laugardagur, júlí 31, 2004

Hitt og þetta

Til hamingju með afmælið stóra systir,,,,,, engin veisla fyrr en á morgun hrmpf.

********

Flestir kannast við gamlar almennilegar konur sem vilja allt fyrir mann gera og mega ekkert aumt sjá án þess að reyna að bæta heiminn aðeins með sínum alkunnu almennilegheitum. Eina slíka hitti ég áðan úti í búð.
Þannig er mál með vexti að ég er að fara að baka köku fyrir afmælið hennar ömmu Lóu sem verður haldið á mánudaginn heima hjá mömmu og pabba. Til þess að baka þessa tilteknu köku fyrir hana þurfti ég að kaupa eitt lítið kökuform og hvert fer maður þá annað en í kauffélagið, meðan ég bograði við hilluna sem formin eru geymd í og stúderaði hvaða stærð hentaði heyrði ég sagt fyrir aftan mig: "ertu svona myndarlegur að þú ætlar að fara að baka?" Ég umlaði eitthvað um að ég væri nú menntaður í þessu. Konan hlustaði ekki á mig og sagði mér að þetta form væri það besta sem til væri og rak framan í mig alveg eins form og ég hef átt í marga mánuði, ég sagði henni að ég væri búinn að finna rétta formið en hún gaf sig sko ekki. Heyrðu væni þetta form er svo agalega gott til að baka gulrótarköku í. Ég kreisti fram grettu til að þykjast uppnuminn af þessum upplýsingum sem konan gaf mér þarna óumbeðin á einum ganginum í stórmarkaðskauffélaginu.
Ég skal viðurkenna að ég hafði lúmskt gaman af þessu því kellingargreyið hefur örugglega haldið að hér væri á ferð ósjálfbjarga karlmaður sem ætti að halda sig úti í bílskúr með sög frekar en í eldhúsinu með svuntu og sleif.


'Chef'