miðvikudagur, júlí 21, 2004

Sumar sumar

Ég er búinn að panta mér frí sitthvorumegin við verslunarmannahelgina. Ég veit ekki hvað ég ætla að gera við fríið því ég á ekki nothæfan jeppa eins og er þannig að fátt verður um fína drætti í þeim efnum. Ég held að aðrir jeppaeigendur haldi að þeir séu komnir á séns þegar ég mæti þeim því ég mæni svo stíft á bílana þeirra.
 
***********
 
Ég er með hálf leiðinlegt verkefni í vinnunni þessa dagana, ég er að smíða eitthvað prívat dót fyrir forstjóra ríkisstofnunar og er alveg viss um að ég þurfi að borga dótið sjálfur að nokkru leiti, svona er maður nú illa þenkjandi. Annars kom þessi ríkisforstjóri í dag og kíkti á draslið sem ég er með á borðinu og hrósaði því í hástert við verkstjórann.
Ég var alveg viss um að ef maður ætlaði að verða forstjóri ríkisstofnunar þyrfti maður að vera hávaxinn og grimmilegur í framan en svo er ekki með þennan kall því hann er lítill feitur og ekki grimmilegur þó hann stjórni sápuhernum.
 
*******
 
Bauni bró kom áðan í heimsókn til mín því hann er á leið í útlegð til herraþjóðarinnar, ég á ekki von á að fá hann í heimsókn fyrr en eftir páskana því hann er að spá í að halda heilög jól í útlandinu með litlu fjölskyldunni sinni.
Hann fer með strætisvagni háloftanna á fimmtudaginn.
 
********
 
Sænski nýbúinn kemur í heimsókn til okkar á morgun því það er síðasti séns áður en hann flýgur aftur út til hormottuberandi samlanda sinna. Ég er búinn að hitta hann einusinni í þessari stuttu heimsókn hans til foreldra sinna. Það er hálf kjánalegt að hafa búið með systur hans í á fjórða ár og ég hef hitt hann þrisvar sinnum, tvisvar áður en hann flutti út og einusinni nú síðustu fjögur ár. Ég hef hitt skurðlækninn konuna hans heldur oftar því hún er með eitthvað meiri heimþrá en hann.