fimmtudagur, júní 17, 2004

Fundir og mannfagnaðir

Við fengum góða gesti í gærkvöld, þar voru á ferðinni baunverska fjölskyldan umhverfisráðherrann,listamaðurinn og mamma og pabbi. Ég hafði tekið mig til og bakað ofan í mannskapinn og hellti upp á kaffi þannig að þetta var með sárra móti fyrir kaffiboð á virkum degi. Litla frænka sá til þess að manni leiddist ekki, hún þrammaði styrkum fótum um íbúðina með mjólkurglas í hönd, öðruhvoru stoppaði hún hjá einhverjum og rétti viðkomandi glasið, hristi svo hendurnar,tók glasið og labbaði til næsta sem átti að halda á glasinu. Hún var orðin alveg dauðuppgefin á öllu saman í restina og gekk ekki eins styrkum fótum rétt fyrir heimferð. Ég frétti af henni þar sem hún sofnaði í bílnum á leiðinni heim og rumskaði ekki fyrr en í morgun.

**************

Ég er að verða svo góður í löppinni að ég er að spá í að fara bara að vinna á mánudaginn eftir viku. Ég ætla ekki að byrja með einhverjar stórar yfirlýsingar þegar ég mæti í vinnuna. Ég er einfaldlega of hjátrúarfullur til þess. Ég ætla að tala við stóra stjóra til að byrja með og sjá hvar á landinu ég á að vera. Ég er að vona að ég verði bara í námunda við höfuðstaðinn þannig að ég geti unnið hálfan daginn til að byrja með.

Daginn sem ég settist úr þriggja metra hæð var ég búinn að vera eitthvað latur og var marg búinn að segja strákunum að ég vildi að það væri föstudagur en ekki fimmtudagur því þá væri frí á morgun. Ég var í fríi daginn eftir og alla helgina og er reyndar ekki búinn að vinna handtak síðan þetta gerðist fyrir sex eða sjö vikum síðan. Ég lýsti því líka yfir við vinnufélaga sem hafði dottið úr sömu hæð og ég (hann lenti á perunni) að mér þætti bara eðlilegt að menn fengju full laun í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir svona slys eins og hann lenti í. Á meðan ég rausaði þetta yfir honum hellti ég málningu í bakka og fann mér rúllu því ég ætlaði að klára að mála smá frímerki sem ég átti eftir svona rétt áður en maður færi heim. Það leið ekki mínúta frá því ég æsti mig þarna þar til ég lá í gólfinu og gat ekki staðið upp.

**************

Nú er sautjándi júní og hátíðarhöldin hér á endimörkum höfuðborgarsvæðisins eru ekki langt frá stofuglugganum mínum. Nú rétt í þessu var verið að grenja nýjasta júróvisíonlagið inn um gluggann hjá okkur Meinvill.Djöfulsins agalegur hryllingur er að heyra þennan óskapnað sem fékk nánast ekkert stig í keppninni.
Mér finnst að það ættu að vera reglur um lög sem fá næstum engin stig í júró þau ættu að vera bönnuð. Það segir sig sjálft að ef lag er svo lélegt að enginn er tilbúinn að gefa því stig þá ætti að láta svoleiðis kosningu vera bindandi.