laugardagur, júní 05, 2004

Sumarfrí

Þær gleðifréttir voru rétt í þessu að berast að Gísli Marteinn er að fara í sumarfrí. Ég vona að hann verði bara sem lengst í sumarfríi. Best væri ef hann fengi einhverja vinnu í sumar þannig að hann hætti að ónáða mann með slepjulegri framkomu í svartakassanum.
Dagurinn hjá mér byrjaði mjög hægt, ég fór hægt á fætur og hellti hægt upp á kaffi borðaði hægt og fékk mér ekki kaffi eftir morgunmatinn heldur labbaði ég hægt inn í svefnherbergi aftur og lagðist upp í. Voðalega var ég eitthvað syfjaður.Ég vaknaði svo við kunnuglega rödd manns sem var byrjaður að svipast um eftir mér. Þarna var kominn hálf-ítalinn.Ég sá mér ekki fært að liggja lengur upp í því það var farið að líða að hádegi. Hálf-ítalinn var kominn til okkar í smá pössun því mamma hans þurti að leggja land undir hjól til að skoða sveitasjoppu. Ég gerði mitt besta við að halda barninu uppteknu með fínum árangri að eigin mati. Hann fékk köku og banana að borða og smjattaði mikið á hvoru tveggja. Ég er ekki frá því að banani heiti babbi hjá honum. Klukkan rúmlega hádegi fóru Meinvill og gutti í bílinn og brunuðu sem leið lá á karnival í vinnunni hjá Meinvill.

Á meðan skaust ég og lagði mig í smá stund;held það hafi bara verið nokkrar mínútur. Þegar ég taldi mig vaknaðan klæddi ég mig einusinni enn í föt, þá var klukkan orðin lítið eitt yfir kaffi. Ég skakklappaðist fram og skar eina súkkulaðirjómaostakökusneið og setti á disk og diskinn í bakpokann og brunaði upp á hrafnistu til ömmu. Þegar þangað var komið hitti ég Ömmu og sysir hennar þar sem þær voru að diskútera heimsmálin. Það er svolítið magnað að tala við þessar kellingar sem eru samanlagt hundrað níutíu og tveggja ára eftir því sem ég best veit. Ömmusystirin virtist þekkja mig (hún hefur ekki alltaf borið kennsl á mig síðustu ár) og ræddi málin af krafti eins og oftast áður. Hún sagði mér að það væru sterkar tennur í ættinni og sagði mér að þær systur væru heppnar að vera með sínar tennur ennþá. Ég hef áður komið að því hér að ég hef mátað tennurnar hennar ömmu en ég kunni ekki við að rífa í tennurnar á ömmusystirinni. Því næst spratt hún á fætur og sagðist þurfa að drífa sig sem mest hún mætti til að athuga hvort það kæmi gestur til sín. Og með það var hún rokin í burtu. Ég notaði tækifærið og dró kökuna upp úr töskunni þegar frænka var farin, ef ég hefði vitað að frænkan væri á svæðinu hefði ég tekið sneið fyrir hana líka.
Ég kom við hjá umhverfisráðherra ættarinnar og ræddi um búslóðaflutninga við hana meðan hún vaskaði upp með umhverfisvænum uppþvottahönskum og grænum uppþvottalegi. Á meðan reyndi ég að lesa kjaftaslúðrið í dagblaðinu.
Þegar ég kom heim var ég svo þreyttur að mig langaði mest að leggja mig sem ég gerði þegar ég var búinn að borða og horfa á fréttaleysið. En þá er komið aftur að upphafinu Meinvill var nefnilega líka að leggja sig en bara í latastráknum meðan ég lá í óþverrasófanum.Þegar við vorum búin að hrjóta í kór í tuttugumínútur rak Meinvill sig í takka á fjarstýringunni og þvaðrið í Gísla Marteini flæddi um stofuna. Mér finnst manngreyið svo leiðinlegt að ég get ekki einusinni fengið mig til að sofa yfir þættinum hans.Það myndi sennilega kalla fram einhverjar martraðir um smjörkúk sem reyndi að sannfæra mig um að Davíð sé kóngurinn og Hannes skemmtilegur. Annars sagði amma um daginn að Drusla væri ágætt ættarnafn á forsætisráðherrann.

Ætli það sé of snemmt að fara að sofa núna?

Sleeping