mánudagur, júní 14, 2004

Ferðin um helgina

Við brunuðum úr bænum síðdegis á föstudag. Fyrsti viðkomustaður eftir að við komum út af höfuðborgarsvæðinu var Mosfellssveit. Þar var farið í búðina sem er með mynd af forsetanum á burðarpokunum og Ríkissöngolíuverslunina. Ferðafélagarnir gerðu stólpagrín að hækjunum mínum allan tíman meðan við vorum í búðinni sem sparar fyrir mann peninga.
Næst lá leiðin í Hreðavatnsskála þar sem bestu hamborgarar landsins fást og þrusu pizzur, þar borðuðum við kvöldmat. Næsta stopp var í Búðardal (sem ætti að skrifast með litlum staf því þetta er skítapleis) þar var tankað á stórabílinn og menn teygðu úr sér. Svo var ekkert stoppað fyrr en komið var í Heydal ef frá er talið eitt stutt afvötnunarstopp á Þorskafjarðarheiði sem bæ ðe vei er orðinn fínasti vegur. Í Heydal var fínasta veður en frekar kalt, við fengum lykil að bústaðnum og skoðuðum gistiaðstöðuna sem búið er að setja upp á staðnum. Þegar það var búið brunuðum við í bústaðinn sem er yst í dalnum. Þar sátum við fram yfir miðnætti og kneyfuðum öl úr krús og sögðum lygasögur, einn úr hópnum var full bjartsýnn og tók með sér pottflösku af gammel dansk (sem er eitur fyrir gamla dani) og hélt að full frískir menn myndu dreypa á þessu. Þeir kurteisu í hópnum tóku eitt staup hver og grettu sig ógurlega. Ég sagði manninum sem bauð þetta að ég hefði smakkað svona og það dugði til að ég var afsakaður.

Laugardagurinn rann upp mað sól í heiði og gríðarlegu flugnageri við vatnið, en það átti eftir að breytast. Við stoppuðum bílana á bakkanum og stukkum út það mátti enginn vera að því að kjafta núna því það lá á að veiða fisk. Nú var ekki gert grín að hækjunum mínum því í öllum æsingnum og spenningnu gleymdi ég hækjunum í bílnum og var kominn niður að vatni á undan öllum. Þegar næsti maður kom á tangann byrjaði hann á að gera grín að mér fyrir að vera ekki á hækjunum, Það er vandlifað í þessum heimi. Veiðin byrjaði vel og það leið ekki langur tími þar til fyrsti fiskur kom að landi, það var vænn urriði sem ég fékk á makríl.
Þegar við vorum búnir að vera við vatnið nokkrar mínútur byrjaði að blása sem var svosem ágætt því þá hurfu flugurnar svo byrjaði að rigna og skömmu síðar var komið ömurlegheita veður rok og rigning og frekar kalt. Við létum það ekki á okkur fá og veiddum okkar 70 fiska.
Um kvöldmatarleitið skröngluðumst við niður af fjallinu og komum við í heitum potti sem staðsettur er í fjöruborðinu í Mjóafirði. Venjulega tekur maður sápu með sér í pottinn og þvær sér hátt og lágt en í þetta sinn var potturinn svo skítugur að enginn varð hárþvotturinn í þetta sinn. Þeir sem hafa komið í laugina á Lýsuhóli kannast við mikið slý í lauginni og svoleiðis var potturinn að innan þegar við komum í hann á laugardaginn semsagt bölvaður drullupyttur. Eftir pottinn var haldið í mat í Heydal og voru miklar kræsingar á borðum eins og venjulega þar á bæ. Dagurinn endaði svo með því að við fórum í bústaðinn og fengum okkur einn til fjóra bjóra.

Sunnudagur rok en engin rigning og engin veiði frá bakkanum, þeir sem voru á bátnum fengu slatta en það voru helmingi færri og helmingi minni fiskar en daginn áður. Ég tók bara einn fisk af bakkanum og hann var svo lítill að ég nennti ekki að hirða hann. Eftir veiðileysisdaginn á fjallinu var haldið í pottinn aftur, í þetta sinn nennti ég ekki með ofan í og fylgdist bara með af bakkanum til að byrja með en fór svo upp í bíl og beið eftir hinum þar. Ég hefði betur verið lengur á bakkanum því þeir sem voru í pottinum mönuðu hvorn annan upp í að fara út í sjó og synda þar,þessu missti eg af. Eftir pott var farið í bústaðinn og gengið frá og horft á formúluna, svo var brunað af stað heim. Við komumst ekki langt því eftir einungis 5 km akstur kviknaði í stærri bílnum, þetta var alveg bráðfyndið atriði því skyndilega snarstoppaði bíllinn fyrir framan okkur og allar hurðir opnuðust og út stukku kallar í allar áttir. Sem betur fer var lítill sem enginn eldur heldur hafði dagljósabúnaður bílsins brunnið yfir. Meðan verið var að ganga úr skugga um að bíllinn væri ekki að brenna fór einn að kafa ofan í vasa hjá sér og fann þá lykilinn að bústaðnum, það hafði gleymst að skila honum. Við tókum lykilinn og brunuðum til baka til að skila honum. Nú var okkur ekkert að vanbúnaði að bruna í bæinn með einu stoppi í búðardal með litlum staf, þar fengum við saltborgara með líter af sósu og linu grænmeti, mér var ekki nokkur leið að renna þessu ógeði niður og þurfti að kaupa mér ópal til að eyða bragðinu. Ef þið eigið leið um búðardal munið þá að kaupa ykkur ekkert að borða, það eru sjoppur og veitingastaðir sithvorumegin við skítapleisið. Bara verðið ætti að fæla frá 960 kall fyrir óætan hamborgara og kók.(0,5ltr kók kostar 220)

Thunderstorms