miðvikudagur, mars 12, 2008

Við fórum í leikfimi í dag. Tíminn á mánudag féll niður vegna veikinda þjálfarans en í sárabætur var okkur boðið að mæta í dag í staðinn. Hópurinn sem við vorum í í dag var frábrugðinn mánudagshópnum að því leiti að það voru bara þrír dökkir kollar mættir, á mánudögum eru kollarnir 6 til 7 eftir hversu góð mætingin er. Það var reyndar ein sjónvarpsstjarna með okkur í dag, sú er líka gift eða í sambúð með einum að stórforstjórum þessa skers.

Ég komst reyndar að því í þessum tíma að ég er að verða gamall og ekki nóg með það heldur er ég að verða kurteis og tillitssamur við náungann með aldrinum. Þannig var nefnilega að ég leyfi unganum alltaf að labba sjálfri upp stigann sem liggur upp í salinn. Þegar við komum á næst efsta pallinn stendur þar kona sem gæti hafa verið á aldrinum 22-36 ára, ég er ekki klár á aldrinum því hún var vel í holdum(lesist: spik óhemju feit), hún stóð sem sagt þarna og hvíldi sig á niðurleiðinni eftir að hafa kjagað niður 5 tröppur. Þegar við nálguðumst hana byrjaði hún að flissa og benti á ungann sem æddi upp stigann og sagði "Rosalega er þetta stór úlpa sem hún er í". Ég sagði aldrei þessu vant bara jájá og hélt áfram. Andskotann varðar einhverja stelpuhlussu um það hvernig ég klæði barnið mitt.

Þegar ég kom svo upp fór ég að hugsa hvur skrambinn væri að mér núna fyrst ég notaði ekki tækifærið eins og vanalega og hreytti einhverjum ónotum í hana. Næg voru nú tækifærin, hún var nebbnilega eins og svo margar konur í hennar þyngdarflokki í úlpu sem hefði dugað þýska listamanninum sem pakkar byggingum inn, til að pakka sæmilega stórum leikskóla inn, þannig að ég sé ekki hvað hún var að tala um stóra úlpu.

Okkur gekk annars vel í sportinu og æfðum klifur og jafnvægislist af svo miklu kappi að það þurfti að þurrka hausinn á unganum áður en við héldum út í þrálatann veturinn.