Ég er kominn heim í helgarfrí. Það væri ekki í frásögur færandi nema að ég átti að lenda í Reykjavík í hádeginu en fyrir flugtak tilkynnti flugstjórinn að vegna skyggnis þar væri ekki hægt að lenda og því átti að lenda í Keflavík. Svo leið og beið og ekki fór vélin í gang fyrr en seint og um síðir. Hálftíma eftir áætlaða brottför var ekið út á brautarenda og allt þanið í botn og svo skaust vélin upp í loft. Einhversstaðar á leiðinni muldraði flugstjórinn eitthvað óskiljanlegt í hátalarann, ég skildi þó að hann var eitthvað að tala um fyrirhugaða lendingu í Keflavík.
Eftir tæplega eins og hálfs tíma flug var lent í Keflavík í miklu roki og skafrenningi. Vélinni var ekið eitthvað eftir brautinni og svo beygt til hægri út í móa og ekið dágóða stund um gaddfreðna móana því næst vorum við komin inn á eitthvað sem líktist bílastæði, þar hægði á og um stund var eins og við værum villt, sem við vorum því vélin byrjaði að renna til á brautinni þar til hún lenti á fyrstöðu og hætti að renna. Vélinni var snúið hægt við og svo ekið sömu leið til baka og næsta innkeyrsla prófuð. Það gekk öllu betur því nú sá maður flugstöðina birtast úr hríðarkófinu.
Mér varð á orði við vinnufélaga minn að það væri nú skárra að þeir rötuðu ekki á jörðu niðri en í loftinu því þá væri ástæða til að svitna soldið.
<< Home