fimmtudagur, júní 16, 2005

Skjár

Gamli skjárinn gaf upp öndina um daginn, ég komst ekkert á netið í allavega sólarhring. Það útskýrir ekki framtaksleysið hér á síðunni, ætli það skrifist ekki frekar á óhemju framtakssemi á öðrum sviðum. Ég er byrjaður að laga jeppann, þannig að ef hann á að klárast einhverntíman verður maður að halda sér að verki. Ég tók mér frí úr vinnunni í dag svo ég gæti farið í vinnuna í dag til að fúska fyrir sjálfan mig, er maður klikk eða hvað?

Ég keypti líka nýjan skjá á tilboði í BT, ég fór með ónýta skjáinn til þeirra og setti hann upp í nýjan 19" flatan Medion skjá. Obboslega hugulsamt af þeim að fara svona í sorpu fyrir mig.

********

Ég lagði land undir fót (dekk) á föstudaginn fyrir viku. Ferðinni var heitið Westur á firði í árlegan veiðitúr með verkstæðiskörlunum á verkstæðinu sem tengdó á, ég vildi hafa veitt meira en ef maður tekur samanlagðan afla allra gæti þetta talist nokkuð ágætt, loka talan var eitthvað um 100 stk hjá hópnum, þar af var ég með 6 stk og missti sennilega 600 stk því þeir tóku óvenju grannt miðað við agnið sem ég notaði.

*******

Seytjándi júní á morgun hmmmm hvað ætti maður að gera annað en að leggjast grútskítugur undir bíl til að halda áfram að smíða grind í hann?

Litla frænka mín er ekki par hrifin af mér þegar ég er með heyrnarhlífar, hjálm og rafsuðugrímu við að gera við því hún þolir hvorki hávaða né persónuhlífar sem hylja andlitið á manni.

Dudda kikka og boppa segir hún, en það myndi útleggjast sem Haukur slípar og bankar. það verður fróðlegt að heyra hvað hún kemur til með að kalla það þegar ég byrja að sjóða.

*****

Úúúúúúúúúú alvöru terroristar eru komnir til Íslands. Best að loka þá inni svo þeir kenni ekki sárasaklausum Íslendingum að sletta fleiru en grænni súrmjólk. Það væri verra ef þeir kenndu þeim tómatakast líka, og eggin maður eggin þá eru menn fullnuma þegar þeir kunna að grýta eggjum svo vel sé. Annars er ég ekki viss um að maður grýti eggjum, ég held maður kasti eggjum og grýti steinum er það ekki annars?