fimmtudagur, janúar 03, 2008

Ég er orðinn heimavinnandi húsfaðir, þetta er djobbið sem mig hefur alltaf dreymt um. Ég er búinn að kaupa mér bláan húsvarðaslopp, gult stanley málband og smiðasvuntu því nú á að taka til hendinni. Ég þarf að breyta vatnslögninni frá þvottavélinni þannig að hún dæli ekki öllu beint í klósettið niðri og svo þarf ég að hengja upp snaga einhversstaðar þar sem Anna vill fá hann (ég tók ekki alveg eftir því hvar hann á að koma en hún hlýtur að minnast á það aftur).

Svo er svona hitt og þetta sem þarf að laga milli þess sem maður skundar út og gefur öndunum og kaupir í matinn.

***

Í dag eru 4 mánuðir síðan ég varð pabbi og Anna varð mamma, alveg magnað að þetta skyldi gerast á sama augnabliki hjá okkur báðum. Natalía Yun dafnar vel og virðist bara hafa það takk fyrir bærilegt hjá okkur þó hún sé ekki alltaf sammála um hvenær eigi að opna munninn og hvenær eigi að loka honum. Hún fellur því bara ágætlega inn í hópinn því pabbi hennar hefur yfirleitt á við sama vandamál að stríða.

***

Við fengum fullt af gestum um áramótin, samtals níu fullorðna gesti og tvo barnagesti. Við elduðum kalkún með fyllingu og allskonar meðlæti sem var ýmist upprunnið í okkar eldhúsi eða gestanna.

Eftir mat, skaup og skál fór ég út og skaut rakettum til hliðar, mínar fóru allar til hægri en nágranni minn hinumegin við götuna skaut sínum til vinstri. Ég ætla ekki að fullyrða hvorum tókst betur upp en allavega náði ég að koma flestu sem eitthvað er varið í í nokkura metra hæð áður en það fauk yfir húsið hjá einhverjum nágrannanum.