sunnudagur, júlí 04, 2004

Eitt núll

Ef maður þorir ekki að tapa þá tekur maður ekki þátt í keppninni. Ef maður er rosalega hræddur um að tapa þá hlustar maður ekki einusinni á úrslitin. Ef maður er skelfingu lostinn yfir þeim möguleika að maður geti tapað þá leggur maður keppnina niður semur nýjar reglur og reynir að sannfæra þáttakendur í keppninni um að nýju reglurnar séu betri en þær gömlu og svo reynir maður að vinna án keppni.

Þetta er það sem mér datt í hug þegar ég sá Dabba Druslu í svartholinu í kvöld þar sem hann tilkynnti að það yrði engin keppni í ágúst því hann ætlaði að semja nýjar reglur sem væru nógu sanngjarnar til að hann gæti unnið keppnina.
Ég er alveg brjálaður yfir að fá ekki að keppa því mig langaði svo sannarlega að mæta á kjörstað(keppnissvæðið) og segja nei takk við fjölmiðlalögunum. Það hefði verið ansi sætt að sjá vitringana 12 (ráðherrana) segja fólki að það hefði völdin og lögin hefðu verið felld þrátt fyrir gaddavírsgirðingar sem reistar hefðu verið kringum lögleysuna.

**************

Við fórum í afmælisveislu í dag, borðið svignaði undan glæsilegum kræsingum sem danska mágkonan hafði lagt sig fram við að bera á borð fyrir gestina. Við stoppuðum einn og hálfan til tvo tíma eða nógu lengi til að borða okkur södd og tapa stólunum sem við vorum búin að hita samviskusamlega.
Á morgun förum við svo í annað afmæli því þá á mamma Skakklappa afmæli. Okkur verður boðið upp á Humarsúpu og væntanlega snittubrauð ef ég þekki kokkinn rétt.

**********
Á morgun ætla ég að lengja vinnudaginn upp í 6 eða 7 tíma, það verður nokkuð fróðlegt að vita hvernig löppin bregst við því. Svo fer ég að þurfa að nefna sumarfrí við verkstjórann því ég á allt svoleiðis inni þrátt fyrir að hafa setið heima í vellystingum síðastliðana tvo mánuði. Ég er að spá í að reyna að fá frí fyrstu vikuna í ágúst og jafnvel þeirri síðustu í júlí líka. Það eru náttúrulega uppi mikil áform um veiðiskap þá og eins gott að vera búinn að æfa sveifluna vel.