fimmtudagur, september 27, 2007

Það er nú eitthvað lítið að gerast á þessari síðu þessa dagana.
Það er helst að frétta héðan að heimætan náði sér í þetta líka svaka kvef með ofboðslegum horfossi sem við erum búin að reyna að þurrka upp með öllum gerðum af þerripappír. Þetta horfir til betri vegar núna eftir því sem tilfinningin segir manni. Svo kom hlaupabóla ofan í kvefið þannig að stuðið á heimilinu hefur verið í hálfgerðu lágmarki.

Ég vann mig út úr sjokkinu með því að leggjast í óþarfa innkaup, fyrst fór ég og keypti þriðja bílinn á heimilið því nú erum við þrjú og svo keypti ég tölvu sem mun leysa 5 ára gömlu borðtölvuna af hólmi.

Tölvuna keypti ég á útsölu á laugardegi en sótti svo allt sem vantaði í hana á sunnudegi í búðina eftir að hafa legið yfir búnaðarlýsingu næturlangt. Verst þótti mér að þurfa að setja gripinn saman sjálfur því ég er ekki mikill rafeindavirki í mér.

Bílinn fékk ég aftur á móti nokkurnvegin í einu lagi ef frá er talið dráttarbeislið sem lá ónotað inni í honum og þá meina ég ónotað það var ekki ein rispa á kúlunni. Ég hugsa að það fái að ligga ónotað inni í honum eitthvað áfram því ég skil ekki hvernig á að festa það á og finnst þetta allt eitthvað hálf ótraustvekjandi, sennilega þótti fyrri eiganda þetta líka eitthvað pjáturslegt og þessvegna ekki notað gripinn og í ofanálag þá á ég ekkert til að hengja í þetta beisli.

Allavega þá er gott að vera kominn á jeppa aftur eftir þriggja ára hlé og ekki verra að hann skuli vera næstum eins stór og sá sem ég átti síðast og 30 hestöflum kraftmeiri. Þar sem fyrri eigandi var gamall kall þá var hann á dekkjum sem bjóða ekki upp á að allur krafturinn sé sendur í einu úr bensíntankinum og út í hjól þannig að ég þarf að reyna að finna eitthvað betra grip á góðu verði. Ef maður stígur of fast á hægri pedalann fer allt í spól og vitleysu þó undirlagið sé þurrt malbik.
Magnað hvað Íslenskir dekkjasalar eru ótölvuvæddir, í það minnsta finn ég eitthvað lítið úrval á netinu.

***

Á mánudag er sælan úti því þá þarf ég að druslast í vinnuna, ég er búinn að vera í fríi síðan seint í ágúst og gæti alveg hugsað mér að vera lengur í fríi. það er þó huggun harmi gegn að það eru bara þrír og hálfur mánuður þangað til ég fer í annarskonar frí sem er ekkert frí heldur puð vinna þar sem maður öslar skaflana með barnavagn og skiptir um beyjur þess á milli og gefur barninu að borða á fyrirfram ákveðnum og rútineruðum tímum.

Assgoti munar miklu að skrifa á lyklaborð í fullri stærð, best að hætta þessu.