þriðjudagur, júní 29, 2004

Dagur tvö punktur

Ég var aftur mættur á ókristilegum tíma í vinnuna í morgun. Nú þurfti ég ekki að leita að neinu og í þokkabót mundi suðurnesja þrællinn eftir að koma með útvarpið mitt í bæinn þannig að ég gat hlustað smá á kjaftablaður í morgun. Mér líður eins og ég sé hundrað ára eftir að hafa unnið hálfan daginn, spelkan sígur alltaf niður á ökla þannig að þegar ég geng marrar og brakar í hnénu á mér. Ég þarf eitthvað að gera í þessu því það er ekki sniðugt að draslið sé að drepa mann um kaffileitið.
Á morgun ætla ég að mæta eftir hádegi í vinnuna því ég ætla að láta spóla í góminn á mér fyrir hádegi.

*************

Við fórum í heimsókn á æskuslóðir í gær, þar hittum við dönsku prinsessuna sem lék við hvurn sinn fingur og stjórnaði öllu af röggsemi, aðallega þó ömmu sinni. Þannig var nefnilega að amma hennar bauð upp á súkkulaðimola með kaffinu og sú stutta þekkti greinilega hljóðið í bréfinu og kom þjótandi með opinn munn tilbúin að meðtaka sæluna sem í einum súkkulaðimola felst. Foreldrarnir voru ekki eins hrifin af því að sú stutta fengi mikið súkkulaði en hún kann greinilega að bræða ömmu sína því hún fékk einn mola hjá henni, og stóð svo úti á gólfi og reyndi eftir fremsta megni að komast inn í bréfið og afþakkaði hjálp frá pabba sínum með því að snúa sér undan þegar hann gerðist líklegur til að teygja sig í molann. Það er nefnilega vissara að vera ekki að rétta fólki sælgætismola til þess eins að láta taka utan af honum fyrir sig því það gæti farið svo að sá sem tæki utan af molanum gleymdi að skila honum og myndi éta hann sjálfur.

***********

Einn vinnufélagi minn skammaði mig í morgun fyrir að villa á mér heimildir, ég varð vitanlega eins og bjáni í framan og skildi ekkert í því sem hann var að tala um, ég spurði því hvað hann meinti með þessu, hann sagði mér þá að lyfta löppunum meðan ég labbaði um gólfið í húsinu. Ég skildi ekki enn hvað hann meinti og sagði bara að spelkan væri svo þung að ég loftaði ekki löppinni, hann kom af fjöllum og hafði ekki hugmynd um hvað hafði gengið á hjá mér, ég útskýrði það fyrir honum og þá sagði hann að þetta væri óþægilegt því það væri alltaf eins og framvæmdastjórinn væri á ferð, en hann dregur víst hælana þegar hann mætir á svæðið. Ég hafði líka tekið eftir því að alltaf þegar ég var farinn að nálgast vinnufélagana þar sem þeir stóðu og kjöftuðu þá gripu þeir næsta verkfæri og fóru að þykjast vera að vinna, ég hélt þetta væri vegna þess að þeir væru að baktala mig en svo var ekki, þeir héldu einfaldlega að stóri stjóri(sem er lítill) væri að koma aftan að þeim.


Whip The Worker