fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Ég er kominn aftur hingað út á sker. Við komum lengri leiðina í þetta sinn. Fyrst var sagt að vélinni seinkaði um þrjá tíma og korter og svo var sagt að við ættum að mæta þremur korterum eftir upphaflegu áætlun, þ.e. upphaflegi tíminn var 19:45 en okkur gert að mæta 20:30 því við ættum að fara með rútu til Keflavíkur. Ég spurði dömuna í innrituninni hverju sætti að við ættum að fara til Keflavíkur, hún svaraði því til að vélin væri of stór til að lenda í Reykjavík. Mér fannst það soldið skrýtið því ef hún gæti ekki lent í Reykjavík vegna stærðar þá væri útilokað að hún gæti lent í Færeyjum því völlurinn hér er enn minni en Reykjavíkurflugvöllur.

Ég hélt að nú værum við á leið til Bergen eða Köben og kæmum svo þaðan morguninn eftir og var frekar fúll yfir því að fá ekki bara að sofa eina nótt enn í mínu rúmi.

Þegar ég var búinn að horfa á ekkert út um gluggann á flugstöðinni í góðan klukkutíma var mér skipað að fara út í rútu sem var komin út á flugbrautina. Það var ískalt í rútunni og eitthvað skrýtið hljóð sem átti eftir að verða enn skrýtnara þegar við lögðum af stað.

Þessi bílferð var hin mesta skemmtun og svei mér þá ef rútubílstjórinn var ekki bara álíka kalufskur við gírkassann og danskur vinur mömmu og pabba sem "lærði" að keyra bíl um fimmtugt. Hann prófaði alla gíra tilviljanakennt upp og niður og út og suður án þess að finna nokkurn sem virkaði nógu vel til að rútan hreyfðist úr stað.

jæja allavega við vorum ekkert vissir um að við kæmumst upp brekkuna á Bústaðaveginum þar sem hann liggur um Öskjuhlíð, en með ótrúlegri elju en minni kunnáttu gat kall kvölin komið rútunni í einhvern gír sem kom henni upp brekkuna og svei mér þá ef þetta var ekki bara universalgírinn sem hann notaði alla leiðina því við siluðumst á ca 35 kmh til Kef.

Þegar við komum til keflavíkur tók við bið eftir rellunni sem var ekki lögð af stað frá Færeyjum þegar við komum í flugstöðina þannig að við fengum góðan tíma til að velja okkur sælgæti og bjór til að hafa með okkur.

Okkur til mikillar gleði birtist svo vél frá atlantic airways við landganginn um miðnætti því þá vissum viðað við kæmumst beint hingað. Við komum hingað í húsið okkar klukkan þrjú um nóttina dauðfegnir yfir að hafa ekki þurft að taka auka rúnt til annars lands.

Ég botna samt ekkert í þessum vitleysingum sem vinna á Reykjavíkurflugvelli að svara bara einhverju út í loftið þegar maður spyr um ástæðu þess að vera sendur á annan flugvöll. Ástæðan fyrir þessu aukaferðalagi er að Reykjavíkurflugvöllur lokar klukkan ellefu.