laugardagur, júlí 03, 2004

Trallala

Til hamingju með afmælið danska prinsessa. Lengi lifi hugra hugra hugra, þetta er þrefalt húrra á dönsku fyrir þá sem ekki áttuðu sig við lesturinn.



Gærkvöldið fór í bílaviðgerð og lestur. Við Meinvill fórum upp á verkstæði og skelltum sportbílnum á lyftu til að geta gert við gírana í honum. Það var ekki vandalust að finna hvað var að þannig að ég og bifvélavirkinn stóðum og góndum ofan í húddið á bílnum meðan Meinvill hrærði í gírunum. Eftir mikla yfirlegu og spögglerasjónir var ákveðið að þetta væri vonlaust mál að eiga við og bílnum var slakað á gólfið. Upphófust nú miklar umræður um allt og ekkert, þá allt í einu stakk bifvélavirkinn upp á að við prófuðum að rífa gúmíið frá gírstönginni og skoða ofan í gatið. Það stóð heima eitthvað plaststykki var þar til tafala þannig að við rifum það bara úr og bíllinn er víst orðinn eins og nýr á eftir, þ.e. það er hægt að setja hann í fyrsta gír sem og alla hina.

Car 2

Fyrir nokkrum árum fóru foreldrar Skakklappa í miðborgina til að kaupa sér bíl, fyrir valinu varð vínrauður fólksbíll glænýr með nýjubílalykt(sem er lykt af ryðvörn) og öllu tilheyrandi. Þetta var sannkallaður kaggi með álfelgum og vindskeið en þó ekki geislaspilara. Ég verð að viðurenna að mér fannst þetta assgoti flottur bíll þó ég skildi ekki alveg afhverju þau keyptu sér ekki frekar jeppa. Bíllinn stóð fyrir utan æskustöðvar mínar glansandi hreinn og það stirndi á sanseringuna í lakkinu á honum.
Pabbi kom stoltur til mín og rétti mér lyklana að bílnum og spurði hvort ég vildi ekki taka í, ég hélt það nú enda hafði ég þá aldrei áður keyrt bíl sem var svona nýr. Ég settist inn í bílinn og andaði að mér ryðvörninni, setti lykilinn í svissinn steig á kúplinguna og setti í gang svo tók ég um gírstöngina og byrjaði að reyna að troða honum í fyrsta gír, það gekk illa en ég hélt ég væri bara hálfgerður klaufi þannig að ég hélt áfram að brasa þetta en illa gekk, maður lifandi hvað ég var að verða pirraður á þessu.
Einhvernvegin kom ég þó bílnum af stað og tók einhvern rúnt en var aldrei alveg sáttur við gírskiptinguna. Hinir voru sammála mér með þetta og það endaði með að bílnum var ekið í umboðið aftur svo laga mætti þennan galla. Bifvélavirkjarnir sögðu að þetta væri einhver öryggisfaktor svo fólk skipti ekki í fyrsta gír á svífandi siglingu.

Mér fannst það hálf kjánaleg skýring en þeir hlutu að hafa rétt fyrir sér blessaðir kallarnir sem höfðu menntað sig til að vera skíugir upp fyrir haus alla daga ársins.
Þegar bíllinn kom af verkstæðinu var allt annað að koma honum í fyrsta gír og fólk tók gleði sína á ný, þar til farið var á bílnum í reisu út á land og það átti að fara að þrykkja dollunni í fimmta gír; þá vandaðist nú málið heldur því verkstæðis kallarnir höfðu bara haft endaskipti á vandamálinu.
Það er skemmst frá því að segja að einn laugardagsmorgun ýtti pabbi við mér og sagði að ég þyrfti að koma með honum á rúntinn því hann væri að spá í að kaupa sér fjallabíl, Við fórum á eina bílasölu og skoðuðum einn bíl og tveimur dögum síðar var glansandi sportbíllinn horfinn og í staðinn kominn hinn vígalegasti fjallatrukkur á tuttugu og níu tommu dekkjum.



Low Rider