laugardagur, júlí 03, 2004

Ágætis dagur

Tímatökurnar í formúlunni fóru vel í morgun þýski nasistinn var í öðru sæti en minn maður í því fyrsta. Þegar tímatökunum lauk skrapp ég út í bókabúð til að kaupa birgðir af afmælis og innflutningskortum ásamt einni gjafapappírsrúllu. Því næst voru skæri hafin á loft og pappírinn klipptur í hæfilegar einingar til að passa utan um flíkur á litlu dömuna sem á afmæli í dag. Það var svo sem ekki við því að búast að hún kynni að rífa pappírinn utan af gjöfunum en með hjálp frá foreldrunum sem reyndu þó að kenna handbragðið í leiðinni komu flíkurnar í ljós.
Þegar heimsókninni lauk fórum við heim og ég kláraði að lesa eina bók sem ég er búinn að vera að stafa mig gegnum undanfarin kvöld. Þetta var nokkurskonar æfisaga Þráins Bertelssonar þess hins sama og gerði hina stórskemmtilegu kvikmynd um Magnús, mér fannst bókin skemmtilega skrifuð og höfundurinn hreinn snillingur með pennann.

**********

Nú er mig farið að langa aftur í veiði eða bara eitthvað út úr bænum. Fyrst þyrfti maður samt að gera við jeppann sem er með grænan miða bæði að framan og aftan. Mig langar að fara og sofa í tjaldi við hliðina á vatni sem má veiða í allan sólarhringinn, það er nefnilega fátt sem mér finnst æðislegra en að veiða að nóttu til því þá er enginn á ferli og flugan heldur sig jafnvel annarsstaðar en í eyrunum á manni eða nefinu.

*********