fimmtudagur, júní 24, 2004

Skakkar lappir

Ég er ekki lengur með skakka löpp en þar sem árið 2004 er núna þá vill maður láta sérfræðing segja sér hvort manni líður vel eða illa. Ég er búinn að tala oftar og meira við lækna á þessu ári en eðlilegt getur talist. Það er samt mjög gott að tækninni hefur ekki fleygt svo mikið fram að maður fái prógram í hendurnar um áramót sem segir manni hvað muni gerast næstu tólf mánuðina.
Ég reyndi enn einusinni að ná tali af Dr sveitalækni í morgun. Eins og ég hef rakið áður þarf maður að komast gegnum skiptiborðið á heilbrigðisstofnuninni áður en maður fær að tala við kallgarminn og þar er gjarnan sagt "gessovel" við flest tækifæri. Ég komst ekki í gegn núna því kallinn er í fríi, bitte nú sagði kellingin. Er hann í fríi jahá og hvenær kemur hann svo til baka úr þessu fríi sínu? Hann verður hér eftir viku. Andskotans Andskotans.
Þetta þýðir það að flestir sem brjóta á sér útlimi þurfa að ganga gegnum sex vikna prósess í batanum og svo geta þeir byrjað að hreyfa sig, ég er búinn að vera sjö eða átta vikur heima með fót í fatla og þarf að bíða heila viku eftir að tala við Dr sveitalækni og svo aðra viku eftir að hitta hann. Sennilega þarf ég að láta ljósrita löppina á mér í millitíðinni.

Það var svolítið sniðugt að nokkrum mínútum eftir slysið var ég kominn inn á bráðamóttökuna á heilbrigðisstofnuninnni. Þegar ég kom þar inn tók á móti mér rúmlega miðaldra maður í hvítum slopp. Hann spurði mig hvort mér væri illt í hálsinum, ég neitaði því, þá bað hann súperbabú að taka kragann af mér sem þeir gerðu. Næst spurði hann hvar mér væri illt, ég sagði honum það samviskusamlega: "mér er illt í hægra hné vinstri ökkla og rassinum". Kallinn potaði eitthvað í hnéð og skipaði mér úr buxunum, súperbabú hjálpaði mér úr öðrum skónum en skurðlæknirinn úr hinum, þeir ætluðu aldrei að finna út úr því hvernig skónum væri lokað, þannig að ég þurfti að benda þeim á appelsínugula flipann sem er rétt ofan við hælinn, þar er skónum lokað með tungu sem er strekkt aftur með ökklanum.

Það næsta sem skurðlæknirinn gerði var að reka súperbabú heim, þeirra krafta var ekki óskað lengur. Ég varð pínu sorrí yfir því vegna þess að ég kunni mun betur við þá en skurðlækninn. Mér fannst ég liggja mjög lengi á bekknum sem mér var skellt á þegar ég kom inn og var ekki alveg viss hvort ég væri einn á stofunni eða hvort það væri einhver annar þarna þannig að ég snéri hausnum aðeins svo ég gæti séð hvort einhver væri fyrir aftan mig. Það passaði skurðlæknirinn var þar við tölvu mjög hugsi. Ég fékk sjokk því ég var viss um að hann væri að slá ínn í tölvuna að sjúklingnum væri ekki viðbjargandi og hann ætlaði heim og myndi skilja sjúklinginn eftir á borðinu.

Ég byrjaði að svitna því ég sá fyrir mér að skúringakonan myndi henda mér út þegar hún kæmi um sjöleitið. Þegar hann var búinn að bjástra heillengi við tölvuna kom loksins eitthvað hljóð frá honum og það var ekki neitt sérlega traustvekjandi:" hvernig ætli maður skrifi beiðni fyrir röntgen"
Jahá hvernig gerir maður það þegar maður er eini læknirinn í þessum landshluta og á að taka á móti fólki sem hefur slasast.

jæja nú er kominn ljósritari sem ætlar að finna út hvort eitthvað er að þér,getur þú labbað sjálfur inn til hennar? ha? Ég veit það ekki ég hef ekkert labbað síðan ég labbaði upp stigann áðan. Ég var reistur upp í rúminu því mér var svo illt í rassinum að mér var fyrirmunað að setjast upp sjálfur, því næst var ég látinn stíga í fótinn svo ég gæti nú valhoppað inn í röntgen. Það var ekki að spyrja að því að ég var næstum dottinn í annað sinn á hálftíma. Hjólastóll var hlutskipti mitt þegar hér var komið sögu, ég hafði aldrei áður sest í slíkt ökutæki en einhverntíman er allt fyrst. Skurðlæknirinn keyrði mig alla leið að dyrunum á röntgenstofunni þar sem stólnum parkerað.Eftir nokkra bið kom hann aftur og þá með ljósritarann sem var í borgaralegum klæðum (leðurstígvél og einhver drapplit föt). Stólnum var næst lagt við hliðina á meters hárri ljósritunarvél sem mér var gert að klöngrast upp á sjálfur(með brotna hnéð). Ég var myndaður bak og fyrir og meðan ég lá þarna spurði ég ljósritarann hvort það gæti ekki verið að hún þekkti hjartað sem ku vera vinkona meinvills jú jú hún kannaðist sko við hana "ég er alltaf að bjóða henni aukavinnu en hún hefur ekki áhuga, hún á sennilega alveg nóg af peningum". Ég heyrði að hún var eitthvað pirruð, sennilega afþví hún var komin heim og var að bíða eftir ER í svartholinu.

Það næsta sem gerðist var það að skurðlæknirinn hótaði að leggja mig inn því hann væri ekki viss hvort það væri eitthvað að mér. Þegar hann hafði varla sleppt orðinu stökk hann fram og sagðist ætla að reyna að finna sérfræðing sem hann og gerði hann kom með Dr sveitalækni með sér inn á stofuna. Dr Sveitalæknir kíkti á hnéð og sagði hið augljósa að það væri nú ekki alveg í lagi með hnéð, hann skoðaði líka ljósritin og sagðist sjá eina rispu en það væri sennilega ekki brot. Restina þekkja allir í næstu ljósritun hálfum mánuði eftir fallið kom brotið í ljós.

Ég mæli ekki með við nokkurn mann að slasast annarsstaðar en á höfuðborgarsvæðinu ef þið látið ykkur detta í hug að slasast annarsstaðar verið þá viss um að þið séuð svo mikið slösuð að þið verðið send í bæinn til aðhlynningar því það er ekkert gaman að elta lækna sem kjósa að starfa úti á landi.