þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Ég er að gera tilraun með að frysta á mér löppina til þess að sjá hvort ég nái bólgu úr sköflungnum. Nú er ég búinn að hafa kælinu á leggnum í fimm mínútur og er annaðhvort strax farinn að greina lækningu eða þá er ég byrjaður að dofna í löppinni. Það versta sem getur gerst er að maður fái kalsár undan pokanum og það þurfi að taka staurinn af.
Svo segja menn að það sé hollt að stunda hreyfingu og íþróttir.

****

Í dag fengum við fréttir þess efnis að ekkert væri að frétta af okkar málum í Kína. Þetta munu vera enn minni fréttir en engar.

***

Leyniþjónustan kom hér við áðan til að vita hvort við ættum sjónvarp eða útvarp. Þeim kom ekki við hvort við ættum myndavél, eldavél, brauðrist eða bakaraofn neibb þeir vildu vita hvort við ættum sjónvarp. Ég komst ekki til dyra vegna þess að ég er að reyna að frysta á mér fótinn. Ég vissi ekki að frúin gæti verði svona viðskotaill. Ég var bara að hlusta á rólegheita músík þegar hún kom og sótti kjúklingaskærin í eldhússkúffuna og hljóp svo fram, ég heyrði eitthvað vein og gott ef einhver skrækti ekki líka á ganginum. Næst kvað við hár hurðaskellur og frúin birtist aftur með skærin. Hún henti þeim beint í uppþvottavélina en puttarnir af njósnaranum lentu í nammiskálinni á borðinu. Mér fannst þetta nú soldill óþarfi því það var nóg til af skálum og hún þurfti ekki að henda puttunum akkúrat í skálina sem ég var að nota.