fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Þar sem jökullinn á lóðinni hefur hopað er sandkassinn kominn í ljós aftur. Ég skildi ekki afhverju enginn krakki hefur setið í kassanum mánuðum saman þannig að ég ákvað að klæða ungann upp og fara út að moka. Þegar ég var búinn að sitja í tvær mínútur á barminum á kassanum sá ég hvar einhver brún klessa lá í sandinum, ég greip litla skóflu og skaut einni skítaklessu úr kassanum, svo settist ég aftur. Eftir smá stund sá ég aðra klessu, svo ég stóð upp og skaut henn líka út í buskann.

Ég var varla sestur þegar ég sá að allt er morandi í þessu ógeði í kassanum svo ég kippti unganum upp úr og við fórum að róla í staðinn. Þar sem ég er einn af eigendum þessa sandkassa þá ætla ég að fara í krossferð gegn þessum ferfættu skítamaskínum og auglýsi hér með eftir leiðum til að farga þessum ófögnuði. Ég er ekki með byssuleyfi og á ekki byssu, auk þess þætti ekki vel til fundið að skjóta úr byssu á sandkassann þannig að ég verð að finna aðra leið.

Ef einhver kann gott trix til að veiða og farga köttum þá má sá hinn sami láta mig vita og ég mun prófa aðferðina.