fimmtudagur, júlí 01, 2004

Sagan endalausa

þá er það búið ég talaði við DrSveitalækni áðan. Hann skipaði mér að fara í röntgen í dag eða á morgun. Ég hringdi svo og pantaði mér myndatöku seinnipartinn í dag. Assgotans munur er það þegar maður getur hringt og pantað tíma og fengið hann samdægurs.

**********

Í gær fór ég til tannsa fyrir hádegi og að vinna eftir hádegi, það er skemmst frá því að segja að ég hélt ég ætlaði ekki að drífa upp stigann hér heima, það hefði verið laglegur andskoti ef það hefði komið frétt um að maður hefði orðið úti á bílastæðinu fyrir utan húsið sitt um hásumar. Þá hefði komið maður í sjónvarpið til að segja fólki frá öllum þeim mistökum sem ég hefði gert í útbúnaði og háttsemi.
Það er nefnilega svo skrýtið að þegar eitthvað útlendingsgrey afrekar að drepa sig hérlendis á einhvern hátt þá koma mjög ítarlegar útlistingar á því hvernig manngarmurinn dó í öllum fjölmiðlum, aftur á móti ef íslendingur gerir öll sömu mistök og jafnvel nokkur fleiri þá er ekki minnst á það í fjölmiðlum, þá dugar að segja gróflega frá slysinu og svo er það gleymt. Þegar flugslys verða koma ítarlegar fréttir af öllum þeim mistökum sem flugmaðurinn gerir í aðdaganda slyssins, þetta tel ég vera til að aðrir geti lært af mistökunum. Aftur á móti ef það verður bílslys þá er lauslega sagt frá því og nöfn hinna látnu birt nokkru síðar. Það virðist ekki mega segja frá mistökunum sem bílstjórinn gerir af virðingu við aðstandendur. Væri ekki nær að segja frá öllu þannig að menn gætu forðast að gera slíkt hið sama.

************

Um helgina förum við í afmæli til dönsku prinsessunar því hún heldur hátíðlega upp á fyrsta afmælisdaginn sinn þann þriðja júlí. Við heimsóttum hana aðeins í gærkvöld því við þurftum að koma einu leiktæki sem hún fékk að láni hjá foreldrum Meinvills. Sú stutta var frekar afundin þegar við komum, hún hafði svo ekki var um að villast vatnað músum í svolitla stund, ömmu sinni til lítillar gleði. Svo tók hún nú gleði sína og kom oft til mín og rétti mér snuðið og sagði "mamm" sem gefur ótvírætt til kynna að ég á að koma með henni að búrskápnum og afhenda hennu rúsínur.