fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Ef ég drepst ekki úr stressi á morgun þá hlýtur það að gerast hinn daginn. Mér finnst listinn með öllu sem á eftir að gera fyrir brottför endalaus. Ég gaf mér samt tíma til að kíkja aðeins á annan bílinn okkar um daginn en hann hefur staðið á sprungnu dekki mjög lengi fyrir utan húsið og hvorugt okkar nennt að fara út til að skipta um dekk. Þar sem hann stóð svo þá lak allt rafmagn af honum og hann neitaði að fara í gang, neitaði að renna aftur á bak og hann neitaði að hleypa mér í skottið þar sem samlæsingarnar þurfa rafmagn. Þar með þurfti ég að ná í hinn bílinn til að gefa start, því varadekkið var læst niðri í skottinu á þeim rafmagnslausa. Eftir að hafa fengið smá aðstoð frá betri helmingnum datt bíllinn í gang og allir voða glaðir, þangað til ég rak augun í bensínpoll sem hafði myndast undir þeim nýstartaða.

Ég drap á ílnum hið snarasta en ákvað samt að skipta um dekkið þrátt fyrir lekann. Þegar dekkið var komið á var trekkt í gang aftur til að finna lekann og til að sjá hvort viðgerð væri möguleg. En það var sama hvað bílnum var gefið inn og slakað á gjöfinni til skiptis, enginn dropi kom undan honum. Ég drap því á honum og ákvað að hann væri læknaður af lekanum.

Í gærkvöld ætlaði ég svo að fara og þvo bílinn og hlaða geyminn í leiðinni því hann hafði ekki verið í gangi nema 3-4 mínútur þegar bensínlekinn gerði vart við sig. Ég brunaði út með startkaplana og hinn bílinn til að gefa þeim bláa start. Þegar hann var kominn í gang og ég orðinn klár að leggja af stað, gerðist eitthvað óskiljanlegt í húddinu á bílnum sem varð þess valdandi að ég greip um eyrun og stökk inn í bíl til að drepa á. Það hafði nefnilega vaxið í hann þjófavarnakerfi sem við vissum ekki að væri í honum og þó höfum við átt bílinn í 3 ár.

Ég prófaði að setja bílinn aftur í gang og aftur ærðist hverfið. Ég stóð eins og hálfviti og hélt fyrir eyrun meðan bíllinn spangólaði eins og hann væri pyntaður. svo hættu ósköpin þangað til ég prófaði að banka í einhvern kassa með rafmagnsleiðslu inn í þá varð allt galið aftur og ég greip fyrir eyrun. Þegar þarna var komið sögu var ég orðinn frekar pirraður og greip í leisluna sem lá inn í kassann og rykkti í þannig að vírarnir slitnuðu upp úr og dósin þagnaði.