miðvikudagur, janúar 31, 2007

Ég fór með gjafabréfið mitt í Kringluna fyrir helgi og létti aðeins á því með því að uppfæra aðeins göngubúnaðinn minn og dvd hilluna. Ég keypti nýja göngustafi, peysu sem á að losa svita á tæknilegan hátt frá líkamanum og regnbuxur. Ég skildi stafina eftir heima þegar ég fór út aftur á mánudag en buxurnar og peysan komu með. Ég fór svo og vígði peysuna áðan en skildi regnbuxurnar eftir í ferðatöskunni, ég hefði betur farið í þeim því rigingin hér er bæði blaut og nokkuð viðloðandi líka.

***

Ég er að verða búinn að kaupa allt sem ég þarf að kaupa áður en að Kínaferðinni kemur. Nú síðast keypti ég eina litla linsu á myndavélina þannig að ég geti tekið innimyndir innandyra. Gömlu linsurnar eru of stórar til þess þannig að maður varð að bakka alveg út að vegg eða fara út til að ná myndum af fólki án þess að mikilvæga útlimi vantaði á það. Annars eigum við líka eftir að kaupa hús eða íbúð eða eitthvað svoleiðis líka áður en við förum.

***

Ég rakst á flotta myndasíðu hjá BBC um daginn, ég er búinn að eyða mörgum kvöldum í að skoða hana og ekki sér fyrir endann á því. Hér er síðan og hér er flottasta myndin að mínu mati, takið eftir fótabúnaðinum á börnunum.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Ástkær eiginkona mín Anna Kristín\Meinvill á afmæli í dag. Hún er einum degi eldri en í gær.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Ég er mættur aftur á Steininn eins og Norðmaðurinn sem er með okkur kallar eyjarnar. Það tók ekki nema 18 tíma að komast hingað í þetta sinn. Við tókum á loft á réttum tíma frá Reykjavík og flugum sem leið lá til Færeyja. Þegar við áttum að fara að fá okkar hellu fyrir eyrun tilkynnti flugstjórinn að það væri snjókoma á vellinum og við myndum taka auka rúnt kringum steininn, sá aukarúntur stóð í klukkutíma. Öðru hvoru galaði kallinn afturí að við værum með nóg bensín, það hljómaði soldið eins og í myndinni "how to irritate people" þegar flugstjórinn kallaði í hátalarann að það væri allt í lagi með vélina og ekki kviknað í hreyflinum.

Eftir að hafa hagað sér eins og mávur í klukkutíma kallaði hann enn einusinni afturí að hann nennti þessu ekki lengur og ætlaði aftur til Reykjavíkur. Ég leit á klukkuna og sá að það væri tæpt að við gætum lent þar því vellinum er lokað klukkan ellefu á kvöldin. Tveimur mínútum síðar kallaði stjórinn enn einusinni í hátalarann og í þetta sinn var það tilkynning um að við lentum í Keflavík en ekki Reykjavík. Komum inn á hótel upp úr miðnætti, barinn var lokaður og minibarinn tómur þannig að ég fór bara í háttinn. Við flugum af stað aftur klukkan tæplega ellefu og lentum rétt um tólf á hádegi.

Hótelið sem við gistum á er eitt það slappasta sem ég hef gist á, þetta er Flughótel í Keflavík. Ég fékk deluxe herbergi sem var jafn stórt og baðherbergið á herberinu sem við gistum í á Sögu um daginn. Morgunmaturinn var allt í lagi en þegar maður er á hóteli þá finnst mér að það megi vera aðeins meira kólestról í matnum. (egg, bacon, pulsur, bakaðar baunir og fleira bráðdrepandi). Mér fannst staffið þarna líka soldið amatöralegt. Einn starfsmaður hótelsins spurði mig með hvaða félagi við værum þarna og hvaða flugstjóri flygi vélinni....ég tel mig góðan ef ég get sagt hvaða litur er á vélinni.

mánudagur, janúar 15, 2007


Nú nenni é þessu ekki lengur. Ég er búinn að eyða of mörgum mánuðum í vinnu erlendis. Ég fór út að labba í dag með myndavélina og myndaði eitthvað dótarí sem ég sá í snjónum. Ég skemmti mér svo vel við þá iðju að mig langaði ekkert út aftur. Ég tók mynd að gæsum sem fögnuðu bæði jólum og áramótum, en það þykir víst mjög fínt í þeirra hópi að ná því. Ég datt líka aftur fyrir mig í snjó og fékk snjó á hnén og olnbogana við að mynda frosinn gróður.

föstudagur, janúar 12, 2007

Ég er kominn heim í helgarfrí. Það væri ekki í frásögur færandi nema að ég átti að lenda í Reykjavík í hádeginu en fyrir flugtak tilkynnti flugstjórinn að vegna skyggnis þar væri ekki hægt að lenda og því átti að lenda í Keflavík. Svo leið og beið og ekki fór vélin í gang fyrr en seint og um síðir. Hálftíma eftir áætlaða brottför var ekið út á brautarenda og allt þanið í botn og svo skaust vélin upp í loft. Einhversstaðar á leiðinni muldraði flugstjórinn eitthvað óskiljanlegt í hátalarann, ég skildi þó að hann var eitthvað að tala um fyrirhugaða lendingu í Keflavík.

Eftir tæplega eins og hálfs tíma flug var lent í Keflavík í miklu roki og skafrenningi. Vélinni var ekið eitthvað eftir brautinni og svo beygt til hægri út í móa og ekið dágóða stund um gaddfreðna móana því næst vorum við komin inn á eitthvað sem líktist bílastæði, þar hægði á og um stund var eins og við værum villt, sem við vorum því vélin byrjaði að renna til á brautinni þar til hún lenti á fyrstöðu og hætti að renna. Vélinni var snúið hægt við og svo ekið sömu leið til baka og næsta innkeyrsla prófuð. Það gekk öllu betur því nú sá maður flugstöðina birtast úr hríðarkófinu.

Mér varð á orði við vinnufélaga minn að það væri nú skárra að þeir rötuðu ekki á jörðu niðri en í loftinu því þá væri ástæða til að svitna soldið.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Ég er ekki dauður. Ég hef bara ekki nennt að skrifa neitt hérna, enda gerist ekkert sem í frásögur er færandi hjá mér meðan ég geri ekkert annað en að vinna.

***

Það er nú einna helst að frétta að ákveðnir yfirmenn hjá ákveðnu flutningafyrirtæki eru tiltölulega heppnir að ég skuli starfa erlendis þessa dagana því ef svo væri ekki þá hefðu þeir sennilega orðið fyrir líkamsmeiðingum frá mér. Ég er búinn að renna hýru auga til vítissódabrettanna sem eru geymd c.a 20 metra frá þeim stað sem ég vinn á núna og ég er búinn að leysa þetta hyski allt meira og minna upp með sódanum í huganum. Pólon 210 hefur líka komið til álita og svo stakk mín ástkæra systir upp á að fóðra liðið á díoxíni því það fer svo illa með húðina. Það hljómar ekki galið því þar sem ég vinn fellur einmitt til nokkuð af þessu téða díoxíni. Gallinn er bara að ég veit ekki hvað þeir gera við það þegar það er skilið frá lýsinu. Ég spyr bara rannsóknardeildina hvað verði af þessu og hvort ég geti fengið smá. Hvað þarf mikið díoxín til að gera fólk svona eins og hann varð þarna í Úkraínu?

Enívei ég kem heim á morgun.

***