laugardagur, október 14, 2006

Jæja ég er kominn með tengingu hér í Færeyjum. Það er náttúrulega enginn á msn þegar ég loksins henglaðist á netið.

Ég fékk einhverja svakalega fína tengingu með loftneti sem drífur yfir fjörðinn og í einhverja dós sem tæknistjórinn kom með og þaðan í routerinn minn sem tekur merkið og sendir aftur út í loftið og í tölvuna mína og þannig kemst ég á netið. gasalega sniðugt

****

Við komum hingað um miðjan dag á mánudag, allt gekk eins og venjulega. Meira að segja aðflugið hingað var með ljúfasta móti. Við flugum í stórum boga yfir útfallið úr stærsta stöðuvatni Færeyja og komum svo inn til lendingar á flugvöllinn hér í Vogum, lendingin var í meðallagi hörð og ekkert athugavert við hana. Við stigum út og fórum beint að vinna. Morguninn eftir kom vinnufélagi minn til mín og sagði mér að Atlantic Airways hefði misst vél. Hann vissi ekki hvort einhverjir hefðu dáið eða slasast, bara að þeir hefðu misst vél og það hafði kviknað í henni við lendingu í Noregi.

Við fréttum daginn eftir að vélin sem fórst var sú sama og sú sem við höfðum stigið út úr sextán klukkustundum fyrr.

Það er soldið skrýtið og óraunverulegt að sjá mynd af brennandi flugvélaflaki í blöðunum og horfa á þann hluta sem geymdi sæti 3A og ímynda sér að maður hafi sjálfur staðið upp úr þessu sama sæti stuttu áður en það brann með öllu hinu þegar vélinni hlekktist á.

***

Hér er búið að vera fyrstaklassa skítaveður frá því við komum. Hér skiptast á skúrir og rigning, rok og ofsaveður. Hvar er slyddan til að toppa þetta?