þriðjudagur, júní 01, 2004

Skil ekki

Það gerist stundum að fólk sem ég þekki ekki heilsar mér á götu.Ég hef ákveðið að það sé að heilsa danska bróður mínum og læt mér fátt um finnast.Mér er nokk sama þó þetta fólk heilsi mér og mér dettur ekki í hug að taka undir kveðjuna ef ég kannast ekkert við fólkið. Það hefur meira að segja komið fyrir að gamlar bekkjarsystur bróður míns hafa heilsað mér en ekki tekið eftir þessum gamla bekkjabróður sínum sem gekk á eftir mér.
Þetta snertir mig ekki hið minnsta, mér finnst aftur á móti verra þegar ég hitti náskylda ættingja og þeir ávarpa mig með nafni bróður míns og spyrja mig hvort ég sé í fríi frá skólanum í danaveldi. Ég fór í apótek áðan til að ná mér í fishermans friend og eitthvað ofnæmislyf og þá hitti ég gamlan kunningja úr félagsskap sem við bræður stunduðum báðir fyrir nokkrum árum,hann var ægilega ánægður að hitta mig þarna og ávarpaði mig: "sæll nafni". Nú hefur lengi loðað við mig að vera eitthvað örlítið stríðinn, ekki mikið bara svona smá, ég hef það úr móðurætt þó mamma vilji nú lítið kannast við það.Þrátt fyrir þennan stríðnisvott get ég ekki fengið mig til að stríða fólki með þessari vitleysu þeirra. Skítt með það þegar fólk ávarpar mann með vitlausu nafni og spyr mann svo hvort maður sé ekki alltaf að baka (það eru 10 ár síðan ég hætti því), en þegar fólk ávarpar mann með vitlausu nafni og vitlausum starfstitli þá fer ég ósjálfrátt að vorkenna því smá.Amma hefur alltaf kallað mig nafni bróður míns (veit reyndar ekki hvað hún kallaði mig fyrstu fjögur árin áður en bróðir minn fæddist) en ég er alveg vanur því.
En það fer aftur á móti svakalega í taugarnar á mér þegar ég hitti frændfólk á förnum vegi og það kallar mig röngu nafni. Það gerðist í Smáralind um jólin, þá hitti ég frænku mína sem var mikið búin að kalla á mig og endaði á því að stökkva í veg fyrir mig og baðaði út öllum öngum þannig að ég missti nú örugglega ekki af henni.(við erum systkynabörn) hún sagði:"ég er búin að kalla og kalla á þig en þú heyrir ekki neitt ég stóð þarna og kallaði (nafn) en þú ert bara í eigin heimi". ég sagði nú ekkert en hugsaði hvernig væri þá að prófa að kalla bara rétt nafn og athuga svo viðbrögðin.

Það getur vel verið að það sé smá svipur með okkur bræðrum en það má oftast þekkja okkur í sundur á nefinu því sá yngri er búinn að nota gleraugu síðan hann var smábarn en ég hef aldrei notað svoleiðis búnað.Þetta ættu ættingjar að vera farnir að fatta.