miðvikudagur, júní 09, 2004

Kjarakaup

Eins og flestir sem lesa þessa síðu vita ætla ég að leggja land undir dekk á föstudag og skella mér í veiði Westur á firði og koma svo í bæinn á sunnudag vonandi með önglana í veiðiboxinu en ekki einhversstaðar annarsstaðar þar sem þeir gætu verið til óþæginda. Ég er búinn að þjást nóg á þeim stað eftir að ég settist á gólfið úr þriggja metra hæð. En til þess að ég geti farið í þennan veiðitúr þarf ég stól því ekki gengur að vera á hækjunum og ætla líka að halda á stönginni. Ég fór því á rúntinn í gær til að finna mér sæmilegan stól. Leiðin lá í Kópavog sem ég spái að verði orðinn höfuðborg landsins innan 50 ára.
Reyndar gerði ég svaka verslunarferð úr þessu því ég fór líka í vinnufatabúð til að kaupa buxur í stað þeira sem rauðikrossinn klippti utan af mér. Enívei ég fór semsagt í Hagkaup í Smáralind til að finna mér stól, þeir áttu nefnilega fína stóla á góðu verði í fyrra; tvöþúsundkall stykkið. Ég fann mér eithvað stæði frekar nálægt dyrunum þar sem maður getur labbað beint inn í Hagkaup og þarf ekkert að freistast af ríkinu sem er beint á móti hinum innganginum, ég brunaði á fleygi ferð framhjá geisladiskunum(mikið úrval af barnadiskum á 999) og sem leið lá að snyrtivörunum. Stólar eru ekki snyrtivörur en samt voru þessir nú innan um ilmvötn og rakspíra. Ég varð hálf sjokkeraður því verðið hefur verið lækkað um fimmhundruðkall frá því í fyrra og samt eru stólarnir enn með glasahaldara. Stólarnir er afgreiddir í pokum með axlabandi þannig að maður getur sveiflað þeim upp á öxlina samanpökkuðum og fyrirferðarlausum. Ég greip tvo stóla fyrst verðið var svona gott og ætlaði að rjúka af stað en þá fattaði ég að ég var með tvo stóla og tvær hækjur í fanginu og átti eftir að koma mér að kassanum sem er hinumegin í búðinni. Það eina sem var hægt í stöðunni var að halda bara á hækjunum og stólunum að kassanum og reyna bara að fara vel með fótinn í leiðinni. Ég held að þeir sem sáu til mín hafi haldið að ég væri eitthvað skrýtinn að þramma um drag haltur með hækjur í fanginu. ég náði svo að laga mig betur til áður en ég fór út úr búðinni og komst á hækjunum út í bíl með stólana á öxlinni.