Ein hola
Mér finnst tannkremsauglýsingin sem er alltaf í sjónvarpinu asnaleg. Þetta er erlend auglýsing þar sem fólk heldur á öllum mögulegum hlutum með GATI og textinn sem lesinn er yfir auglýsinguna er eitthvað á þá leið að sumt fólk viti hreinlega ekki hvað holur eru, þetta væri nú í lagi ef það væri ekki sýndur poki með GATI og nál með AUGA og GÖTÓTTUR ostur.
Annars var ég hjá tannsa í morgun því ég var með eina holu í einni tönn en ekkert gat, það er ekkert gaman og mjög dýrt að fara til tannsa. Ég er nú ekki haldinn neinni tannsafóbíu en er að spá í að fá eina svoleiðis núna strax því tannlækninum tókst að festa efri vörina á mér við einn jaxlinn með einhverju járnarusli sem er sett utan um tennurnar meðan fyllingin er sett í. Ég var ekki viss til að byrja með hvort þetta var vont eða ekki en svo komst ég að því að þetta var mjög vont. Tannsi reyndi að toga vörina úr klemmunni en það var enn verra fyrir vikið, þvínæst losaði hún klemmuna og þá lagaðist allt. Hún spurði mig afhverju ég kvartaði ekki en ég gat lítið sagt því munnurinn á mér var fullur af gúmídúk og verkfærum. Þá töldu þær báðar að ég væri harðjaxl og sögðu að þeir væru sjaldgæfir nú til dags. Ég sagði ekkert því ég er ekki eins viss um að ég sé harðjaxl þó ég kveinki mér lítið við að vörin sé fest við tennurnar. Þegar ég fékk loks að stíga upp úr stólnum var það fyrsta sem ég tók eftir blóðbragð í munninum þannig að ég þreifaði á vörinni sem var pínulítið bólgin og pínulítið sár á henni.
Nú er ég búinn að vaska upp og get því farið að koma mér í vinnugallann og hunskast í vinnuna til þess að vinna þriðja hálfa daginn. Ég er ekkert að grínast með það að ég er eins og útspýtt hundskinn eftir að þrauka allt upp í 5 tíma á vinnustaðnum.
<< Home