Klappað og að mestu klárt
Þá er nú allt að verða klárt fyrir túrinn. Ég gerði mér ekki grein fyrir að myndavélin mín kæmi ekki úr útlandaferðinni sinni fyrr en eftir að ég fer úr bænum þannig að ég verð bara að leggja túrinn á minnið í þetta sinn. Annars var ég skrambi duglegur í dag og brunaði um allan bæ í útréttingum ég komst meira að segja í ríkið þar sem einhver kona vorkenndi mér heil ósköp fyrir hækjurnar þegar ég missti aðra þeirra í gólfið, hún stökk fram og bauðst til að rétta mér hana en ég var svo snöggur að grípa hækjuna að hún fékk ekki tækifæri til að virkja góðmennsku sína í þetta sinn. Ég fór því næst í kauffélagið og keypti kost eins og matur heitir víst þegar menn ætla að veiða fisk, ef menn lenda í hremmingum breytist kosturinn í vistir. Fyrir mér er þetta allt matur. Ég keypti nú aðallega eitthvað að drekka og eitthvað smá til að borða á morgnanna og yfir daginn en veisluþjónustan í Heydal sér um kræsingarnar á laugardagskvöldið.
Annars heyrði ég í ferðafélögum myndavélarinnar í dag, þau voru komin til London og voru sest í rútu sem þau töldu að væri á leið til Oxford. Ég heyrði ekkert glamur í fölskunum sem ég er viss um að þau hafi látið smíða upp í sig í Búlgaríu. Það er séns að þau hafi verið með super corega extradent tannlím.
Umhverfisráðherra fjölskyldunar hringdi í mig úr rigningunni fyrir austan í dag. Hún byrjaði á að segja mér hvað á síðasta sólarhring hafði drifið og svona eitt og annað. Svo vatt hún sér að efninu: "getur þú nokkuð brunað í höfuðstaðinn og hjálpað listmálaranum eitt augnablik, hann ætlar nefnilega að kaupa sjónvarp". Ég játaði því alveg eins og skot og byrjaði svo að finna leið út úr hremmingunum sem ég var búinn að koma mér í. Ég hringdi beint í Meinvill og spurði hvort það mætti ekki skipta á kjötflís og greiða. Svarið kom um hæl, jebbb, ég slapp. Sem betur fer því ég frétti þegar Meinvill kom heim að Listmálarinn hafði ekki bara keypt 28" svarthol í stofuna hjá sér heldur líka DvD spilara. Þegar Meinvill var búin að keyra hann heim með svartholið og spilarann steig málarinn út úr bílnum með spilarann í fanginu og stikaði að hurðinni. Á eftir kom Meinvill svartrauð í framan með svartholið í fanginu.
Nú má ekki misskilja þetta, óþverraskapurinn felst ekki í því að láta Meinvill bera 40 kg svarthol upp á aðra hæð, hana munar ekki um það, neibb óþverraskapurinn felst í efninu sem á að horfa á í þessu. Það er hvorki lista og menningarþátturinn Mósaík né Garðyrkjuþátturinn í einum grænum neibb það er fótbolti jamm segi og skrifa fótbolti hananú. Hverjum dettur í hug að kaupa sér sjónvarp til að horfa á fótboltaleiki í? Ég hefði skilið ef það hefði verið garðyrkjuþáttur eða garðpallasmíðaþáttur sem hefði dregið hann í þennan leiðangur þar sem þau eru nú að fá hálfan garð til umráða. Neibb fótbolti.
<< Home