sunnudagur, júní 20, 2004

Næturgestur

Hálf-ítalinn kom til okkar í gær, mamma hans fór eitthvað út á lífið og kom guttanum fyrir hjá okkur á meðan. Hann lék á alls oddi og sýndi okkur hvert leikfangið á fætur öðru og lét okkur lesa sömu bókina aftur og aftur. Við steiktum svo silung sem ég veiddi fyrir westan, meinvill mátti hafa hraðar hendur til að fóðra ungann því honum fannst þetta greinilega herramanns matur. Um kvöldið fórum við og heimsóttum ömmu hans og afa, þar fékk hann helíumblöðru sem vakti mikla lukku.
Við byrjuðum daginn frekar seint því guttinn fór frekar seint að sofa. Að loknum morgunverði fórum við niður að læk til að gefa (BABA) öndunum.(ég ætla að setja eina mynd af þeim gerningi inn í albúmið mitt). Þegar það var búið brunuðum við í hádegismat til moms, þar tók danska prinsessan á móti okkur. Við fengum súpu og brauð og sér gestirnir fengu skyr til að klína upp í sig og á fleiri staði sem skyr á ekki alveg heima á.
Þegar við yfirgáfum svæðið smellti hálfítalinn kossi á dösku prinsessuna við mikinn fögnuð viðstaddra, þetta var eins og klippt út úr einhverri barnamatsauglýsingu.


*************


Framan á Fréttablaðinu í dag er frétt um konu sem fannst látin í Fossvoginum. Þetta minnir mig á það þegar ég var fyrir 15 árum að sigla á seglbretti í Nauthólsvík og maður kom hlaupandi til mín og spurði hvort ég væri ekki í blautbúningi. Ég gat ekki annað en játað því því ekki leit fatnaður minn út fyrir að vera úr silki. Hann gargaði þá á mig að ég yrði að koma og hjálpa honum því það væri kona að reyna að drekkja sér í sjónum hinumegin við garðinn sem nú er að mestu búið að rífa. Ég verð að viðurkenna að ég þorði ekki að gera neitt því ég vissi ekki nema konan myndi drekkja mér líka. Ég sagði manninum að ég hefði ekki kjark í að vaða eftir konunni, ég vissi ekki heldur hvort hún væri með eggvopn eða eitthvað þessháttar ofan í sjónum. Þess ber að geta að ég var bara 15 ára þegar þetta gerðist og var engan veginn tilbúinn að fara að vaða út í sjó til að reyna að draga drulludópaða kellingu í sjálfsmorðshugleiðingum að landi. Ég mann enn hvernig sting ég fékk í magann þegar ég sá hana þar sem hún stóð í sjó upp í bringu og stakk svo hausnum ofan í sjóinn þannig að bara bakið stóð upp úr. Til allrar hamingju kom löggan skömmu síðar á staðinn og reif hana upp úr, ég man ekki hvort einn þeirra fór út í til að sækja hana eða hvort þeir skipuðu henni bara að koma upp úr. Svo var hún leidd upp úr fjörunni og farið með hana í lögreglubíl í burtu.

Tveimur eða þremur árum áður en þetta gerðist var ég að keppa í siglingum á þessu sama svæði nema bara hinumegin í voginum. Þá höfðu tveir menn týnst annar á jeppa en hinn hafði verið á djamminu og hvarf sporlaust. Eitthvað var það samt sem tengdi annan manninn við Fossvog og var mikið leitað að manninum þar en án árangurs. Áður en við fórum út á voginn að sigla var okkur skipað að hafa augun hjá okkur ef við skyldum sjá eitthvað torkennilegt fjótandi. Ég man enn hvað var sagt við okkur;"það er hugsanlegt að það hafi maður drukknað hér í voginum, ef þið sjáið eitthvað torkennilegt eins og jakka fjótandi í sjónum þá megið þið alls ekki snerta það heldur komið þið beint í land og látið okkur vita hvar þið sáuð þetta fljótandi".