sunnudagur, júlí 01, 2007

Ég er kominn til landsins aftur eftir rúmlega viku vinnutörn í Færeyjum. Þetta var hin kjánalegasta ferð því loftnetið fyrir tölvuna var ekki í bílnum eins og ég átti von á og þessvegna var ég sambandslaus við umheiminn að mestu þangað til við komum heim seinnipart föstudagsins.

Ég tók stóru myndavélina ekki með í þetta sinn en aftur á móti tók ég vídeóvélina og æfði mig aðeins að snúast í hringi með hana.

Ég hef stundum minnst á að það rigni mikið í Færeyjum, það var ekki svo núna og meira að segja hefur svo lítið rignt í júní að allir lækir eru orðnir þurrir. Þar sem áður voru beljandi fossar falla bara einstaka dropar úr mosanum.

Við komumst ekki heim með beinu flugi og þurftum því að fljúga í gegnum Köben. Með beinu flugi tekur klukkutíma og korter að komast milli Vága og Reykjavíkur en sú leið sem við fórum var Vágar-Kastrup og Kastrup- Keflavík. Við lögðum af stað frá Fuglafirði klukkan 9 að staðartíma og ég kom heim klukkan rúmlega 19 á Færeyskum tíma. Þannig að það munar soldið um þennan útúrdúr.

Ég náði að kaupa mér tvö Ljósmyndablöð á Kastrup og er að velta fyrir mér að gerast áskrifandi að allavega öðru þeirra því það eru heilu ljósmyndanámskeiðin í þessum blöðum. Ég náði líka franskri pulsu og hálfum lítra af bjór þarna sem er möst ef maður fer til DK, eða allavega lágmarksskammtur.

Það var ágætt að fljúga með Flugleiðum á kostnað vinnuveitandans því þá varð maður ekki eins skúffaður með þjónustana hjá þeim, sætin, matinn, afþreyinguna og hávaðann í flugfreyunum. Það var svo þröngt að sitja í vélinni að maður fékk tak í axlir við að lesa blöðin og gat bara notað aðra höndina til að smyrja brauðið. Ég nennti ekki að reyna við svínið sem var borið fram á majones hrúgu, ég sá að þeir sem sátu í kringum mig áttu í mesta basli með að vinna á því.

Tollararnir gerðu sig svo breiða þegar þeir sáu okkur koma með töskuvagn sneisafullan af drasli og meðal annars stóran pappakassa. Ég sá uppréttann lófa tollarans sem spurði ákveðinn hvað væri í kassanum. Ég brosti út að eyrum og sagði honum að það væru vinnuföt í honum og hálfpartinn vonaðist til að hann tæki hnífinn sinn og risti kassann upp því lyktin upp úr honum var verulega vond þegar ég lokaði honum fyrir brottför. Það var bland af lýsis- og mjöllykt sem hefði tekið á móti honum og svo bara hjálmar og vinnuskór og ekkert spennandi. Hann setti lófann niður hið snarasta og það slaknaði á honum þar sem hann sagði að við mættum fara hann ætlaði sko ekki að lenda í þessu aftur, hann hefði einhverntíman opnað vinnufatakassa og líkaði ekki lyktin.