Fjölbreyttir dagar
Það er langt síðan ég skrifaði síðast, það stafar af því að ég er alveg útkeyrður eftir vinnuna þegar ég kem heim og hef ekki hugmyndaflug til að koma neinum orðum niður á lyklaborðið. Ég hef verið þeimmun duglegri að lesa það sem aðrir skrifa, enda krefst það ekki hugmyndaflugs að lesa hugrenninga annara.
Ég notaði síðustu viku til að æfa mig betur í að komast á vinnumarkaðinn eftir fallið. Fyrrihluta vikunnar vann ég frá klukkan hálf átta til tvö og seinnihlutann var ég ýmist til þrjú eða hálf fjögur.
Þegar maður situr á rassinum í tvo mánuði án þess að tylla mikið niður fæti verður maður allur máttlaus í fótunum og öllum skrokknum reyndar líka.
************
Ég talaði í síðasta sinn við DrSveitalækni á fimmtudag, hann útskrifaði mig í hvelli og óskaði mér góðs gengis. Ég þakkaði honum fyrir og óskaði honum góðrar ferðar í fríið svo lagði ég símann á og fór að hugsa. Ég er iðnaðarmaður og þarf stundum að laga hluti sem brotna eða skipta þeim út fyrir nýja ef ekki er hægt að laga brotna hlutinn, af þessum sökum ætla ég ekki að fagna nokkurn skapaðan hlut fyrr en einhverntíman í haust þegar ég sé að ég verð orðinn eins góður og áður í hnénu. Það er nefnilega þannig að það brotnaði sneið úr hnéliðnum og pressaðist niður eftir leggnum um þrjá millimetra, ekkert var gert til að laga brotið heldur á bara að bíða og sjá hvort ég verð ekki þokkalegur í löppinni með tímanum, þokkalegur er ekki í boði í þessu tilfelli því ég ætla að verða fullkominn í löppinni. Mér finnst svolítið skrýtið að það sé ekkert gert í svona broti því þetta er jú liðurinn sem var brotinn og brotið skríður ekki á sinn stað af sjálfu sér heldur er það þremur millimetrum fyrir neðan restina af liðnum og verður þar enn um sinn meðan ekkert er gert við það, ryendar er þetta nú þegar gróið svona skemmtilega vitlaust saman, samt sem áður á ekki að gera neitt nema ég komi haltrandi til baka og krefjist að fá viðgerð.
Skrýtið?
*********
Í vor var gert mikið grín að mér fyrir að ég var farinn að borða ávexti í öll mál og farinn að labba nokkrum sinnum í viku klukkutíma í senn. Bæði ávaxtaátið og labbið enduðu jafn skyndilega og það byrjaði með einum stórum smell og sírenuvæli.
Nú er önnur della tekin við af þeirri fyrri ég nefnilega er búinn að grípa eina og eina bók ofan úr hillu og lesa í ró og næði hingað og þangað um íbúðina. þetta byrjaði með da vincy lyklinum upp úr áramótum og nú er svo komið að ég átti leið um bókabúð um daginn og keypti mér eina bók, það var bókin svartir englar eftir Ævar Örn Jósepsson. Bókin er í einu orði sagt frábær.
***********
Í nótt keypti ég mér bílskúr á planinu fyrir utan blokkina þetta var svona designer bílskúr með dýnulausu rúmi og Ikea fataskáp með halogenljósum ofan við dyrnar. Ég held að einhver hafi sagt mér að skúrinn væri stærri en íbúðin en mér var alveg sama því þetta var bílskúr og mig er búið að vanta svoleiðis lengi. Ég var samt ekki alveg viss um að ég kæmi jeppanum inn í skúrinn því stofan í honum var svo stór að hún tók pláss af þeim stað sem bíllinn átti að standa á. Ég skal viðurkenna að ég þyrfti að fara að gera eitthvað í því að finna íbúð (hús)með bílskúr því það er hálf glatað að vera alltaf upp á aðra kominn með aðstöðu ef maður ætlar að gera eitthvað við skrjóðinn.
<< Home