þriðjudagur, júlí 06, 2004

Vinna vinna vinna

Þá er ég að koma mér á fullt í vinnu, í síðustu viku var ég bara hálfan daginn en núna er ég farinn að harka af mér næstum allan daginn. Það er ekki fyndið hvað maður er þreyttur eftir þessa smá vinnu sem maður ætti samkvæmt öllu að vera eldhress eftir.

********

Mig langar að fara að veiða, jafnvel þó ég sé ekki búinn með allan fiskinn sem ég veiddi í síðasta túr. Mig langar líka að fara út á land og upplifa náttúruna og mig langar að kíkja í kaffi í bakaríið fyrir vestan. Mig langar að fara til útlanda og mig langar líka að vera heima þannig að ég hlýt að vera eirðarlaus þessa dagana.

*********

Í gær fórum við í afmæli til mömmu. Hún bauð upp á humarsúpu sem var alveg geðveik, litla frænka var samt ekki hrifin af súpunni en þeimmun hrifnari af óífum og ísnum sem var í eftirrétt. Gestirnir buðu aftur á móti upp á pakka í marglitum pappír.

********

Ég þarf að fara að viða að mér efni í viðgerðina á bílnum, ég þarf að fara á hvolf ofan í járnagáminn í vinnunni og sjá hvort ég finn ekki einhverja afganga sem ég get fúskað í grindina á honum svo að gormarnir detti ekki úr honum á ferð. Ég þarf líka að finna mér sparsl og lakk og svo get ég byrjað á herlegheitunum.