miðvikudagur, september 06, 2006

Eftir því sem ég best veit fer ég aftur til Færeyja að vinna þann 25. Sept og verð út árið. Við förum bara tveir til að byrja með og eigum að vinna úti á bryggju. Jamm það hefði ekki verið galin hugmynd að vinna þetta verk í sumar og verkið sem við unnum í sumar í staðinn núna því það getur verið ansi leiðinlegt veður þarna úti á haustin.

***

Mér finnst nýja nafnið á img gallup ömurlegt. Reyndar finnst mér hallærislegt hvað allt á að heita enskum nöfnum hér á landi. Forstjóri félagsins sem hét Img Gallup kom í fréttunum og afsakaði nafngiftina með því að öll góðu nöfnin í orðabókinni hafi verið upptekin...... ehemm ertu viss um það herra forstjóri?

***

Eftir fréttir helgarinnar ætti maður að vera fullur af áhyggjum yfir að vera að fara að fljúga milli Íslands og Færeyja hálfsmánaðarlega í allt haust. Fyrsta frétt á sunnudag var einmitt um flugvél á leið til Færeyja sem þurfti að lenda í Noregi vegna bilunar í vængbörðum, vélin var ekki talin hafa næga hemlun án barðanna þannig að henni var lent á lengri braut þar sem eingöngu var hægt að bremsa með hjólunum. Nú er það svo að okkur sem höfum flogið oft hér yfir sundið er tíðrætt um hemlun þessara flugvéla sem notaðar eru. Ég hef oftar en einu sinni lent í því að flugvélin kemur inn til lendingar yfir Suðurgötu, þá rétt sleikir hún girðinguna við brautarendann dettur niður rétt við grasið og bremsar svo af öllu afli til þess að ekki þurfi að snúa við áður en beygt er inn að flugstöðinni. Þetta útheimtir slík átök að maður hangir uppi í öryggisbeltinu dágóða stund og allt lauslegt raðar sér í hrúgu fremst í vélinni. Maður reynir svo að finna sitt drasl í hrúgunni þegar maður gengur frá borði.

Þetta gerðist sennilega ekki þegar þeir lentu í Noregi.