sunnudagur, júní 26, 2005

Kartöflurnar soðnar og ég ekki enn byrjaður að reykja

Þannig er nú það. Ég mátti gjöra svo vel að mæta í vinnu í gær. Það var nú í lagi því það var venjulegt helgarveður á hraðferð.

*****

Ég gerði mér lítið fyrir og gekk um hálendi Hafnarfjarðar í dag í blíðskaparveðri. Erindi mitt var að finna merki í hinum margrómaða ratleik sem stendur nú sem hæst. Ég fann fimm merki sem voru öll á mjög auðfundnum stöðum.

Hardcore kaflinn er eftir. Ég var orðinn eftirbátur þriðjudagsgönguvinafélagsins sprett úr spori þannig að ég mátti spenna á mig spretthörðu gönguskóna og þyrla ryki um sveitirnar.

Það lá svo mikið við að dragast ekki aftur úr að myndavélin var ekki tekin með til að augað færi nú ekki að hægja á mér.

Ég sá á leiðinni í það minnsta fjórar hasspípur sem einhverjir hafa notað þarna í hálöndunum, þannig að það er greinilega oft "stuð" þarna í Kaldárselinu.

Ég þarf að finna svínafeiti til að bera á skóna mína því það er skuggalegt hvað þeir spænast upp þegar maður gengur í svona hrauni af og til.

******

Ég hef alveg gleymt að minnast á að jeppinn er kominn af gjörgæsludeild yfir á líknardeild, hjartað er í lagi en skrokkurinn er búinn. Ég reif eitthvað lauslegt drasl úr honum sem nýtist í aðrar sjálfrennireiðar. Öllum framkvæmdum er hérmeð lokið og má þá bara fara að draga líkið á haugana.

******

Ég hlakka ógurlega til að komast í sumarfrí. Ég ætla að setjast í græna stólinn þann 15. júlí og ætla ekki að standa upp úr honum fyrr en eftir verslunarmannahelgi. Kannski maður kaupi bara landa(meidinsveitin) og skelli sér einusinni á almennilegt kojufyllerí.

******

Eins gott að skrifstofustóllinn er á hjólum, því nýji skjárinn er svo stór að maður þarf að renna sér framhjá ef maður þarf að skoða eitthvað á sitthvorum kantinum.