miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Sko kallinn. Þið getið reynt að giska á hvar þessi með hvítu lappirnar stendur. Þess ber að geta að ég get ekki skoðað síðuna sjálfur því það er lokað fyrir lestur bloggsíðna hér í alþýðulýðveldinu.

***
Enívei, það var heitt í dag og ég var sveittur en þó ekki sveittastur. Við fórum í Jade verksmiðju í dag en eins og allir vita er Jade steinategund. Í þessari verksmiðju sker fólk út allskonar fígúrur í Jade og selur okkur svo á vægu okurverði. þegar það var frá og við höfðum notað Visakortið smá var haldið á Kínamúrinn, ég skokkaði upp á topp á þeim hluta sem okkur stóð til boða að ganga á(lesist drattaðist milli þess sem ég saug vatnsbrúsann). Bakið á mér var rennandi blautt þegar ég kom niður enda sennilega eitthvað milli 25 og 30 stiga hiti þarna í dag. Ég svitnaði svo mikið að ég stopaði á miðri leið í minjagripabúð og keypti túristaderhúfu á fáránlega háu verði til að svitinn rynni ekki í augun á mér. Þegar við vorum búin að þramma múrinn fórum við í verksmiðju sem selur vasa og annan borðbúnað úr emaleruðum kopar. Það var mikil upplifun að sjá hversu mikil vinna er að smíða einn svona vasa eða disk. Við keyptum hvorugt heldur keyptum við glerkúlur sem eru holar að innan og málðar innanfrá gegnum gat. Við létum skrifa táknið hennar Yun innan í aðra kúluna, þannig að þá er mynd af hundi á kúlunni, því hún er fædd á ári hundsins og svo er táknið hennar líka.

Við fengum að borða á risastórum veitingastað á efri hæð verksmiðjunnar, það var óhemju mikill matur á borðum og svakalega sterkir snafsar 56% til að jafna mallann ef ske kynni að það væri eitthvað ullabjakk í matnum.

***

Núna er Anna á fleygiferð um allt hótel að leita að einverjum sem er með frontpage í tölvunni sinni þannig að hún geti sett inn á aðalsíðu hópsins því í öllum hamaganginum við að pakka gleymdist að athuga hvort þetta forrit væri í fartölvunni.