miðvikudagur, apríl 30, 2008


Eldri myndirnar tvær voru teknar 30.apríl 2007 úti í Kína. Þetta eru fyrstu myndirnar tvær sem við sáum af Natalíu Yun. Við fengum líka tvær eða þrjár passamyndir með skýrslunum. Neðsta myndin er tekin síðastliðinn sunnudag á ylströndinni. Það er annars helst að frétta að Skvísan náði sér í sverustu gerð að kvefi með horfossi á við dettifoss. Við höfum þessvegna tekið því rólega síðustu daga.





sunnudagur, apríl 27, 2008


Í dag fórum við unginn í fjöruferð í Nauthólsvík, þar mokuðum við sandi í kappi við Flosa frænda. Það var náttúrulega bongóblíða og fullt af fólki að spóka sig í sólinni. Á stígnum sem liggur framhjá Nauthólsvíkinni var múgur og margmenni á reiðhjólum, línuskautum, hlaupaskóm og einn á gönguskíðum á hjólum.

Þegar við vorum búin að moka nóg var skundað upp á bílastæði, þar blasti við mér par í litlum bíl. Þau voru í miðju foreldramyndandi atferli og kipptu sér ekki mikið upp við að fólk væri á ferðinni allt í kringum bílinn þeirra. Ég sótroðnaði fyrir þeirra hönd og þorði ekki einusinni að taka mynd af þeim til að selja í ódýrt klámblað.

Seinni ferð dagsins var öllu siðsamlegri því þá fórum við Giggo í göngutúr ofan og neðanjarðar í nágrenni Kaldársels. Allir voru í buxum og enginn varð sér til skammar.

laugardagur, apríl 26, 2008








Í dag gengum við pabbi á tvö himin há fjöll, eitt fyrir hádegi og hitt eftir hádegi

sunnudagur, apríl 20, 2008

Ég veit ekki hvort maður hljómar eins og nörd þegar maður segir að það er búið að setja nýjar myndir af Hafnarfirði á Google earth. Ég var að skoða fjallið sem ég bý á þegar ég tók eftir því að verslanirnar hinumegin við lækinn eru komnar inn á kortið. Þá fór ég að skoða og sá að grunnurinn að húsinu sem er verið að bygga hinumegin við götuna er kominn inn. Þá flaug ég yfir á gamla húsið sem við bjuggum í og sá að vinnuskúrarnir voru horfnir af planinu og þá var ég alveg viss um að það væri búið að mynda aftur.





Í gær fórum við Giggo út að labba. Við fórum fyrst og skoðuðum útfallið af einu stærsta ferskvatnsneðanjarðarvatnsfalli landsins í Straumsvík. Við mættum á staðinn á fjöru þannig að maður sá vel hvurslags vatnsflumur gusast út úr hrauninu. Það er frekar magnað að standa á grófri möl í fjörunni og sjá heila á birtast undan tánum á manni án þess að maður verði neitt blautur í lappirnar.

Þegar við vorum búnir að labba um fjöruna og skoða ár sem komu ýmist beljandi upp úr jörðinni eða hurfu ofan í jörðina og komu svo annarsstaðar upp þá settumst við aftur upp í bíl og færðum okkur að Óttastaðaborg. Þar lögðum við af stað í c.a 9 km labb um hraunið ofan Hafnarfjarðar. Við löbbuðum yfir Alfaraleið og sem leið lá upp í Tóhóla þar sem við snerum við og gengum aftur niður í bíl. Við sáum nokkrar rjúpur og mynduðum og virtum fyrir okkur landslagið.

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Nú þegar ég horfi út um eldhúsgluggann minn sé ég samskonar mengun og oft í Beijing, grátt teppi liggur yfir borginni og ég sé rétt grilla í Esjuna gegnum mengunina. Það heyrist ekki oft í fjölmiðlum hvað veldur menguninni sem liggur yfir Beijing en eftir því sem farastjórinn okkar úti sagði er mengunin yfir borginni ekki nema að hluta til af mannavöldum. Stór hluti mengunarinnar á upptök sín austan við borgina í eyðimörk sem er þar. Mengunarskýið sem við sjáum oft á myndum frá borginni er semsagt samskonar mengun og liggur yfir Reykjavík núna þ.e. fjúkandi jarðvegur. Við fórum aðeins út áðan en stoppuðum ekki lengi því sandfokið var svo mikið að maður gat vart opnað augun.



Fyrst ég er byrjaður að tala aðeins um Kína þá er ekki úr vegi að setja tengil á heimasíðu manns sem býr við hliðina á Kínverska sendiráðinu. Hann lenti í því að einhver bráð gáfaður einstaklingur fór húsavillt og byrjaði að mála slagorð á húsið hans.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Ég sé að sumir eru soldið seinir með fréttirnar.

Innlent | mbl.is | 8.4.2008 | 13:49

Ungir veggjakrotarar handsamaðir

Veggjakrotarar á barnaskólaaldri voru gómaðir í Hafnarfirði um helgina. Lögreglan segir, að um hafi verið að ræða tvo pilta sem höfðu að öllum líkindum komist yfir spreybrúsa á heimili annars þeirra en úr brúsanum höfðu þeir úðað á tvö hús, þar af annað íbúðarhús.

Þegar lögreglan kom á vettvang neitaði annar pilturinn með öllu að segja til nafns en hinn var öllu samstarfsfúsari. Faðir þess síðarnefnda bar fljótt að og var honum gerð grein fyrir málinu en að því loknu var haldið á heimili þess fyrrnefnda og rætt við móður hans.

Vel gekk að ná veggjakrotinu af íbúðarhúsinu en óvíst var með hitt húsið.

Það upplýsist hér með að hitt húsið sem þeir tala um er spennistöð í Vallahverfinu.

laugardagur, apríl 05, 2008

Ég gleymdi næstum að minnast á að ég sá þegar lögreglan handtók tvo veggjakrotara í dag. Þeir voru ekki stórir þegar laganna verðir höfðu snúið þá niður og stillt þeim uppvið vegg, þeir voru sennilga ekki heldur neitt sérlega stórir áður en þeir voru gripnir. Ég heyrði þegar annar reyndi að koma sökinni á hinn með því að stynja upp úr sér milli ekkasoganna að hann hefði ekki speyað neitt hann halti bara á brúsanum. Ég held þeir hljóti að hafa leitt þá fyrir dómara og fengið þá hneppta í gæsluvarðhald í minnst viku.
Þó gætu þeir hafa sloppið á því að þeir hafa ekki verið mikið eldri en 6 ára.

Ég sá að það var verið að taka í notkun nýjan komusal í flugstöðinni á Egilsstaðaflugvelli. Ég minnist þess ekki að það hafa verið eitthvað sérstaklega þröngt um mann í þeirri flugstöð þau skipti sem ég hef farið þar í gegn. Ég hef líka farið um Akureyrarflugvöll og flugvöllinn á Ísafirði. Ef ég man rétt þá eru þetta alltsaman ágætar byggingar, snyrtilegar og bjartar. Kannski sísta aðstaðan fyrir vestan.

Ég hef líka farið um Reykjavíkurflugvöll oftar en ég hef tölu á bæði í innanlandsflug og millilandaflug. Þar er farþegum boðið upp á húskofa sem hefur verið byggður utan um bragga sem bretarnir skildu eftir handa Íslendingum þegar þeir fóru. Komusalurinn fyrir millilandaflugið er álíka stór og stofan okkar og einn færibandssturbbur sirka fjögurra metra langur og endar út í horni þar sem töskurnar hrúgast upp og fólk treðst um hvert annað til að finna það sem því tilheyrir.

Ef það á að vera flugvöllur í Vatnsmýri þá verður að vera einhver aðstaða fyrir farþega. Svo einfalt er það. En það er eins og allir samgönguráðherrar séu talsmenn landsbyggðarinnar og settir í embætti til að greiða götu allra annarra en íbúa höfuðborgarsvæðisins. Samanber það að nú er búið að klassa upp flugstöðina á Egilsstöðum meðan höfuðstöðvar innanlandsflugsins eru í bragga sem heldur hvorki vatni né vindum. Ef maður á leið um Reykjavíkurflugvöll í vondu veðri um vetur er eins gott að klæða sig til útiveru því það er mjög kalt þar inni.

Í gær var 4. apríl, þá átti ég afmæli. Ég fékk nokkra gesti í heimsókn og gaf þeim súpu og köku, ég borðaði sjálfur slatta af súpunni, slatta af kökunni, drakk rauðvín og fékk mér svo einn bjór þegar gestirnir voru farnir og hélt svo aðeins áfram með rauðvínið eftir bjórinn. Þrátt fyrir að hafa skellt öllu þessu í magann lanagar mig alveg ofboðslega í eina eða tvær franskar pylsur og ekki væri verra að hafa þær beikonvafðar og borðaðar í námunda við ráðhústorgið í Köben.

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Olli á afmæli í dag. Hann er orðinn eldgamall og geðstirður og ekur um norður Noreg á litlum hraða á gömlum volvo. Hann er búinn að fá sér barðastóran hatt og lætur sig síga í ökumannssætið svo fólk haldi að hann sé enn eldri.

Kristín sem kom með okkur heim frá Kína á líka afmæli í dag. Hún er tveggja ára og svaka dugleg.

Til hamingju með daginn bæði tvö

Best að blanda sér aðeins í þjóðmálin. Mér finnst mótmæli vörubílstjóranna gegn háu olíuverði ekki sniðug. Aftur á móti get ég alveg stutt þá í að það mættu vera fleiri hvíldarstæði svo þeir geti fengið sér lúr við þjóðvegina. Það er nú bara þannig að stjórnvöld hafa voðalega lítið með hækkun eldsneytisverðs að gera. Þetta ræðst allt meira og minna af heimsmarkaðsverði.

Í fyrrasumar lokaði hópur umhverfisverndarsinna Snorrabraut í einhvern smá tíma en eins og flestir vita liggur Snorrabraut þannig að það er hægt að komast framhjá henni á marga vegu án þess að festast eitthvað að ráði. Lögreglan var umsvifalaust send á staðinn til að yfirbuga óróaseggina og þeir gengu býsna hart fram við að snúa suma niður, miðað við fréttaflutning af því.

Ég er nokkuð viss um að enginn hefur tafist neitt að ráði við þessa aðgerð sem fór fram í sól og blíðu seint í júlí, þegar felstir eru í fríi og þeir sem tefjast á Snorrabraut eru einna helst á leið niður í Aktu taktu til að kaupa sér ís eða frá Aktu taktu með ís í maganum.

Í gær stöðvuðu trukkarnir fólk sem var á leið í og úr flugi, þeim fannst allt í lagi að tefja fólkið því áhafnir flugvélanna voru líka fastar í þvögunni og þessvegna væru allir jafn seinir. Þetta var jafn grunnt hugsað og flest annað í þessum mótmælum því svona vitleysisgangur getur kostað það að fólk missir af tengiflugi og getur þess vegna lent í miklum hremmingum og getur verið keðjuverkandi. Það er ekki hægt að ætlast til að malarkeyrandi trukkabílstjórar viti það enda er alltaf beint flug til Benidorm.

Þegar þeir voru hættir að trufla flugfarþega og suðurnesjamenn fóru þeir og lokuðu tengingu Hafnfirðinga og Garðbæinga við helstu heibrigðisstofnanir landsins. Afleiðingarnar sáust í fréttum Ruv í gærkvöld þegar eitthvað konugrey var að reyna að koma pabba sínum á spítala en sá var í miðju hjartaáfalli.Hún mátti gjöra svo vel að aka eftir umferðareyju á móti umferð til að koma kallinum til læknis.

Þrátt fyrir allt þetta gerir lögreglan ekkert til að opna vegina. Enginn handtekinn og enginn snúinn niður.

Svo virðist sem lögreglustjóranum finnist mikilvægara að halda Snorrabrautinni opinni að sumarlagi þannig að fólk komist til að kaupa sér ís.

Já eða einhverjum vinnuvélavegi uppi á hálendi.

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Bubbi byggir er í tækinu og við sitjum spennt og mjálmum og vrúmmum eftir því hvað er á skjánum.

***

Ég hljóp ekki apríl í gær, en ég keypti aftur á móti bensín. Ég hugsaði þegar ég var búinn að versla í matinn að nú væri rétt að fylla tankinn áður en næsta hækkun yrði. Það kostaði 8500 kall að fylla í þetta sinn. Þegar ég fékk mér svo morgunsopann áðan sá ég í einhverju blaðanna að N1 er með tilboð í dag, -25 kall af líternum. Þetta er sennilega ekki eins gott og það hljómar því þetta er væntanlega miðað við fulla þjónustu og þar af leiðandi miðað við þau kjör sem ég er með hjá þeim má segja að þetta sé -14 kr afsláttur sem er þó allnokkuð. Ég er búinn að vera með viðskiptakort frá þeim síðan í haust en hef bara notað það tvisvar til að kaupa bensín og tvisvar til að kaupa rekstrarvörur fyrir bílinn. Það er nefnilega þannig að afslátturinn sem þeir gáfu upp í skilmálunum er ekki meiri en svo að ég versla ennþá á sjálfsafgreiðslustöðvunum og held þannig krónunum inni á reikningnum mínum í stað þess að safna inn á reikning hjá bensínstöðinni. Það er eitthvað kaupfélagslegt við að safna inn á reikning hjá fyrirtæki og geta svo bara tekið sparnaðinn út í vörum hjá þeim.

Má ég þá heldur biðja um ódýrara bensín og geyma sparnaðinn sjálfur og stjórna sjálfur hvar ég eyði honum.