mánudagur, júní 21, 2004

Góðveðursdagur

Nú er hið mesta góðviðri búið að vera á svölunum hjá mér í dag. Það er svo gott veður að ég setti spelkudrusluna í sófann og skundaði út eftir að hafa makað sólarvörn á alla þá staði sem hendurnar ná til. Ég get samt ekki setið svo lengi í einu því þolinmæðinni er naumt skammtað þegar kemur að því að sitja og gera ekki neitt. Þannig að þegar fréttablaðið var upplesið fór ég og sótti skúringafötu og moppuna sem er búin að vera á leið í tunnuna síðan síðasta sumar og skrúbbaði svalirnar vel og vandlega. Nú er það frá og næst á dagskrá er að pússa gluggann.

*************

Ég er eins og flestir aðrir, mér leiðist alveg óskaplega að fá tölvupóst frá einhverjum fyrirtækjum sem selja þjónustu sem ég hef ekki þörf fyrir. Í gær fékk ég eitt slíkt frá einhverri bílaleigu sem var að reyna að leigja mér bíl (eins og mig vanti bíl í augnablikinu ég á tvo nú þegar). Ég brást ókvæða við og sendi strax skeyti til baka þess efnis að ég hefði engan áhuga á að fá tölvupóst frá þeim og ef þau eyddu mér ekki strax af póstlistanum sínum þá ætlaði ég að láta þar tilgerða embættismenn hafa samband við þau.
Eitthvað tóku starfsmennirnir þetta óstinnt upp og hringdu í mig í hádeginu til að segja mér að þau beittu engum óeðlilegum brögðum til að veiða netföng af netinu (ég var búinn að athuga hvort vodafone hefði gefið upp netfangið mitt.
Enívei kellan hringdi í mig alveg galin yfir dónaskapnum í mér að benda þeim á að ruslpóstur er ólöglegur í fróni. Hún skildi ekkert í þessum hörðu viðbrögðum hjá mér og benti mér á að ég hefði einhverntíman fyrir tveimur árum tekið þátt í netleik hjá þeim og þessvegna hefðu þau nafnið mitt, kennitölu og netfang á lista hjá sér og ákváðu að senda út póst til að athuga hverjir vildu vera á póstlista hjá þeim.

Ég held að maður þurfi að athuga sinn gang með hverjum maður gefur upp netfangið sitt, fyrir nokkrum árum fylltist pósthólfið mitt alltaf af einhverjum áróðri frá ungliðahreyfingu stjórnmálaflokks afþví ég hafði einhverntíman sent þeim fyrirspurn á netinu. Það tók marga mánuði að losna af listanum hjá þeim og gerðist reyndar ekki fyrr en ég hætti að vera kurteis og hótaði þeim öllu illu ef þeir hættu ekki að senda mér óumbeðinn póst. Það virkaði og ég hef ekki fengið neitt frá þeim síðan.

Allavega, ég fæ ekki aftur póst frá þessari bílaleigu og ég er ekki viss um að blessuð konan kæri sig um að leigja mér bíl á næstunni.

***********

jæja það er spurning um að athuga hvort það sé ekki swaka gott veður á svölunum ennþá þannig að ég geti pússað gluggann.


Maid