fimmtudagur, júlí 29, 2004

Almennilegaheita fólk

Það er sagt að maður myndi sér skoðun á fólki á innan við tuttugu sekúndum þegar maður hittir það í fyrsta sinn en svo getur maður verið svakalega lengi að breyta skoðun sinni aftur þegar maður kynnist fólki betur.
Þetta henti mig nú í síðustu viku þegar ég hitti mann sem kemur oft fram í fjölmiðlum til að útskýra eitt og annað sem snýr að þeirri ríkisstofnun sem hann stýrir af myndarbrag þrátt fyrir að yfirmaður hans skaffi fáar krónur til rekstrarins. Ég hef alltaf haldið að hann væri þurr á manninn, frekur og hálfgerður tuddi. Í gær þurrkaði þessi maður gömlu myndina af sér úr huga mínum.
Klukkan þrú í gær kom verkstjórinn til mín og sagði mér að ég væri á leið út úr bænum, ekki langt bara upp í Kjós. Ég byrjaði á að blóta í hljóði en lét eins og þetta væri tækifæri lífs míns. Við komumst af stað út úr bænum klukkan fjögur og vorum mættir í kjósina um fimmleytið, veðrið var í sínu besta skapi í og ég smitaðist af því eftir stutta veru niðri við Meðalfellsvatn.
Við lögðum hart að okkur til að koma bryggju út í vatn fyrir ríkisforstjórann, vinnufélagi minn lagði þó harðar að sér en við hinir því á tímabili stóðu bara gleraugun hans og nefið upp úr vatninu, ég lét mér duga að fá einn eða tvo lítra af Meðalfellsvatni ofan í vöðlurnar sem ég var í.
Meðan við vorum að vinna bar forstjórinn í okkur kaffi sem var örugglega framleitt í tsjernóbil því ég er viss um að það var geislavirkt, í það minnsta var það svo sterkt að ég hélt að maginn myndi detta úr mér þegar ég hafði komið herlegheitunum niður.

Þegar bryggjuuppsetningunni lauk kom forstjórinn skokkandi yfir flötina við sumarbústaðinn sinn og kallaði á okkur í mat, á dauða mínum átti ég nú von en ekki að ég kæmi saddur heim úr vinnunni. Á borðum var lambalæri, kartöflur, grænmeti og fleira góðgæti og mikið úrval áfengra og óáfengra drykkja.
Ég kom heim úr vinnunni klukkan tíu alveg dauðuppgefinn en saddur og með alveg glænýja sýn á manninn sem stórnar þeirri stofnun sem kemst næst því að vera Íslenskur her.

 
'Boating