Nú er komið hálft ár síðan við vorum í Kína. Mér finnst eins og það hafi verið í gær eða fyrradag.
Um helgina fylltumst við áhyggjum yfir því að barnunginn vildi ekki segja til nafns en eins og flestir vita getur verið glæpsamlegt að gera það ekki við ákveðnar kringumstæður. Við vorum búin að reyna allar útgáfur af báðum nöfnunum bæði hægt og hratt, með kínverskum framburði og íslenskum en ekkert gekk. Hún taldi öll möguleg nöfn upp en þegar kom að hennar eigin, sneri hún sér við og fór að raða skónum sínum eða sótti eitthvað dót og sýndi manni eins og það væri löngu týndur fjársjóður.
Ég spurði flesta sem ég þekki sem eiga börn á líkum aldri hvort þeirra börn væru byrjuð að reyna að klæmast á sínu nafni. Svörin voru jafn misjöfn og þau voru mörg, þannig að mér var nokkuð létt. Ég hélt að við hefðum kannski valið rangt nafn og barnið hefði hreinlega hafnað því.
Svo kom það á þriðjudaginn þegar hún var í baði. Hún benti á sjampóbrúsana og sagði: Mamma á, pabbi á og Beitla á. Fyrst tók ég ekki eftir neinu en svo endurtók hún röðina, mamma, pabbi og Beitla. Ég stökk á fætur og smsaði á mömmuna að nafnið væri komið, mamman kom skrensandi heim úr vinnunni og náði varla beygjunni inn á bað. Ég ætlaði aldeilis að leyfa henni að heyra nafnið og benti á sjampóið og byrjaði "mamma á" og reyndi að fá barnið til að botna fyrir mig. Hún horfði á mig og byrjaði"mamma á, pabbi á og áá....." ekki kom það eftir pöntun.
Í gær kom svo nafnið oft og mörgumsinnum þegar við vorum að drekka síðdegissopann og þá fékk mamman að heyra líka.
<< Home