laugardagur, júlí 31, 2004

Hananú

Ég hætti við tilraunina sem ég ætlaði að gera með að panta mússík dvd og bók frá Ameríkuhreppi, ástæðan er rosalegur flutningskostnaður og langur afhendingartími. Ég reiknaði dæmið eftir sömu forsendum og ef ég væri að panta frá Breska heimsveldinu og útkoman var að það hefði í besta falli munað fimmhundruðkalli og mér fannst sá munur ekki þess virði að láta á reyna. Aðferðin sem ég nota við að reikna verð vörunnar er að ég raða fullt af vörum í körfuna sem heitir basket á bretlandi en cart í ameríku svo margfalda ég með genginu og að síðustu margfalda ég heildatöluna með 1,4 og þá fæ ég nokkurnvegin rétta tölu. Ég á ekki von á að við séum með hagstæðari samninga við ameríku en evrópu þannig að ég ákvað að fylla bresku körfuna mína af geisladiskum og dvd og láta senda mér það heim að dyrum.

***********

Meinvill fór í golf áðan, ég hef ekki reynt að fá þá dellu ennþá því ég er viss um að ef ég væri með jeppa,vélsleða,fjallgöngu,tölvu og golfdellu í þokkabót þá gerðist ekkert hjá mér. Annars sé ég fram á níunda sleðalausa veturinn í röð núna því ég held ég hafi ekki bæði efni á að kaupa nýjan jeppa og sleða í vetur,það er nefnilega verið að gera við húsið sem við búum í og það kallar á sirka hálfan helling af bláum sem ég fæ að láni hjá http://www.s24.is á vægum okurvöxtum.
Annars varð ég fyrir þeirri óvæntu reynslu að fara inn á síðuna hjá þessum nýja viðskiptabanka mínum og sá þar að vextirnir á debetkortinu mínu hafa hækkað um hálft prósent, en sú hækkun er jafn há og heildar innlánsvextirnir á gamla reikningnum eru.Um síðustu áramót ákvað ég að sækja um debetkort hjá þessum pínulitla banka sem er í eigu gamla viðskiptabankans míns og gera tilraun sem á að standa yfir í heilt ár. Tilraunin felst í að ég ætla að nota nýja kortið alveg eins og það gamla og svo ætla ég að athuga hversu há þjónustugjöld ég borga og hvað ég fæ mikla vexti á reikninginn svo verður allt lagt saman og dregið frá eftir kúnstarinnar reglum og heildardæmið lagt á vogarskálarnar.

Snow Mobile Snow Mobile Snow Mobile Snow Mobile Snow Mobile Jeep Jeep Jeep






Hitt og þetta

Til hamingju með afmælið stóra systir,,,,,, engin veisla fyrr en á morgun hrmpf.

********

Flestir kannast við gamlar almennilegar konur sem vilja allt fyrir mann gera og mega ekkert aumt sjá án þess að reyna að bæta heiminn aðeins með sínum alkunnu almennilegheitum. Eina slíka hitti ég áðan úti í búð.
Þannig er mál með vexti að ég er að fara að baka köku fyrir afmælið hennar ömmu Lóu sem verður haldið á mánudaginn heima hjá mömmu og pabba. Til þess að baka þessa tilteknu köku fyrir hana þurfti ég að kaupa eitt lítið kökuform og hvert fer maður þá annað en í kauffélagið, meðan ég bograði við hilluna sem formin eru geymd í og stúderaði hvaða stærð hentaði heyrði ég sagt fyrir aftan mig: "ertu svona myndarlegur að þú ætlar að fara að baka?" Ég umlaði eitthvað um að ég væri nú menntaður í þessu. Konan hlustaði ekki á mig og sagði mér að þetta form væri það besta sem til væri og rak framan í mig alveg eins form og ég hef átt í marga mánuði, ég sagði henni að ég væri búinn að finna rétta formið en hún gaf sig sko ekki. Heyrðu væni þetta form er svo agalega gott til að baka gulrótarköku í. Ég kreisti fram grettu til að þykjast uppnuminn af þessum upplýsingum sem konan gaf mér þarna óumbeðin á einum ganginum í stórmarkaðskauffélaginu.
Ég skal viðurkenna að ég hafði lúmskt gaman af þessu því kellingargreyið hefur örugglega haldið að hér væri á ferð ósjálfbjarga karlmaður sem ætti að halda sig úti í bílskúr með sög frekar en í eldhúsinu með svuntu og sleif.


'Chef'

föstudagur, júlí 30, 2004

Rok og rigning

Það er ekki að spyrja að því að í morgun byrjaði ég í stuttu sumarfríi. Þetta er bara viku frí og að sjálfsögðu byrjaði að rigna á slaginu sex í gær þegar ég kom heim. Ég er ekki frá því að ég sé sá sem veðrið snýst um,,,,, kannski eru veðurguðirnir að segja mér að leggja harðar að mér í vinnu með því að hafa rigningu í hvert einasta sinn sem ég tek mér frí eða slasa mig eitthvað að ráði.

**********

Umhverfisráðherra ættarinnar og listmálarinn koma úr rigningunni fyrir norðan á eftir. Það er svo langt síðan ég sá þau að ég væri ekkert hissa á því að þau hefðu breyst í útliti síðan ég sá þau síðast. Nú þarf maður að fara að setja pressu á þau að halda innflutningspartý svo það megi taka nýju íbúðina þeirra út með glæsibrag.

**********

Ég er að spá í að gera tilraun með að panta mússík og svona eina bók frá Ammiríku og sjá hvort það er ódýrara en að panta frá Breska heimsveldinu.

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Almennilegaheita fólk

Það er sagt að maður myndi sér skoðun á fólki á innan við tuttugu sekúndum þegar maður hittir það í fyrsta sinn en svo getur maður verið svakalega lengi að breyta skoðun sinni aftur þegar maður kynnist fólki betur.
Þetta henti mig nú í síðustu viku þegar ég hitti mann sem kemur oft fram í fjölmiðlum til að útskýra eitt og annað sem snýr að þeirri ríkisstofnun sem hann stýrir af myndarbrag þrátt fyrir að yfirmaður hans skaffi fáar krónur til rekstrarins. Ég hef alltaf haldið að hann væri þurr á manninn, frekur og hálfgerður tuddi. Í gær þurrkaði þessi maður gömlu myndina af sér úr huga mínum.
Klukkan þrú í gær kom verkstjórinn til mín og sagði mér að ég væri á leið út úr bænum, ekki langt bara upp í Kjós. Ég byrjaði á að blóta í hljóði en lét eins og þetta væri tækifæri lífs míns. Við komumst af stað út úr bænum klukkan fjögur og vorum mættir í kjósina um fimmleytið, veðrið var í sínu besta skapi í og ég smitaðist af því eftir stutta veru niðri við Meðalfellsvatn.
Við lögðum hart að okkur til að koma bryggju út í vatn fyrir ríkisforstjórann, vinnufélagi minn lagði þó harðar að sér en við hinir því á tímabili stóðu bara gleraugun hans og nefið upp úr vatninu, ég lét mér duga að fá einn eða tvo lítra af Meðalfellsvatni ofan í vöðlurnar sem ég var í.
Meðan við vorum að vinna bar forstjórinn í okkur kaffi sem var örugglega framleitt í tsjernóbil því ég er viss um að það var geislavirkt, í það minnsta var það svo sterkt að ég hélt að maginn myndi detta úr mér þegar ég hafði komið herlegheitunum niður.

Þegar bryggjuuppsetningunni lauk kom forstjórinn skokkandi yfir flötina við sumarbústaðinn sinn og kallaði á okkur í mat, á dauða mínum átti ég nú von en ekki að ég kæmi saddur heim úr vinnunni. Á borðum var lambalæri, kartöflur, grænmeti og fleira góðgæti og mikið úrval áfengra og óáfengra drykkja.
Ég kom heim úr vinnunni klukkan tíu alveg dauðuppgefinn en saddur og með alveg glænýja sýn á manninn sem stórnar þeirri stofnun sem kemst næst því að vera Íslenskur her.

 
'Boating

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Hugmyndaleysi

Ég er bæði búinn að vera latur og hugmyndasnauður síðustu daga þannig að ég hef ekki nennt að skrifa neitt þegar ég kem heim úr vinnunni.

************

Um helgina komumst við Orkuveitustarfsmaðurinn inn á Landamannaafrétt í veiði. Við lögðum af stað úr Hafnarfirði stundvíslega klukkan átta. Fyrsta hindrun leiðarinnar inn á hálendið varð á vegi okkar í Garðabæ, þar var verið að malbika veginn og að sjálfsögðu var lokunarskiltið bara skrúfað aftan á malbikunarvélina þannig að það var ekki möguleiki að vara sig á framkvæmdunum fyrr en maður var búinn að taka fram úr þremur völturum og sveigja hjá nokkrum appelsínugulum keilum. Við þurftum því að fara upp fyrir bæinn fyrr en við ætluðum þ.e. við fórum upp með Vífilsstaðavatni sem var alveg spegilslétt þennan morgun.
Fyrsti viðkomustaður var í sjoppunni við Landvegamótin, þar var keypt bensín á farartækið og rétt aðeins úr löppunum.
Næsta stopp var í námunda við galtarlæk þar sem við stoppuðum til að losna við rútu sem jós upp miklu ryki á veginum. Þegar rútan var komin hæfilega langt í burtu var haldið af stað aftur og brunað upp að gatnamótum inn á Dómadal, þar skildum við nokkur pund af lofti eftir. Næst síðasta stopp áður en veiðiskapurinn gat byrjað var í Landmannahelli þar sem veiðileyfi eru seld.

Við byrjuðum á að kasta út í Löðmundarvatn klukkan ellefu en fengum lítið og litla fiska þá var stefnan sett á Blautaver en það var svo litað af jökulleir að við stoppuðum stutt við og héldum í Frostastaðavatn, veiðin í því vatni var ágæt og við dvöldum þar það sem eftir lifði dags. Við lögðum af stað í bæinn klukkan ellefu og vorum komnir heim klukkan tvö um nóttina.

 

 

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Sumar sumar

Ég er búinn að panta mér frí sitthvorumegin við verslunarmannahelgina. Ég veit ekki hvað ég ætla að gera við fríið því ég á ekki nothæfan jeppa eins og er þannig að fátt verður um fína drætti í þeim efnum. Ég held að aðrir jeppaeigendur haldi að þeir séu komnir á séns þegar ég mæti þeim því ég mæni svo stíft á bílana þeirra.
 
***********
 
Ég er með hálf leiðinlegt verkefni í vinnunni þessa dagana, ég er að smíða eitthvað prívat dót fyrir forstjóra ríkisstofnunar og er alveg viss um að ég þurfi að borga dótið sjálfur að nokkru leiti, svona er maður nú illa þenkjandi. Annars kom þessi ríkisforstjóri í dag og kíkti á draslið sem ég er með á borðinu og hrósaði því í hástert við verkstjórann.
Ég var alveg viss um að ef maður ætlaði að verða forstjóri ríkisstofnunar þyrfti maður að vera hávaxinn og grimmilegur í framan en svo er ekki með þennan kall því hann er lítill feitur og ekki grimmilegur þó hann stjórni sápuhernum.
 
*******
 
Bauni bró kom áðan í heimsókn til mín því hann er á leið í útlegð til herraþjóðarinnar, ég á ekki von á að fá hann í heimsókn fyrr en eftir páskana því hann er að spá í að halda heilög jól í útlandinu með litlu fjölskyldunni sinni.
Hann fer með strætisvagni háloftanna á fimmtudaginn.
 
********
 
Sænski nýbúinn kemur í heimsókn til okkar á morgun því það er síðasti séns áður en hann flýgur aftur út til hormottuberandi samlanda sinna. Ég er búinn að hitta hann einusinni í þessari stuttu heimsókn hans til foreldra sinna. Það er hálf kjánalegt að hafa búið með systur hans í á fjórða ár og ég hef hitt hann þrisvar sinnum, tvisvar áður en hann flutti út og einusinni nú síðustu fjögur ár. Ég hef hitt skurðlækninn konuna hans heldur oftar því hún er með eitthvað meiri heimþrá en hann.
 
 

laugardagur, júlí 17, 2004

Erlendir gestir

Í gær fékk ég tvo gesti frá Danaveldi þetta voru hvort tveggja nýbúar í Dk og þeir eiga það sameiginlegt að ætla sér að flytja á klakann við fyrsta tækifæri. Fyrst komu prinsessan og pabbi hennar og þegar þau voru farin kom nafni minn og fékk sér kvöldkaffi með mér.
Í kvöld kemur svo sænski nýbúinn í heimsókn til okkar. Meinvill fer út á flugvöll til að sækja hann.
***********
 
Sprungið dekk!
Ekki nóg með að jeppinn sé bilaður heldur er sprungið á fólksbílnum damn damn ég þarf að fara út og rífa undan honum og láta bæta draslið. Þegar það er búið á að skella sér í sveitina til að hitta ættingjana á hinu árlega ættarmóti í Borgarfirði, ættarmótið er haldið í sumarbústað sem frænka mín og fjölskyldan hennar á. Þegar ég verð stór ætla ég að eignast sumarbústað. Ég er búinn að skoða þetta svolítið og mér líst vel á að kaupa bara íbúð einhversstaðar inni í sveitaþorpi, það kostar nefnilega ekki neitt og er ekki svo galið finnst mér.
 
***********
 
Ég er hættur að nota spelkuna, læknirinn sagði að ég mætti byrja að sleppa henni smátt og smátt og fikra mig áfram spelkulaus. Það er ekki að spyrja að því, ég tók samstundis af mér spelku drusluna og henti henni út í horn og hef ekki sett hana á mig aftur. Ekki get ég sagt að ég sakni hennar mikið, í það minnsta sakna ég ekki kláðans sem fylgir henni.  

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Leti

Ég hef lítið tölvast síðustu daga vegna þreytu og leti vegna aukinnar vinnu. Ég hef mest legið uppi í sófa með bók og fræðst um ímyndaða glæpaheima Reykjavíkur. Um daginn las ég Svarta Engla eftir Ævar Örn Jósepsson bókin er skruggugóð en alveg ofboðslega lík lýsingunum sem maður heyrir úr þessu skrýtna mannshvarfsmáli sem kom upp í síðustu viku.

********

Í dag hitti manninn sem tók við mínu plássi á sjúkralistanum í fyrirtækinu, til að fylla mitt pláss á listanum þurfti hvorki meira né minna en framkvæmdastjórann sjálfann. Kallinn stoppaði aðeins hjá mér og spurði um heilsu og hvort ég þyrfti að stunda æfingar til að laga löppina, ég sagði eins og er að ég þarf bara að labba öðru hvoru til að fá kraft í fótinn. Ég náði varla að klára orðið því kallinn var rokinn í burtu.

*********

Bíllinn minn er ónýtur, ekki allur bara burðarvirkið í honum. Þessu komst ég að um helgina þegar ég ætlaði að fara að kanna hversu mikið ég þyrfti að sjóða í grindina á honum. Ég er búinn að hafa samband við eina partasölu sem á samskonar bíl en hann er líka með ónýta grind en á annan hátt. Best væri að fá úrbræddan bíl eða með ónýta skiptingu þannig að ég gæti fært vélina úr gamla bílnum yfir í nýrri.
Það er líka freistandi að rífa bílinn í spað og smíða buggy bíl eða einhverslags grindarbíl sem mætti djöflast á í malargryfjum eða fjöru. Til þess að það mætti verða þyrfti ég að eiga bílskúr en það hlýtur að koma að því að maður eignist einn slíkan.

************

Nú er stefnan sett á veiði um næstu helgi mér er nokk sama hvert ég fer að veiða aðal atriðið er að maður komist eitthvað með stöngina.


laugardagur, júlí 10, 2004

Fjölbreyttir dagar

Það er langt síðan ég skrifaði síðast, það stafar af því að ég er alveg útkeyrður eftir vinnuna þegar ég kem heim og hef ekki hugmyndaflug til að koma neinum orðum niður á lyklaborðið. Ég hef verið þeimmun duglegri að lesa það sem aðrir skrifa, enda krefst það ekki hugmyndaflugs að lesa hugrenninga annara.
Ég notaði síðustu viku til að æfa mig betur í að komast á vinnumarkaðinn eftir fallið. Fyrrihluta vikunnar vann ég frá klukkan hálf átta til tvö og seinnihlutann var ég ýmist til þrjú eða hálf fjögur.
Þegar maður situr á rassinum í tvo mánuði án þess að tylla mikið niður fæti verður maður allur máttlaus í fótunum og öllum skrokknum reyndar líka.

************

Ég talaði í síðasta sinn við DrSveitalækni á fimmtudag, hann útskrifaði mig í hvelli og óskaði mér góðs gengis. Ég þakkaði honum fyrir og óskaði honum góðrar ferðar í fríið svo lagði ég símann á og fór að hugsa. Ég er iðnaðarmaður og þarf stundum að laga hluti sem brotna eða skipta þeim út fyrir nýja ef ekki er hægt að laga brotna hlutinn, af þessum sökum ætla ég ekki að fagna nokkurn skapaðan hlut fyrr en einhverntíman í haust þegar ég sé að ég verð orðinn eins góður og áður í hnénu. Það er nefnilega þannig að það brotnaði sneið úr hnéliðnum og pressaðist niður eftir leggnum um þrjá millimetra, ekkert var gert til að laga brotið heldur á bara að bíða og sjá hvort ég verð ekki þokkalegur í löppinni með tímanum, þokkalegur er ekki í boði í þessu tilfelli því ég ætla að verða fullkominn í löppinni. Mér finnst svolítið skrýtið að það sé ekkert gert í svona broti því þetta er jú liðurinn sem var brotinn og brotið skríður ekki á sinn stað af sjálfu sér heldur er það þremur millimetrum fyrir neðan restina af liðnum og verður þar enn um sinn meðan ekkert er gert við það, ryendar er þetta nú þegar gróið svona skemmtilega vitlaust saman, samt sem áður á ekki að gera neitt nema ég komi haltrandi til baka og krefjist að fá viðgerð.
Skrýtið?

*********

Í vor var gert mikið grín að mér fyrir að ég var farinn að borða ávexti í öll mál og farinn að labba nokkrum sinnum í viku klukkutíma í senn. Bæði ávaxtaátið og labbið enduðu jafn skyndilega og það byrjaði með einum stórum smell og sírenuvæli.
Nú er önnur della tekin við af þeirri fyrri ég nefnilega er búinn að grípa eina og eina bók ofan úr hillu og lesa í ró og næði hingað og þangað um íbúðina. þetta byrjaði með da vincy lyklinum upp úr áramótum og nú er svo komið að ég átti leið um bókabúð um daginn og keypti mér eina bók, það var bókin svartir englar eftir Ævar Örn Jósepsson. Bókin er í einu orði sagt frábær.

***********

Í nótt keypti ég mér bílskúr á planinu fyrir utan blokkina þetta var svona designer bílskúr með dýnulausu rúmi og Ikea fataskáp með halogenljósum ofan við dyrnar. Ég held að einhver hafi sagt mér að skúrinn væri stærri en íbúðin en mér var alveg sama því þetta var bílskúr og mig er búið að vanta svoleiðis lengi. Ég var samt ekki alveg viss um að ég kæmi jeppanum inn í skúrinn því stofan í honum var svo stór að hún tók pláss af þeim stað sem bíllinn átti að standa á. Ég skal viðurkenna að ég þyrfti að fara að gera eitthvað í því að finna íbúð (hús)með bílskúr því það er hálf glatað að vera alltaf upp á aðra kominn með aðstöðu ef maður ætlar að gera eitthvað við skrjóðinn.

þriðjudagur, júlí 06, 2004

Vinna vinna vinna

Þá er ég að koma mér á fullt í vinnu, í síðustu viku var ég bara hálfan daginn en núna er ég farinn að harka af mér næstum allan daginn. Það er ekki fyndið hvað maður er þreyttur eftir þessa smá vinnu sem maður ætti samkvæmt öllu að vera eldhress eftir.

********

Mig langar að fara að veiða, jafnvel þó ég sé ekki búinn með allan fiskinn sem ég veiddi í síðasta túr. Mig langar líka að fara út á land og upplifa náttúruna og mig langar að kíkja í kaffi í bakaríið fyrir vestan. Mig langar að fara til útlanda og mig langar líka að vera heima þannig að ég hlýt að vera eirðarlaus þessa dagana.

*********

Í gær fórum við í afmæli til mömmu. Hún bauð upp á humarsúpu sem var alveg geðveik, litla frænka var samt ekki hrifin af súpunni en þeimmun hrifnari af óífum og ísnum sem var í eftirrétt. Gestirnir buðu aftur á móti upp á pakka í marglitum pappír.

********

Ég þarf að fara að viða að mér efni í viðgerðina á bílnum, ég þarf að fara á hvolf ofan í járnagáminn í vinnunni og sjá hvort ég finn ekki einhverja afganga sem ég get fúskað í grindina á honum svo að gormarnir detti ekki úr honum á ferð. Ég þarf líka að finna mér sparsl og lakk og svo get ég byrjað á herlegheitunum.

sunnudagur, júlí 04, 2004

Eitt núll

Ef maður þorir ekki að tapa þá tekur maður ekki þátt í keppninni. Ef maður er rosalega hræddur um að tapa þá hlustar maður ekki einusinni á úrslitin. Ef maður er skelfingu lostinn yfir þeim möguleika að maður geti tapað þá leggur maður keppnina niður semur nýjar reglur og reynir að sannfæra þáttakendur í keppninni um að nýju reglurnar séu betri en þær gömlu og svo reynir maður að vinna án keppni.

Þetta er það sem mér datt í hug þegar ég sá Dabba Druslu í svartholinu í kvöld þar sem hann tilkynnti að það yrði engin keppni í ágúst því hann ætlaði að semja nýjar reglur sem væru nógu sanngjarnar til að hann gæti unnið keppnina.
Ég er alveg brjálaður yfir að fá ekki að keppa því mig langaði svo sannarlega að mæta á kjörstað(keppnissvæðið) og segja nei takk við fjölmiðlalögunum. Það hefði verið ansi sætt að sjá vitringana 12 (ráðherrana) segja fólki að það hefði völdin og lögin hefðu verið felld þrátt fyrir gaddavírsgirðingar sem reistar hefðu verið kringum lögleysuna.

**************

Við fórum í afmælisveislu í dag, borðið svignaði undan glæsilegum kræsingum sem danska mágkonan hafði lagt sig fram við að bera á borð fyrir gestina. Við stoppuðum einn og hálfan til tvo tíma eða nógu lengi til að borða okkur södd og tapa stólunum sem við vorum búin að hita samviskusamlega.
Á morgun förum við svo í annað afmæli því þá á mamma Skakklappa afmæli. Okkur verður boðið upp á Humarsúpu og væntanlega snittubrauð ef ég þekki kokkinn rétt.

**********
Á morgun ætla ég að lengja vinnudaginn upp í 6 eða 7 tíma, það verður nokkuð fróðlegt að vita hvernig löppin bregst við því. Svo fer ég að þurfa að nefna sumarfrí við verkstjórann því ég á allt svoleiðis inni þrátt fyrir að hafa setið heima í vellystingum síðastliðana tvo mánuði. Ég er að spá í að reyna að fá frí fyrstu vikuna í ágúst og jafnvel þeirri síðustu í júlí líka. Það eru náttúrulega uppi mikil áform um veiðiskap þá og eins gott að vera búinn að æfa sveifluna vel.

laugardagur, júlí 03, 2004

Ágætis dagur

Tímatökurnar í formúlunni fóru vel í morgun þýski nasistinn var í öðru sæti en minn maður í því fyrsta. Þegar tímatökunum lauk skrapp ég út í bókabúð til að kaupa birgðir af afmælis og innflutningskortum ásamt einni gjafapappírsrúllu. Því næst voru skæri hafin á loft og pappírinn klipptur í hæfilegar einingar til að passa utan um flíkur á litlu dömuna sem á afmæli í dag. Það var svo sem ekki við því að búast að hún kynni að rífa pappírinn utan af gjöfunum en með hjálp frá foreldrunum sem reyndu þó að kenna handbragðið í leiðinni komu flíkurnar í ljós.
Þegar heimsókninni lauk fórum við heim og ég kláraði að lesa eina bók sem ég er búinn að vera að stafa mig gegnum undanfarin kvöld. Þetta var nokkurskonar æfisaga Þráins Bertelssonar þess hins sama og gerði hina stórskemmtilegu kvikmynd um Magnús, mér fannst bókin skemmtilega skrifuð og höfundurinn hreinn snillingur með pennann.

**********

Nú er mig farið að langa aftur í veiði eða bara eitthvað út úr bænum. Fyrst þyrfti maður samt að gera við jeppann sem er með grænan miða bæði að framan og aftan. Mig langar að fara og sofa í tjaldi við hliðina á vatni sem má veiða í allan sólarhringinn, það er nefnilega fátt sem mér finnst æðislegra en að veiða að nóttu til því þá er enginn á ferli og flugan heldur sig jafnvel annarsstaðar en í eyrunum á manni eða nefinu.

*********

Trallala

Til hamingju með afmælið danska prinsessa. Lengi lifi hugra hugra hugra, þetta er þrefalt húrra á dönsku fyrir þá sem ekki áttuðu sig við lesturinn.



Gærkvöldið fór í bílaviðgerð og lestur. Við Meinvill fórum upp á verkstæði og skelltum sportbílnum á lyftu til að geta gert við gírana í honum. Það var ekki vandalust að finna hvað var að þannig að ég og bifvélavirkinn stóðum og góndum ofan í húddið á bílnum meðan Meinvill hrærði í gírunum. Eftir mikla yfirlegu og spögglerasjónir var ákveðið að þetta væri vonlaust mál að eiga við og bílnum var slakað á gólfið. Upphófust nú miklar umræður um allt og ekkert, þá allt í einu stakk bifvélavirkinn upp á að við prófuðum að rífa gúmíið frá gírstönginni og skoða ofan í gatið. Það stóð heima eitthvað plaststykki var þar til tafala þannig að við rifum það bara úr og bíllinn er víst orðinn eins og nýr á eftir, þ.e. það er hægt að setja hann í fyrsta gír sem og alla hina.

Car 2

Fyrir nokkrum árum fóru foreldrar Skakklappa í miðborgina til að kaupa sér bíl, fyrir valinu varð vínrauður fólksbíll glænýr með nýjubílalykt(sem er lykt af ryðvörn) og öllu tilheyrandi. Þetta var sannkallaður kaggi með álfelgum og vindskeið en þó ekki geislaspilara. Ég verð að viðurenna að mér fannst þetta assgoti flottur bíll þó ég skildi ekki alveg afhverju þau keyptu sér ekki frekar jeppa. Bíllinn stóð fyrir utan æskustöðvar mínar glansandi hreinn og það stirndi á sanseringuna í lakkinu á honum.
Pabbi kom stoltur til mín og rétti mér lyklana að bílnum og spurði hvort ég vildi ekki taka í, ég hélt það nú enda hafði ég þá aldrei áður keyrt bíl sem var svona nýr. Ég settist inn í bílinn og andaði að mér ryðvörninni, setti lykilinn í svissinn steig á kúplinguna og setti í gang svo tók ég um gírstöngina og byrjaði að reyna að troða honum í fyrsta gír, það gekk illa en ég hélt ég væri bara hálfgerður klaufi þannig að ég hélt áfram að brasa þetta en illa gekk, maður lifandi hvað ég var að verða pirraður á þessu.
Einhvernvegin kom ég þó bílnum af stað og tók einhvern rúnt en var aldrei alveg sáttur við gírskiptinguna. Hinir voru sammála mér með þetta og það endaði með að bílnum var ekið í umboðið aftur svo laga mætti þennan galla. Bifvélavirkjarnir sögðu að þetta væri einhver öryggisfaktor svo fólk skipti ekki í fyrsta gír á svífandi siglingu.

Mér fannst það hálf kjánaleg skýring en þeir hlutu að hafa rétt fyrir sér blessaðir kallarnir sem höfðu menntað sig til að vera skíugir upp fyrir haus alla daga ársins.
Þegar bíllinn kom af verkstæðinu var allt annað að koma honum í fyrsta gír og fólk tók gleði sína á ný, þar til farið var á bílnum í reisu út á land og það átti að fara að þrykkja dollunni í fimmta gír; þá vandaðist nú málið heldur því verkstæðis kallarnir höfðu bara haft endaskipti á vandamálinu.
Það er skemmst frá því að segja að einn laugardagsmorgun ýtti pabbi við mér og sagði að ég þyrfti að koma með honum á rúntinn því hann væri að spá í að kaupa sér fjallabíl, Við fórum á eina bílasölu og skoðuðum einn bíl og tveimur dögum síðar var glansandi sportbíllinn horfinn og í staðinn kominn hinn vígalegasti fjallatrukkur á tuttugu og níu tommu dekkjum.



Low Rider

föstudagur, júlí 02, 2004

Allt þetta fólk

Það kannast flestir við að hugsa hvaðan kemur allt þetta fólk sem fyllir sjónvarpsþættina. Ég hef í það minnsta oft hugsað svona gegnum tíðina, nú er ég búinn að komast að svarinu við þessari spurningu. Fólkið kemur héðan og þaðan úr þjóðlífinu. Það er skömm að segja frá því að ég sat fyrir framan svartholið fyrr í vikunni og var eitthvað að skipta milli stöðva, í einni skiptingunni datt ég inn í hinn grautfúla brúðkaupsþátt. Það var verið að gefa saman par að hætti ásatrúarmanna ég hef aldrei séð svoleiðis athöfn áður svo ég staldraði aðeins við. Þegar athöfnin stóð sem hæst byrjaði ég að sjá kunnuglegu andliti bregða fyrir öðru hvoru, það svona sveiflaðist í og úr mynd og sást sjaldnast nema hálft. Andlitið tilheyrir ákveðnum slökkviliðsmálara og vini mínum úr Kópavogi. Jæja skítt með það ég staldraði svolitla stund við til að fullvissa mig um að þetta væri maðurinn og jú það fór ekki á milli mála því hann sat við borð á einu myndskeiði og talaði eins mikið og hans er von og vísa.

Í gærkvöld horfði ég á fréttir og ísland í dag. Þar var verið að ræða við óvenju myndarlegan snigil og Umferðaröryggisfulltrúa frá Landsbjörgu, eitthvað kannaðist ég við nefið á honum því við vorum saman í skóla fyrir rúmum tíu árum, þá báðir þess fullvissir að við ætluðum að verða bakarar. Árið 1993 fórum við svo saman til köben í náms og bjórsmökkunarferð með bekknum okkar.

Í tíufréttunum var frétt um skógarelda í Portúgal. Talað var um að þetta væru afleiðingar óvenju mikils hita sem hefur geisað á svæðinu í sumar. Í fréttinni var talað við fararstjóra hjá einhverri ferðaskrifstofu, ég heyrði alveg fram í eldhús að þetta var kunnugleg rödd þó ég hafi ekki heyrt hana í 10-15 ár. Það var nefnilega talað við mömmu vinar míns frá því ég var unglingur. En hún er einmitt búsett í Portúgal.

Dagskráin í gær var svo slöpp að ég svissaði á skjá einn. Þar var þátturinn hjartsláttur á dagskrá og þar sem ég fann ekkert skárra hinkraði ég aðeins til að sjá hvort þau töluðu við eitthvað áhugavert fólk. Þegar þátturinn var um það bil hálfnaður var farið inn í einhverja sápubúð í kringlunni og talað við starfsstúlku þar, það reyndist vera systir gamalla félaga minna úr björgunarsveitinni.

Ég get ekki beðið eftir að kveikja á kassanum í kvöld til að athuga hvort ég rekst ekki á gamla vini eða kunningja á skjánum því mér finnst allt efni með einhverjum sem ég þekki eða hef þekkt mun áhugaverðara en anað efni í sjónvarpi, þó að efnið væri ekki spennandi á þeirra sem maður þekkir.


*********

Þá er ég búinn að vinna heila viku hálfan daginn og er bara nokkuð ánægðu með mig að hafa afrekað það án þess að gefast upp því fyrsti dagurinn var líkastur helvíti því ég var svoooo þreyttur, annar dagurinn var lítið skárri en dagurinn í dag var fínn. Hann var svo fínn að það er aldrei að vita nema maður harki af sér allan daginn í næstu viku, eða allavega eitthvað lengur fram á daginn.


Hammering

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Sagan endalausa

þá er það búið ég talaði við DrSveitalækni áðan. Hann skipaði mér að fara í röntgen í dag eða á morgun. Ég hringdi svo og pantaði mér myndatöku seinnipartinn í dag. Assgotans munur er það þegar maður getur hringt og pantað tíma og fengið hann samdægurs.

**********

Í gær fór ég til tannsa fyrir hádegi og að vinna eftir hádegi, það er skemmst frá því að segja að ég hélt ég ætlaði ekki að drífa upp stigann hér heima, það hefði verið laglegur andskoti ef það hefði komið frétt um að maður hefði orðið úti á bílastæðinu fyrir utan húsið sitt um hásumar. Þá hefði komið maður í sjónvarpið til að segja fólki frá öllum þeim mistökum sem ég hefði gert í útbúnaði og háttsemi.
Það er nefnilega svo skrýtið að þegar eitthvað útlendingsgrey afrekar að drepa sig hérlendis á einhvern hátt þá koma mjög ítarlegar útlistingar á því hvernig manngarmurinn dó í öllum fjölmiðlum, aftur á móti ef íslendingur gerir öll sömu mistök og jafnvel nokkur fleiri þá er ekki minnst á það í fjölmiðlum, þá dugar að segja gróflega frá slysinu og svo er það gleymt. Þegar flugslys verða koma ítarlegar fréttir af öllum þeim mistökum sem flugmaðurinn gerir í aðdaganda slyssins, þetta tel ég vera til að aðrir geti lært af mistökunum. Aftur á móti ef það verður bílslys þá er lauslega sagt frá því og nöfn hinna látnu birt nokkru síðar. Það virðist ekki mega segja frá mistökunum sem bílstjórinn gerir af virðingu við aðstandendur. Væri ekki nær að segja frá öllu þannig að menn gætu forðast að gera slíkt hið sama.

************

Um helgina förum við í afmæli til dönsku prinsessunar því hún heldur hátíðlega upp á fyrsta afmælisdaginn sinn þann þriðja júlí. Við heimsóttum hana aðeins í gærkvöld því við þurftum að koma einu leiktæki sem hún fékk að láni hjá foreldrum Meinvills. Sú stutta var frekar afundin þegar við komum, hún hafði svo ekki var um að villast vatnað músum í svolitla stund, ömmu sinni til lítillar gleði. Svo tók hún nú gleði sína og kom oft til mín og rétti mér snuðið og sagði "mamm" sem gefur ótvírætt til kynna að ég á að koma með henni að búrskápnum og afhenda hennu rúsínur.