þriðjudagur, febrúar 26, 2008

Ég vaknaði óþægilega snemma við að ég fékk hælspark í augað. Unginn hefur þann leiða vana á nóttunni að vilja sofa á milli okkar. Rúmið er alveg nógu breitt til að bera okkur öll,,,,, þ.e ef allir sofa í sömu stefnu, unginn er ekki búinn að fatta það og er eins á nóttunni og daginn, semsagt þversum.
Þetta kostar það að oft á tíðum tapar maður koddanum sínum annaðhvort undir lappir sem sparka stöðugt alla nóttina eða hreinlega að hún kemur og ýtir geðvonskulega á hausinn á manni og reynir óvinveitta yfirtöku á koddanum. Ef maður gefur sig ekki og ætlar að halda koddanum þá fer hún út í þvingunaraðgerðir og leggst ofan á hausinn á manni og reynir þannig að fæla mann af koddanum.

Þessi yfirgangur þýðir oftar en ekki að ég vakna hálfur í barnarúmi með pínulítinn og allt of lítinn kodda og að drepast í bakinu sökum stífleikamunar á dýnunum í barnarúminu og mínu rúmi.

Oft er það þannig að unginn leggst á koddann hjá mömmu sinni og notar þá minn kodda sem fóthvílu. Til þess að komast þangað þarf hún að klofa yfir mig, (eins og það sé hindrun) það gerir hún með því að stilla sér upp með bakið í vegginn og tekur svo þrjú skref áður en hún sveiflar löppinni upp í loft og klofar yfir mig. Þetta væri kannski í lagi ef hún væri nógu kloflöng til að gera þetta án þess að hlunkast á mig og leka svo niður hinumegin.

Ég er mikið að spá í að fara niður í geymslu og finna rimlana í rúmið hennar og girða hana af í rúminu.