þriðjudagur, júlí 27, 2004

Hugmyndaleysi

Ég er bæði búinn að vera latur og hugmyndasnauður síðustu daga þannig að ég hef ekki nennt að skrifa neitt þegar ég kem heim úr vinnunni.

************

Um helgina komumst við Orkuveitustarfsmaðurinn inn á Landamannaafrétt í veiði. Við lögðum af stað úr Hafnarfirði stundvíslega klukkan átta. Fyrsta hindrun leiðarinnar inn á hálendið varð á vegi okkar í Garðabæ, þar var verið að malbika veginn og að sjálfsögðu var lokunarskiltið bara skrúfað aftan á malbikunarvélina þannig að það var ekki möguleiki að vara sig á framkvæmdunum fyrr en maður var búinn að taka fram úr þremur völturum og sveigja hjá nokkrum appelsínugulum keilum. Við þurftum því að fara upp fyrir bæinn fyrr en við ætluðum þ.e. við fórum upp með Vífilsstaðavatni sem var alveg spegilslétt þennan morgun.
Fyrsti viðkomustaður var í sjoppunni við Landvegamótin, þar var keypt bensín á farartækið og rétt aðeins úr löppunum.
Næsta stopp var í námunda við galtarlæk þar sem við stoppuðum til að losna við rútu sem jós upp miklu ryki á veginum. Þegar rútan var komin hæfilega langt í burtu var haldið af stað aftur og brunað upp að gatnamótum inn á Dómadal, þar skildum við nokkur pund af lofti eftir. Næst síðasta stopp áður en veiðiskapurinn gat byrjað var í Landmannahelli þar sem veiðileyfi eru seld.

Við byrjuðum á að kasta út í Löðmundarvatn klukkan ellefu en fengum lítið og litla fiska þá var stefnan sett á Blautaver en það var svo litað af jökulleir að við stoppuðum stutt við og héldum í Frostastaðavatn, veiðin í því vatni var ágæt og við dvöldum þar það sem eftir lifði dags. Við lögðum af stað í bæinn klukkan ellefu og vorum komnir heim klukkan tvö um nóttina.