólar á alla bíla sem keyra framhjá. Ég er að spá í að fá mér kind og binda við grenitréð í garðinum hjá okkur og athuga hvort ég get ekki drepið hundinn úr þreytu með því, því ég er viss um að hann myndi gelta alveg fram að hádegi og detta svo dauður niður ef kindin væri þrammandi fram og til baka fyrir framan nefið á honum.
Þarna er komin enn ein ástæða til að bregða sér til útlanda.Ég sá nefnilega uppblásna kind til sölu í London um páskana.... en það er önnur saga og sú kind var ætluð einmanna bændum til að skemmta sér á síðkvöldum.
Sheep



Pest

Meinvill liggur í rúminu,ekki vegna syfju eða slens heldur vegna hálsbólgu.Þetta er sennilega að ganga eins og allt annað sem fólk fær.
Eitt sinn vann ég með manni sem var gjarnan veikur á mánudögum eða föstudögum. Þessi maður er mjög forvitinn að eðlisfari og átti til að gera sér ferð að símanum þegar einhver þurfti að hringja, ekki bara til að heyra hvað viðkomandi var að tala um í símann heldur líka til að sjá í hvaða númer viðkomandi vinnufélagi var að hringja. Þessi fyrrverandi vinnufélagi mátti ekki missa af neinu þannig að hann hlustaði á radio steam alla daga, ég held að Auðlindin og Laufskálinn hafi verið uppáhalds þættirnir hans. Ég var aftur á móti alltaf með mitt prívat útvarp á hausnum þannig að ég heyrði lítið í hans þáttum, sem betur fer segi ég því þeir sem voru búnir að vinna lengi með þessum manni vissu að besta leiðin til að halda þessum manni frískum var að taka útvarpið hans úr sambandi því hann ætti það til að fá ýmsar pestir gegnum þennan litla rauða kassa.
Fyrir þá sem ekki fatta þá er semsagt sagt frá öllum mögulegum pestum, flensum, farsóttum og öðrum kvillum í útvarpi og þessi maður virtist smitast á augabragði ef minnst var á kvef í rauða kassanum.
Ég er ekki að segja að Meinvill hafi smitast gegnum útvarp.Ég veit nú betur en það. Ég held að Meinvill ásælist tíman sem ég á hjá háls nef og eyrnalækni í vikulokin.... Ég ætla að láta skoða á mér nefið en ekki hálsinn þannig að það er spurning um að Meinvill komi með og láti skoða hálsinn um leið og ég læt skoða nefið svo er spurning hvort einhver er með bilað eyra og vill skjótast með.



Nose

Ear

þriðjudagur, júní 01, 2004

Skil ekki

Það gerist stundum að fólk sem ég þekki ekki heilsar mér á götu.Ég hef ákveðið að það sé að heilsa danska bróður mínum og læt mér fátt um finnast.Mér er nokk sama þó þetta fólk heilsi mér og mér dettur ekki í hug að taka undir kveðjuna ef ég kannast ekkert við fólkið. Það hefur meira að segja komið fyrir að gamlar bekkjarsystur bróður míns hafa heilsað mér en ekki tekið eftir þessum gamla bekkjabróður sínum sem gekk á eftir mér.
Þetta snertir mig ekki hið minnsta, mér finnst aftur á móti verra þegar ég hitti náskylda ættingja og þeir ávarpa mig með nafni bróður míns og spyrja mig hvort ég sé í fríi frá skólanum í danaveldi. Ég fór í apótek áðan til að ná mér í fishermans friend og eitthvað ofnæmislyf og þá hitti ég gamlan kunningja úr félagsskap sem við bræður stunduðum báðir fyrir nokkrum árum,hann var ægilega ánægður að hitta mig þarna og ávarpaði mig: "sæll nafni". Nú hefur lengi loðað við mig að vera eitthvað örlítið stríðinn, ekki mikið bara svona smá, ég hef það úr móðurætt þó mamma vilji nú lítið kannast við það.Þrátt fyrir þennan stríðnisvott get ég ekki fengið mig til að stríða fólki með þessari vitleysu þeirra. Skítt með það þegar fólk ávarpar mann með vitlausu nafni og spyr mann svo hvort maður sé ekki alltaf að baka (það eru 10 ár síðan ég hætti því), en þegar fólk ávarpar mann með vitlausu nafni og vitlausum starfstitli þá fer ég ósjálfrátt að vorkenna því smá.Amma hefur alltaf kallað mig nafni bróður míns (veit reyndar ekki hvað hún kallaði mig fyrstu fjögur árin áður en bróðir minn fæddist) en ég er alveg vanur því.
En það fer aftur á móti svakalega í taugarnar á mér þegar ég hitti frændfólk á förnum vegi og það kallar mig röngu nafni. Það gerðist í Smáralind um jólin, þá hitti ég frænku mína sem var mikið búin að kalla á mig og endaði á því að stökkva í veg fyrir mig og baðaði út öllum öngum þannig að ég missti nú örugglega ekki af henni.(við erum systkynabörn) hún sagði:"ég er búin að kalla og kalla á þig en þú heyrir ekki neitt ég stóð þarna og kallaði (nafn) en þú ert bara í eigin heimi". ég sagði nú ekkert en hugsaði hvernig væri þá að prófa að kalla bara rétt nafn og athuga svo viðbrögðin.

Það getur vel verið að það sé smá svipur með okkur bræðrum en það má oftast þekkja okkur í sundur á nefinu því sá yngri er búinn að nota gleraugu síðan hann var smábarn en ég hef aldrei notað svoleiðis búnað.Þetta ættu ættingjar að vera farnir að fatta.