mánudagur, október 25, 2004

Leti

Ég nennti ekki að skrifa neitt um helgina og er að fara út aftur eftir tvo tíma, ég setti myndir frá Færeyjum inn í staðinn. Linkurinn á þær er hér við hliðina. það eru engar skýringar með myndunum því ég má ekki vera að þessu.

sunnudagur, október 10, 2004

Mikill matur

Færeyingar hafa voðalega svipaðar matarvenjur og við hinumegin við pollinn. Þeir fara ekki á veitingastað til að kaupa sér fisk, þeir taka nokkurs konar slátur og borða lappir og svið, hakka garnir og gera hamsatólg sem þeir borða út á siginn fisk sem þeir kalla rastaðan fisk.

Kokkurinn okkar heitir Palli og er lítill feitur kall sem er með beyglaðan munn og talar út um munnvikið, hann er mikill áhugamaður um fótbolta og ber staðurinn hans þess merki. Kallinn kvaddi okkur fyrir rúmri viku og kynnti okkur fyrir afleysinga kokkunum, það er tveir fyllibyttulegir kallar. Fyrir réttri viku þegar við vorum ný farnir út af veitingastaðnum tók annar kokkurinn sig til og kveikti á loftræstikerfi staðarins meðan hann flamberaði steik. Þegar búið var að slökkva eldinn komu kokkarnir niður í bræðslu, báðir búnir að skvetta aðeins í sig eftir hasarinn, þeir voru ægilega aumir og sögðu okkur að við þyrftum að fara eitthvað annað til að borða því það væri allt í sóti og vatni á staðnum okkar. Við keyrðum yfir til Runavíkur og enduðum á einhverjum pizzastað sem selur hamborgara og kokteilsósu frá E.Finnsson. Í hádeginu daginn eftir vorum við sendir aftur til Runavíkur en þá í mötuneyti einhvers fyrirtækis sem var mjög ervitt að finna þar fengum við kjötbollur.

Seinna um daginn kom tæknifræðingur bræðslunnar til okkar og sagði að það væri fjöskylda í Fuglafirði sem hafði samþykkt að taka okkur í fóstur þar til búið væri að laga eldhúsið á veitingastaðnum.

Hjónin sem tóku okkur að sér eru milli sextugs og sjötugs og komu frá Danmörku klukkutíma áður en við mættum í mat til þeirra. Við komumst að því að færeyingar hafa ekki tekið frönsku línuna upp í eldhúsum sínum því skammtastærðirnar hjá þeim eru SVAKALEGAR, þeim þykir ekkert bogið við að bera 5 Kg svikinn héra + allt meðlætið á borð fyrir fjóra kalla og þykir bara hálf undarlegt að menn skuli skilja eitthvað eftir af 8 kg af mat sem borinn er á borð.

**************

Í gær fórum við í mat til mömmu og pabba, við fengum íslenska kjötsúpu, ég skaffaði eftirréttinn, grillað ávaxta kebab með hunangssósu.

************

Á morgun fer ég aftur til útlandssins í rokið og rigninguna, strákarnir halda að ég stjórni rigningunni með því að fara regngalla og stígvéla laus undir pallinn sem við erum búnir að setja upp, þeir hafa gengið svo langt að krefjast þess að ég fari ekki úr pollagallanum meðan þakið lekur enn.


laugardagur, október 09, 2004

Fjöll, lækir og jarðgöng

Færeyjar eru ekkert annað en fjöll lækir og jarðgöng.

Ég lagði af stað úr bænum þriðjudaginn 21 september klukkan 15:00, leiðin lá til Hafnar í Hornafirði þar sem ég átti pantaða forsetasvítuna á Hótel Höfn. Ég stoppaði þrisvar á leiðinni til Hafnar, pulsa í Vík, kaffi á Klaustri og afvötnun einhversstaðar áður en ég kom til Hafnar. Hótel Höfn er ágætt hótel og morgunmaturinn á við það sem maður hefur komist í á sæmilegustu hótelum í útlandinu.
Daginn eftir var ég kominn út í bíl klukkan átta og búinn að fylla hann af olíu klukkan hálf níu, þá var bara að krossa fingurna í von um að bíllinn komist upp almannaskarðið því ég held að það vanti eitthvað á vélina í þessum blessaða bíl. Ég komst upp Almannaskarðið á ríflegum gönguhraða í fyrsta gír og snúningshraðamælirinn stóð í 3000 af 5000 mögulegum. Skömmu síðar kom ég við í draugabænum Djúpavogi og vr mældur út af heimamönnum þar sem ég drakk morgunkaffið mitt við glugga sem snýr út að höfninni.
Klukkan 11:22 lagði ég bílnum fyrir utan Shell á Egilsstöðum og hringdi í manninn sem ég átti að pikka upp þar, hann var gapandi hissa þegar ég sagðist vera kominn því hann reiknaði ekki með að ég myndi koma svona snemma, ég sagðist hafa farið fjallveginn um öxi og þá fórnaði hann höndum í símann og sagði mér í trúnaði að ég væri klikkaður, því þetta er bara jeppa vegur, það voru svosem engar fréttir því bíllinn sem ég var á drap næstum á sér í bröttustu brekkunni á Öxi (17% halli) snúnigshraðamælirinn komst alla leið í 1500 snúninga og ég var að verða áhyggjufullur um að ég kæmist ekki upp.

**********

Eftir 18 tíma siglingu komum við til Þórshafnar í Færeyjum, þar var að sjáfsögðu rok og rigning,. Leiðsögumaðurinn rataði ekki úr úr þorpinu þannig að við þurftum að koma við á select til að rýna í vegakort. Skrjóðurinn náði mest 80 km hraða í Færeyjum því það var svo hvasst og bíllinn þungur. Við komum til Fuglafjarðar um klukkan þrjú síðdegis, við byrjuðum á að fara í bræðsluna til að fá lykil að húsinu okkar og að tala við kokkinn okkar þannig að við fengjum eitthvað að borða, því næst var farið í Samkeyp til að versla morgunmat. Að lokum fórum við í vinnugalla og hófum verkið á að afferma bílinn.
Meðan við vorum að afferma bílinn gaf gamall maður sig á tal við mig og spurði mig einhverra spurninga á íslensku sem ég leitaðist við að svara með sem einföldustum orðum til þess að karlinn skildi nú eitthvað í því sem ég segði. Þegar við vorum svo búnir að vinna sagði ég ferðafélaganum frá þessum manni sem ég var að tala við og sagðist alveg gapandi hissa á hvað hann talaði góða Íslensku, fékk þá að vita að það væri nú ekkert bogið við að Siglfirðingur kynni eitthvað fyrir sér í Íslensku.