sunnudagur, maí 22, 2005

Eurovisionpartý

Við Meinvill fórum í tilvonandi höfuðborg landsins (kópavog) í gær til þess að horfa á Eurovision eða Evrósýn ef maður snarar þessu yfir gamla góða. Meinvill datt í það en ég hrundi í það. Ég verð bara að viðurkenna að ég var sennilega ekki þessi glansandi skemmtilegi með martiniglasið og ólífuna.

Ég hélt með Noregi eins og flestir aðrir Íslendingar. Noregur tapaði eins og allir nema Grikkir.

Ég er búinn að vara ÞUNNUR í dag, svo þunnur að ég sofnaði 18 eða 19 sinnum yfir formúlunni sem var hvort eð er eins og alltaf hund leiðinleg þegar keppt er á þessum járnbrautarteinum.

Man ekki hvort ég minntist á það hér að ofan að ég er búinn að vera mjög "lasinn" í dag.

Einusinni var þetta nú normið að fara á fyllerí hvenær sem færi gafst og þá þótti lítið bogið við að vera þunnur tvo daga í viku allt árið, nú grætur maður hvern dag sem eyðileggst af völdum áfengisdrykkju.

Ég ætla samt ekki að kaupa álf, mér finnst lítið varið í að kaupa loðkvikindi á uppsprengdu verði til þess eins að styrkja unglingadópista. Neibb held ég styðji frekar eitthvað annað.

********

Ég tók MP3 spilarann ekki með mér í vinnuna í gær, svakalega sá ég eftir því, þannig er nefnilega mál með vexti að það er ekki hægt að kveikja á útvarpi á Laugadögum því prógrammið er fyrir neðan allar hellur á öllum stöðvum. Steininn tók þó úr eftir hádegi í gær þegar þáttarstjórnandinn kveikti forvitni mína með því að segjast vera stödd í Kópavogi og þar væri heillöng bílaröð og allir að bíða eftir því sama, forvitni mín var vakin og ég hækkaði í útvarpinu svo ég missti nú ekki af hvað væri á seyði. Svarsins var ekki langt að bíða, jebb ný bensínbúlla opnuð í beinni útsendingu á landsvísu. Þetta á að heita menningarstofnun sem leggst svo lágt að hafa fólk í vinnu og væntanlega á kaupi við að senda út frá bensínstöð og í þokkabót sjálfsafgreiðslustöð.

Ætli maður geti hringt í rás tvö og fengið mann á staðinn til að lýsa því ef manni dytti nú í hug að mála hjá sér þakið?Hversu djúpt getur ein stofnun sokkið áður en botninum er náð?

Það er allavega kostur að nú liggur leiðin örugglega uppávið.

******