mánudagur, janúar 21, 2008

Í hádeginu fórum við Natalía í leikfimi. Henni leist nú ekkert meira en svo á þetta því í fyrsta atriðinu áttum við að sitja á gólfinu og klappa saman lófunum og klappa í gólfið til skiptis og syngja upphafslag tímans. Unginn grúfði sig fyrst saman og sló svo í hendurnar á mér til að ég hætti þessu klappi og gjammi. Næst átti að syngja fingralagið og taka í viðkomandi fingur þar sem við átti í laginu, ég reyndi hvað ég gat að rétta úr samakrepptum og löðursveittum fingrunum og halda lagi en án árangurs. Svona gekk þetta allt þar til kom að tækjaleikfimi þar sem börnin fengu að fara í áhaldaleikfimi, þá varð svo gaman að ég ætlaði aldrei að koma henni út úr salnum þegar flautað var til leiksloka. Það var svipuð barátta að ná unganum út úr salnum og hafði verið að fá hana til að rétta úr fingrunum í fingralaginu, eini munurinn var sá að hún var bara sveitt á höndunum þegar ég reyndi að syngja lagið en var öll rennsveitt og hál þegar ég reyndi að koma henni í útigallann.

Þegar mér hafði tekist að klæða ungann og koma henni í skó var stefnan sett beint á bílinn. Það reyndist ekkert mál að koma Natalíu í bílinn og hún var hin sáttasta að setjast inn en vesenið byrjaði þegar ég ætlaði sjálfur að koma mér inn því ég náði í einhverjum klaufagangi að opna hurðina beint á ennið á mér með þeim afleiðingum að stór sá á því. Eða eins og fegurðardrottningin sem ég vann einusinni með sagði snöktandi eftir að hún fékk rispu í andlitið " ég skemmdi á mér andlitið".

Þegar ég hafði náð að klöngrast í sætið og koma mér þægilega fyrir sá ég í speglinum að kúla á stærð við sleikipinna hafði myndast og skarð á stærð við svöðusár var í enninu. Þegar ég hafði svo náð áttum og fuglarnir voru að mestu hættir að syngja í hausnum fór ég að heyra hljóð úr aftursætinu, þau komu frá Natalíu þar sem hún benti á spegilinn þar sem hún sá pabba sinn með svöðusárið og sagði "úff" og "ÓÓ".

Ég komst heim við illan leik með þerripappír á enninu og ungann stynjandi "úff úff" og bendandi á baksýnisspegilinn úr aftursætinu.