mánudagur, mars 31, 2008

Ég gafst upp á skattaskýrslunni áðan. Fyrst sannfærði ég sjálfan mig um að þetta væri orðið ágætt í bili og ég kæmist ekki lengra án Önnu og svo var ég orðinn svo þyrstur að ég neyddist til að fara niður og ná mér í bjór, en eins og allir vita getur maður ekki gert skattaskýrslu eftir að hafa fengið sér bjór þannig að ég geri þetta bara á morgun.

***

Síminn á borðinu hringdi fyrir einni mínútu ég svaraði og þar var einhver stúlkukind sem sagði "gott kvöld Haukur er hún Anna nokkuð við" takið eftir hún nefndi mitt nafn fyrst. Nei sagði ég og lagði á. 7 sekúdum seinna hringdi gsm síminn minn niðri í gangi þar sem hann var flæktur í jakkavasanum. Ég stökk niður og leit á símann, þar var sama númer og hafði verið hringt úr augnabliki áður. Þar var sama stúlkukindin og í hinum símanum nema nú spurði hún eftir mér og bauð mér áskrift að DV. Ég skil ekki afhverju í dauðanum hún gat ekki spurt mig í gegnum hinn símann þar sem hún var með nafnið mitt uppi á skjánum þegar hún hringdi.

Jæja hvað veit ég, ég er ekki símasölumaður.

***

Ég er kominn í megrun, nú borða ég hollenska sósu með matnum í staðinn fyrir bernaisse. Um daginn var ég kominn upp um þyngdarflokk í júdóinu sem ég hætti í fyrir 20 árum. Ég mátti nú ekki við því þannig að ég reyni nú að fara út að hjóla þegar snjóalög leyfa. Ég pumpaði aðeins meira í dekkin en í fyrra og herti upp á framdemparanum svo stýrið halli ekki of mikið fram.

Það eru bara tveir kostir við að vera svona þungur nr1. meiri skriðþungi niður brekku á hjólinu nr2. maður þarf minna vatn í baðið

miðvikudagur, mars 12, 2008

Fyrst maður er kominn í tuðgírinn þá er ekki úr vegi að halda aðeins áfram.

Þegar við bjuggum á Sléttahrauni versluðum við oft í Nóatúni enda er sú búð nánast við endann á götunni. Ég reyndi þó að beina viðskiptunum annað eftir framsta megni af tveimur ástæðum. Ef ég þurfti að kaupa fleiri hluti en ég gat borið án þess að nota innkaupakörfu þá fór ég annað því körfurnar hjá þeim eru svo drullugar að mér dytti ekki einusinni í hug að setja sápubrúsa ofan í þær.

Í gær vantaði mig hreinsiefni til að hreinsa uppþvottavélina okkar. Hún var nefnilega orðin þannig að fyrst þvoði maður í henni og tíndi svo allt út og þvoði í vaskinum. Ég brunaði því í Krónuna við Hvaleyrarbraut því hún er opin til níu. Þegar ég kom þar inn fékk ég á tilfinninguna að þessari búð hefði verið lokað fyrir einhverju síðan en gleymst að læsa henni því gólfið var skítugt, hillumerkingar á hvolfi(ef þær voru þá til staðar) og innréttingarnar allar eins og þær ættu bara eftir að detta í gólfið, fyrir utan að þær voru meira og minna hálf tómar.

Ég greip það sem mig vantaði og eitt eða tvennt sem mig vantaði ekki(nammi) og fór svo í röðina við kassann. Röðin silaðist hægt áfram enda bara tveir af þremur kössum opnir, tvær stelpur merktar versluninni hengsluðust um rétt hjá kössunum og töluðu hátt um að einhver strákur væri á lausu. Fullorðinn kall sem stóð fyrir aftan mig spurði hvort þær gætu ekki opnað þriðja kassann svo þetta gengi hraðar en þá hvæsti önnur stelpan á hann að þær væru að gera annað.

Þegar ég kom svo að kassanum varð mér litið á innkaupakörfurnar og sá þá að þær eru jafn skítugar þarna og í systurverslunum Krónunnar, þ.e Nóatúni.

Nú ætla ég ekki að fullyrða um að þetta sé eitthvað fullkomið hjá keppinautunum, en ég get þó sagt að Samkaup og Fjarðarkaup bjóða upp á stálkörfur en Bónus virðist annaðhvort eiga þvottavél eða þá hefur starfsfólkið metnað til að halda körfunum hreinum því ég hef ekki tekið eftir svona sóðaskap hjá þeim.

Við fórum í leikfimi í dag. Tíminn á mánudag féll niður vegna veikinda þjálfarans en í sárabætur var okkur boðið að mæta í dag í staðinn. Hópurinn sem við vorum í í dag var frábrugðinn mánudagshópnum að því leiti að það voru bara þrír dökkir kollar mættir, á mánudögum eru kollarnir 6 til 7 eftir hversu góð mætingin er. Það var reyndar ein sjónvarpsstjarna með okkur í dag, sú er líka gift eða í sambúð með einum að stórforstjórum þessa skers.

Ég komst reyndar að því í þessum tíma að ég er að verða gamall og ekki nóg með það heldur er ég að verða kurteis og tillitssamur við náungann með aldrinum. Þannig var nefnilega að ég leyfi unganum alltaf að labba sjálfri upp stigann sem liggur upp í salinn. Þegar við komum á næst efsta pallinn stendur þar kona sem gæti hafa verið á aldrinum 22-36 ára, ég er ekki klár á aldrinum því hún var vel í holdum(lesist: spik óhemju feit), hún stóð sem sagt þarna og hvíldi sig á niðurleiðinni eftir að hafa kjagað niður 5 tröppur. Þegar við nálguðumst hana byrjaði hún að flissa og benti á ungann sem æddi upp stigann og sagði "Rosalega er þetta stór úlpa sem hún er í". Ég sagði aldrei þessu vant bara jájá og hélt áfram. Andskotann varðar einhverja stelpuhlussu um það hvernig ég klæði barnið mitt.

Þegar ég kom svo upp fór ég að hugsa hvur skrambinn væri að mér núna fyrst ég notaði ekki tækifærið eins og vanalega og hreytti einhverjum ónotum í hana. Næg voru nú tækifærin, hún var nebbnilega eins og svo margar konur í hennar þyngdarflokki í úlpu sem hefði dugað þýska listamanninum sem pakkar byggingum inn, til að pakka sæmilega stórum leikskóla inn, þannig að ég sé ekki hvað hún var að tala um stóra úlpu.

Okkur gekk annars vel í sportinu og æfðum klifur og jafnvægislist af svo miklu kappi að það þurfti að þurrka hausinn á unganum áður en við héldum út í þrálatann veturinn.

föstudagur, mars 07, 2008

Ég vaknaði í morgun með bros á vör og dreif ungann niður í morgunmat. Þegar hún var kominn með matinn sinn, gekk ég að útvarpinu til að ná tíðindum dagsins. Þegar ég var búinn að kveikja á því leit ég út um gluggann til að kanna hvort það væri eitthvað snjóþotufæri. Það sem blasti við mér var vissulega snjór en líka hundur nágrannans að míga utan í framdekkið á bílnum mínum. Ég sá að það kom eitthvað fát á stelpuna sem á hann því hún öskraði á hundinn að drífa sig inn. Ég var ekki nóg snöggur að stökkva út og hreyta ónotum í hana.

Þá kemur að því. Afhverju er hundhelvítið ekki í bandi þannig að það sé einfaldlega hægt að stjórna hvar hann mígur eða bara að þjálfa hann upp í að míga á bílana sem þau eiga sjálf?

Ég ætla að hafa sambandi við þau í dag og tilkynna þeim um einhliða samning sem ég ætla að gera við þau, þetta þýðir einfaldlega að annaðhvort gera þau eins og ég vil eða ég hef samband við hundaeftirlitsmann. Samaningurinn gæti hljóðað svona: Samkvæmt samningi þessum heiti ég því að pissa ekki á ykkar bíla og hvorki þið né hundurinn ykkar pissar á mína.

Brot á samningi þessum verða kærð til heilbrigðiseftirlitsins.

Eða eitthvað svoleiðis. Það liggur svaka sekt við því að pissa á almannafæri ef maður er mennskur þ.e ef um hund eða kött er að ræða þá má svoleiðis míga og skíta hvar og hvenær sem er án þess að kvikindið sé krafið um 5000 kall og fær stimpil í kladdann.