þriðjudagur, júní 15, 2004

Slökun

Ég er búinn að fatta hvað þetta er sem er búið að hrjá mig síðan ég kom að westan. Svona lagað heitir spennufall og hrjáir mann þegar maður er búinn að vera rosalega spenntur eða stressaður yfir einhverju verkefni sem síðan skyndilega klárast. Það er nefnilega það og ég sem hélt ég væri eitthvað slappur eða veikur.

Í dag hlustaði ég á Dægurmálaútvarpið á Rás 2, þar var furðulegi friðarpostulinn og tómatsósu kallinn sem ætlar að verða forseti lýðveldisins. Hann er alveg jafn skrýtinn í útvarpi og sjónvarpi. Hann rausaði einhver ósköp um hvað hann ætlaði að gera forsetaembættið að friðarembætti og jakidi jak. Fólki gafst kostur á að hringja inn og leggja spurningar fyrir forsetaframbjóðandann, fæstir spurðu nokkurs heldur bentu honum á að draga sig í hlé og hætta þessu bulli. Það er nefnilega þannig að stundum finnst manni fyndið þegar einhver hefur mjög skrýtnar skoðanir, maður hlær bara að mönnum og er ekki viss hvort þeir eru svona skrýtnir eða að þeir séu að gera grín að manni. Maður bíður eftir að viðkomandi skelli uppúr og segi: "Bara að djóka, sjá svipinn á þér". Það er bara ekki svo farið með þennan frambjóðanda, hann heldur dellunni stanslaust á lofti og springur ekki úr hlátri og segir: Bara að djóka. Nei hann verður bara vondur og sakar alla um samsæri gegn sér. Ég er ekki viss um að það sé neitt samsæri gegn honum heldur er fólk bara hætt að hlusta á innihaldslaust bullið í blessuðum manninum.

Hinn frambjóðandinn er ekki skárri en friðarpostulinn. Hann heldur fámenna framboðsfundi á öllum þeim stöðum sem fólk kemur ekki saman á. Elliheimili og Íslendingar í Danmörku er markhópur hans kannski hann haldi ræður í kirkjugörðum og á leikskólum. Hann hefur eitthvað mjög dularfull baráttumál sem ég er ekki viss um að henti forseta. Einu kröfurnar sem maður gerir til forseta er að hann sé sæmilega sleipur í nokkrum tungumálum komi vel fyrir og sé svolítill diplómati.

Ég kaus ekki Lord Bacon þegar hann bauð sig fyrst fram, mér leist ekkert á að fá gamla kommaforingjann á Bessastaði og ekki fannst mér það bæta málstað hans að hann hafði verið í framsóknarflokknum. Ég var alveg rosalega fúll að hann skyldi ná kjöri en ég er alveg sáttur við hann núna. Mér finnst ágætt að hann skrifaði ekki undir delluna hans Dabba Druslu mér finnst líka ágætt að hann skyldi velja svona lítið mál sem er hjartansmál Druslunnar. Við þurfum að fá á hreint hvað þessi málsskotsréttur stendur fyrir.

Meinvill er orðin sportisti og það sem meira er tískusportisti. Hún fer flest kvöld vikunnar og púttar. Það geislar alveg af henni þegar hún kemur heim að loknu vel hepnuðu pútti. Mér finnst gaman þegar fólk finnur sér áhugamál sem fangar huga þess algjörlega. Veiðin skipar þennan sess hjá mér en golfið hjá Meinvill. Fyrir mörgum árum reyndi mamma að fá golfdelluna, það var áður en þetta varð svona svakalegt tískusport, hún hætti þegar hún fékk kúlu á og í hausinn.


Tee Off