sunnudagur, júní 26, 2005

Kartöflurnar soðnar og ég ekki enn byrjaður að reykja

Þannig er nú það. Ég mátti gjöra svo vel að mæta í vinnu í gær. Það var nú í lagi því það var venjulegt helgarveður á hraðferð.

*****

Ég gerði mér lítið fyrir og gekk um hálendi Hafnarfjarðar í dag í blíðskaparveðri. Erindi mitt var að finna merki í hinum margrómaða ratleik sem stendur nú sem hæst. Ég fann fimm merki sem voru öll á mjög auðfundnum stöðum.

Hardcore kaflinn er eftir. Ég var orðinn eftirbátur þriðjudagsgönguvinafélagsins sprett úr spori þannig að ég mátti spenna á mig spretthörðu gönguskóna og þyrla ryki um sveitirnar.

Það lá svo mikið við að dragast ekki aftur úr að myndavélin var ekki tekin með til að augað færi nú ekki að hægja á mér.

Ég sá á leiðinni í það minnsta fjórar hasspípur sem einhverjir hafa notað þarna í hálöndunum, þannig að það er greinilega oft "stuð" þarna í Kaldárselinu.

Ég þarf að finna svínafeiti til að bera á skóna mína því það er skuggalegt hvað þeir spænast upp þegar maður gengur í svona hrauni af og til.

******

Ég hef alveg gleymt að minnast á að jeppinn er kominn af gjörgæsludeild yfir á líknardeild, hjartað er í lagi en skrokkurinn er búinn. Ég reif eitthvað lauslegt drasl úr honum sem nýtist í aðrar sjálfrennireiðar. Öllum framkvæmdum er hérmeð lokið og má þá bara fara að draga líkið á haugana.

******

Ég hlakka ógurlega til að komast í sumarfrí. Ég ætla að setjast í græna stólinn þann 15. júlí og ætla ekki að standa upp úr honum fyrr en eftir verslunarmannahelgi. Kannski maður kaupi bara landa(meidinsveitin) og skelli sér einusinni á almennilegt kojufyllerí.

******

Eins gott að skrifstofustóllinn er á hjólum, því nýji skjárinn er svo stór að maður þarf að renna sér framhjá ef maður þarf að skoða eitthvað á sitthvorum kantinum.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Tómur haus og tómur magi

Ég er að sjóða kartöflur. Ég er eitthvað svo eirðarlaus að mér er skapi næst að byrja að reykja eða eitthvað bara til að myrða tímann. Ég fór sársvangur í Fjarðarkaup áðan en mér datt ekkert í hug að kaupa í matinn. Keypti samt eitthvað smá og ís á eftir.

Þetta kallast sko spennufall.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Hálfvitar á hálfvita ofan

Held að Ellý Erlingsdóttir ætti að smella sér inn í kennslustofuna aftur frekar en að vera eitthvað að braska með náttúruperlur okkar Hafnfirðinga. Áfram VG niður með hina.

Verða menn ekki annars enn af aurum apar? hver borgar hverjum hvað til að fá eitt fjall til afnota? og hvernig er hægt að segja að allt verði fært til fyrra horfs eftir svíðingar, sprengingar, utanvegaakstur og fleira rask. Afhverju fer Dirty Harry ekki í Yellowstone þjóðgarðinn til að finna sér hól til að sprengja?

Eníhá, ég ætla ekki að kjósa einhvern sem gefur út framkvæmdaleyfi á krýsuvíkursvæðinu.

Held reyndar að ef það stendur svo tæpt að fá útlendinga til að taka myndir af landslaginu okkar að það á að gefa afslátt af umhverfisvernd í þágu nokkurra dollara undir borðið, þá er sennilega best að við eigum landslagið bara út af fyrir okkur.

Hér ætla ég að setja upp fjögur dæmi um staði á íslandi sem verða lokaðir Íslendingum til skoðunnar eða hafa verið lokaðir:
Arnarfell í Krýsuvík-lokað vegna kvikmyndatöku
Svæðið ofan jökulsárlóns fyrir Batman-lokað vegna kvikmyndatöku
Kárahnjúkar-lokað vegna umhverfisslyss
Heiðarvatn í Mýrdal-lokað vegna fiskeldisdrauma brjálæðings frá Sviss
Það er sennilega margt sem ég veit ekki um en þaetta er það sem kom upp í hugann við fyrstu hugsun. Ef þið vitið um fleira skrifið þá í commentin.

Ég skil ekki afhverju mótorhjólamenn og aðrir akstursíþróttamenn þurfa alltaf að vera á hrakhólum með æfingasvæði meðan útlendingar fá að komast upp með hvað sem er hér á landi og alltaf virðist til eitthvað svæði sem útlendingarnir fá að reka skóflu niður í.

sunnudagur, júní 19, 2005

Ferðalag

Við keyrðum suðurlandið þvert og endilangt á laugardaginn, það eru komnar inn myndir frá túrnum.

föstudagur, júní 17, 2005

Til hamingju með daginn

Jæja þá er sautjándi júní genginn í garð. Gamla tuggan segir að nú ætti að vera galið veður en það er ekki galið heldur er það með ágætum miklum.

Ég minnist ekki sautjánda júní sem óveðursdags í mörg ár en það er nú annað mál.

Hér er síða sem hægt er að fara inn á til að glöggva sig á veðrinu á þeim stöðum sem maður ætlar að heimsækja, nú þarf ekki að reiða sig á bensínstöðvastarfsmenn í veðurlýsingu heldur brunar maður bara á netið og kannar sjálfur hvort rignir eður ei.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Skjár

Gamli skjárinn gaf upp öndina um daginn, ég komst ekkert á netið í allavega sólarhring. Það útskýrir ekki framtaksleysið hér á síðunni, ætli það skrifist ekki frekar á óhemju framtakssemi á öðrum sviðum. Ég er byrjaður að laga jeppann, þannig að ef hann á að klárast einhverntíman verður maður að halda sér að verki. Ég tók mér frí úr vinnunni í dag svo ég gæti farið í vinnuna í dag til að fúska fyrir sjálfan mig, er maður klikk eða hvað?

Ég keypti líka nýjan skjá á tilboði í BT, ég fór með ónýta skjáinn til þeirra og setti hann upp í nýjan 19" flatan Medion skjá. Obboslega hugulsamt af þeim að fara svona í sorpu fyrir mig.

********

Ég lagði land undir fót (dekk) á föstudaginn fyrir viku. Ferðinni var heitið Westur á firði í árlegan veiðitúr með verkstæðiskörlunum á verkstæðinu sem tengdó á, ég vildi hafa veitt meira en ef maður tekur samanlagðan afla allra gæti þetta talist nokkuð ágætt, loka talan var eitthvað um 100 stk hjá hópnum, þar af var ég með 6 stk og missti sennilega 600 stk því þeir tóku óvenju grannt miðað við agnið sem ég notaði.

*******

Seytjándi júní á morgun hmmmm hvað ætti maður að gera annað en að leggjast grútskítugur undir bíl til að halda áfram að smíða grind í hann?

Litla frænka mín er ekki par hrifin af mér þegar ég er með heyrnarhlífar, hjálm og rafsuðugrímu við að gera við því hún þolir hvorki hávaða né persónuhlífar sem hylja andlitið á manni.

Dudda kikka og boppa segir hún, en það myndi útleggjast sem Haukur slípar og bankar. það verður fróðlegt að heyra hvað hún kemur til með að kalla það þegar ég byrja að sjóða.

*****

Úúúúúúúúúú alvöru terroristar eru komnir til Íslands. Best að loka þá inni svo þeir kenni ekki sárasaklausum Íslendingum að sletta fleiru en grænni súrmjólk. Það væri verra ef þeir kenndu þeim tómatakast líka, og eggin maður eggin þá eru menn fullnuma þegar þeir kunna að grýta eggjum svo vel sé. Annars er ég ekki viss um að maður grýti eggjum, ég held maður kasti eggjum og grýti steinum er það ekki annars?

miðvikudagur, júní 08, 2005

Myndir

Ég setti slatta af myndum á síðuna mína nú rétt í þessu. Þetta eru myndir frá labbinu okkar um þarsíðustu helgi upp að Glymi. Smellið hér til að skoða.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Fann uppskrift

Ég fann uppskrift að silungi á netinu, reyndar var það uppskrift að ýsu sem ég fann en skipti henni bara út fyrir silung.


*******


Jæja fleiri sannanir þess að Garðabær er skítapleis.


******

Fór á Skólavörðustíginn í dag til að kaupa miða á tónleika með Anthony and the Johnsons handa okkur Önnu í dag. Það tókst nú ekki fyrr en í annari tilraun því ég átti ekkert klink og varð að finna mér nískupúkastæði svo ég ætti ekki á hættu að það kæmi einhver stöðumælasnillingur og skrifaði gíróseðil á framrúðuna mína.

Ef einhver hefur áhuga á að tékka á þessu gallsúra stöffi sem Anthony and the Johnsons framleiða þá má nálgast heyrnarhorn hér.

******

Voðalega er jeppinn mikið ryðgaður sumsstaðar, ég er búinn að rífa flest af honum sem ég ætla að rífa af, svo er bara að byrja að bæta það sem bæta þarf.

*****

Alveg gæti ég nú gubbað yfir þessari leiðinda plötu sem Coldplay eru búnir að grenja inn á.

mánudagur, júní 06, 2005

Veiði

Við Orkuveitustarfsmaðurinn fórum í veiði um helgina, stefnan var sett á Hítarvatn. Afli var með ágætum og veðrið var æði.

Ég er búinn að leita netið þvert og endilangt að uppskrifum að silungi.


*******

Mig langar í sumarfrí, langt og gott sumarfrí.

******

Næsta helgi er fríhelgi, þá á að skella sér Westur á firði í veiði í Selvatni, árlegur túr með bifvélavirkjunum.