mánudagur, september 25, 2006



Þessir tveir fossar eru í dalnum og fyrir áratug voru stunduð viðskipti fremst í honum.

laugardagur, september 23, 2006




Ég fékk mér göngutúr í dag í Forboðna dalnum. Þið megið reyna að geta hvar á landinu þessi dalur er og hvað hann heitir.

p.s. þetta eru bara skiltin sem urðu beint á vegi mínum. Ég nennti ekki að hlaupa um til að mynda öll hin bannmerkin: einkavegur, einkalóð umferð bönnuð, gangið ekki á grasinu, einka skógrækt, einka girðing og allt það.

fimmtudagur, september 21, 2006

Í dag komu tveir menn í vinnuna til mín og spurðu eftir mér. Þetta var ekki löggan og ekki tollurinn, heldur voru þeir frá stéttarfélaginu mínu, mér var stórlega létt. Þeir voru mættir til að athuga hvort ég vildi vera í trúnaðarmannaráði félagsins. Ég skil ekkert í þessu því ég er ekki einusinni trúnaðarmaður. Ég tók tilboðinu þeirra en skildi samt lítið hvað felst í þessari setu í ráðinu. Ég skildi að ég ætti að mæta þrisvar til fjórum sinnum á ári á fund og ætti að hafa skoðun á hlutunum. Svo væri gott ef ég hringdi í þá öðru hvoru til að tékka á stöðunni. Ég hef ekki hugmynd um hvaða stöðu en það hlýtur að koma í ljós þegar ég hringi í þá. Vel á minnst ég fékk ekkert símanúmer hjá þeim.

Kannski er þetta tómt rugl.

***

Ég fer til Færeyja á mánudag. Ég hef ekki hugmynd um klukkan hvað ég á að fljúga og enn síður hvenær eða hvar ég lendi því það virðist allur gangur á því í hvaða landi þessar vélar lenda þegar þær eru á leið til Eyjanna.

mmmmm hausasúpa á mánudag.

mánudagur, september 11, 2006

Og hvar ætli þetta sé?

laugardagur, september 09, 2006

föstudagur, september 08, 2006

Í gær fórum við í Bíó í fyrsta sinn í eitt og hálft ár. Okkur var boðið á galaforsýningu á myndinni þetta er ekkert mál, en hún fjallar eins og nafnið gefur til kynna um stutta ævi Jóns Páls Sigmarssonar. Myndin var mjög skemmtileg og ekki skemmdi fyrir að herra Ólafur Ragnar Grímsson sat rétt fyrir framan okkur. Hér eftir ætla ég ekki í Bíó nema forsetinn komi með.

****

Enn eina ferðina er mig farið að lengja eftir sendingu frá Amazon. Það virðist vera að eftir því sem Amazon er fljótari að setja í pakkann þá er pósturinn þeimmun lengur að senda pakkaræfilinn.

Kannski er þetta eins og með vegabréfin, þar sem ríkið heldur að það jafni aðstöðumun höfuðborgar og landsbyggðar að stinga draslinu ofan í skúffu í tíu daga svo enginn fái skilríkin sín á undan öðrum. Nú bíður kassinn kannski inni í búri hjá tollinum eftir að tíminn sé komi.

miðvikudagur, september 06, 2006

Eftir því sem ég best veit fer ég aftur til Færeyja að vinna þann 25. Sept og verð út árið. Við förum bara tveir til að byrja með og eigum að vinna úti á bryggju. Jamm það hefði ekki verið galin hugmynd að vinna þetta verk í sumar og verkið sem við unnum í sumar í staðinn núna því það getur verið ansi leiðinlegt veður þarna úti á haustin.

***

Mér finnst nýja nafnið á img gallup ömurlegt. Reyndar finnst mér hallærislegt hvað allt á að heita enskum nöfnum hér á landi. Forstjóri félagsins sem hét Img Gallup kom í fréttunum og afsakaði nafngiftina með því að öll góðu nöfnin í orðabókinni hafi verið upptekin...... ehemm ertu viss um það herra forstjóri?

***

Eftir fréttir helgarinnar ætti maður að vera fullur af áhyggjum yfir að vera að fara að fljúga milli Íslands og Færeyja hálfsmánaðarlega í allt haust. Fyrsta frétt á sunnudag var einmitt um flugvél á leið til Færeyja sem þurfti að lenda í Noregi vegna bilunar í vængbörðum, vélin var ekki talin hafa næga hemlun án barðanna þannig að henni var lent á lengri braut þar sem eingöngu var hægt að bremsa með hjólunum. Nú er það svo að okkur sem höfum flogið oft hér yfir sundið er tíðrætt um hemlun þessara flugvéla sem notaðar eru. Ég hef oftar en einu sinni lent í því að flugvélin kemur inn til lendingar yfir Suðurgötu, þá rétt sleikir hún girðinguna við brautarendann dettur niður rétt við grasið og bremsar svo af öllu afli til þess að ekki þurfi að snúa við áður en beygt er inn að flugstöðinni. Þetta útheimtir slík átök að maður hangir uppi í öryggisbeltinu dágóða stund og allt lauslegt raðar sér í hrúgu fremst í vélinni. Maður reynir svo að finna sitt drasl í hrúgunni þegar maður gengur frá borði.

Þetta gerðist sennilega ekki þegar þeir lentu í Noregi.

sunnudagur, september 03, 2006


Ef vel er rýnt í myndina má sjá okkur hjónin á henni. Eða allavega skuggana af okkur. Þeir sem eru gríðarlega landafróðir geta sett staðsetninguna á þeim stað sem myndin er tekin í athugasemdakerfið.

laugardagur, september 02, 2006

Færeyskan er svooo skemmtileg: Ríðikapping í dag á ríðibreytini í Marknagili í Havn

Í kappingini Trav, gjørdist Máni, við Knút Lútsen nr 1 við tíðini 50,3. Nummar tvey gjørdist Gletta við Marner Joensen og nr trý gjørdist Strúkur við Karin Abrahamsen.