Ég fór á jólaball á Laugadagskvöld. Það verður að segjast eins og er að árshátíðir og jólaböll á íslandi verða ansi lítilfjörleg í framtíðinni eftir að hafa upplifað þetta. 130 manns mættu á ballið þar sem allt var á reikning fyrirtækisins og þá meina ég allt.
Ballið var haldið í félagsheimili bæjarins sem er í aðeins tveggja mínútna göngufæri frá húsinu okkar. Við mættum þangað klukkan rétt rúmlega sjö og fengum fordrykk svo var matsalurinn opnaður og okkur hleypt að borðunum. Við ráfuðum um salinn í smá stund og vissum ekkert hvar við ættum að sitja þegar forstjórinn kallaði í okkur og skipaði okkur að sitja hjá sér. Við hlýddum því. Þegar allir voru sestir stóð forstjórinn upp og bauð starfsmenn, maka og Íslensku vini sína velkomna á þessa samkomu, það var soldið gaman.
Öllum sætum fylgdi söngbók upp á rúmlega 100 söngtexta á færeysku, dönsku og ensku á 48 síðum. Við vorum varla búnir að reka gafflana í forréttinn þegar fyrst var staðið upp og byrjað að syngja. Eftir því sem á leið fór maður einhverra hluta vegna að ná færeyskunni betur og svo ekki sé talað um dönskuna.
Þegar forrétturinn var búinn og diskarnir farnir tók við spurningakeppni þar sem salnum var skipt í tvö lið. spurningarnar voru kjánalegar og fengnar úr fyndnum bíóklippum af netinu. Við töpuðum því.
Næst kom aðalrétturinn og þar söng fólk nokkur lög með fullan munn og allir héldust í hendur og vögguðu í takt við tónlistina.
Eftir aðalrétt komu vinsælustu skemmtikraftar Færeyja (halli og laddi) og trylltu salinn með gríni sem við félagar skildum ekki nema að litlu leyti. Svo var sungið.
Næst var komið að heimatilbúnu skemmtiatriði þar sem einhleypi vinnufélagi minn varð fyrir barðinu á skemmtidagskránni þar sem níðst var á honum fyrir kvenmannsleysið. Aftur þurftum við túlk til að fá botn í brandarann.
Svo var sungið fram að eftirréttinum.
Skemmtiatriðum og áti lauk rétt eftir miðnætti og þá tók við drykkja á barnum og dansleikur sem stóð til klukkan sjö um morguninn. það var þó brotið upp með því að borinn var fram morgunverður um klukkan þrjú. Ég hélt mig bara í berjasaftinni og reyndi ekki að fá mér morgunmat því hann var álíka lystugur og þorramaturinn heima.
Ég fór heim klukkan rúmlega þrjú og var mættur í vinnu klukkan rúmlega tíu.
Þegar ég vaknaði var ég með einhvern berjalit á vörunum og tungunni.
Kannski ekki alveg stálsleginn en eftir nokkrar treo og tvær pulsur klukkan þrjú um daginn var ég orðinn nokkuð brattur.
Það voru ekki allir brattir þegar þeir mættu í morgun. sumir báru það með sér að hafa ekki farið fram úr rúmi í gær.
<< Home