laugardagur, júní 26, 2004

Þá er það búið

Við Meinvill vorum búin að kjósa klukkan ellefu í morgun. Aldrei þessu vant var ekki gott veður þegar við skunduðum á kjörstað, meira svona rok og rigning. Mér finnst alveg nauðsynlegt að kjósa því ef ég kýs ekki þá finnst mér ég ekki hafa efni á að gagnrýna þá sem eru við stjórn. Kjördeildin okkar var í kennslustofu í grunnskólanum sem ég sótti þegar ég var barn, stofan var merkt einum undarlegasta kennara sem ég hef haft, en hann var þó hvergi sjáanlegur. Það hefur ýmislegt breyst síðan ég kom síðast inn í skólann t.d. er gengið inn í hann gegnum smíðastofuna sem þá var en gegnir nú hlutverki skápageymslu. Ég get ekki sagt að það hafi verið nein nostalgía að koma þarna inn.

***************

Meinvill er að spá í að fá sér jeppa, ég er búinn að benda í allar áttir á alla jeppa sem eru minni og léttari en sá sem við eigum núna. Neibb meinvill langar mest í Mússó þó hann sé alveg jafn stór og rauði strætóinn sem við eigum í dag. Ég þarf að kynna mér hvernig varahlutaþjónustu er háttað í umboðinu fyrir næsta jeppa sem við fáum okkur. Núverandi umboð er það lélegasta og dýrasta sem ég veit um. Eitt sinn þurfti ég að kaupa varastykki í jeppann og fór þá rakleitt í umboðið og bað um þessi varastykki það var eitthvað til af þeim en þó ekki öll þannig að ég bað þá um að panta þessa hluti fyrir mig, það ver nú ekki mikið mál "þetta kemur svo í næstu viku til okkar.... hafðu bara samband eftir helgi og við staðfestum þaá að hlutirnir eru komnir" sagði sölumaðurinn.
Ég hafði samband við hann í næstu viku og þarnæstu og vikuna á eftir hringdi ég líka en ýmist voru varahlutirnir á bryggjunni eða nýkomnir í hús en þegar átti að sækja draslið gufaði það jafnóðum upp í búðinni. Þegar þolinmæðin var á þrotum hringdi ég í varahlutasöluna og spurði manninn hvar skjaldbakan með varahlutina væri stödd í heiminum, því næsta hjólaði ég í yfirmann hans og manninn yfir honum og reifst og skammaðist í þeim öllum og þá var ekki að spyrja að því varahlutirnir komu eins og skot fimm vikum eftir að þeir voru pantaðir.

Þessvegna ætla ég ekki að kaupa bíl frá bílaumboðinu neðst í ártúnsbrekkunni.